21.11.1934
Efri deild: 44. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1580 í B-deild Alþingistíðinda. (1647)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Magnús Guðmundsson:

Ég skal ekki ræða um þetta óskiljanlega ákvæði, en ég verð að segja það, að mér finnst það torvelt jafnvel eftir skýringu hæstv. ráðh., og skýringarlaust er það óskiljanlegt.

En ég stóð aðallega upp til þess að beina fáeinum orðum til hv. 4. landsk., út af bifreiðarstjórunum, sem hann ber svo mjög fyrir brjósti, að hann vill ekki láta refsa þeim, þó þeir brjóti lögin vísvitandi. Hv. þm. talaði ekkert um kjarna málsins, heldur var hann að setja út á orðalagið. Það er nú víða í þessu frv., sem hægt er að setja út á orðalagið, og ef maður greiddi atkv. eftir því, þá mundi maður sennilega greiða atkv. móti öllu frv. En ég ætla að bera fram brtt. við þetta ákvæði, svo hv. 4. landsk. þurfi ekki að fælast orðalagið. Að vísu er mér ekki skylt að selja bót á þessi föt, en ég ætla þó að gera það, og legg ég til, að orðin „ábyrgð og“ falli niður úr 4. brtt. síðari málsgr.