29.10.1934
Neðri deild: 22. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1243 í B-deild Alþingistíðinda. (1807)

5. mál, útflutningsgjald

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Það er dálítið hæpin fullyrðing hjá sumum hv. þm., að niðurfelling útflutningsgjalds af landbúnaðarafurðum hljóti óhjákvæmilega að leiða af sér niðurfelling útflutningsgjalds af sjávarafurðum. Útflutningsjald af sjávarafurðum má nefnilega skoða sem greiðslu upp í þann kostnað, sem ríkissjóður hefir af sjávarútgerðinni, sérstaklega landhelgiskostnaðinn, sem gengur til þess að verja þennan almenning kringum landið, til hagsbóta fyrir útgerðina. Hitt er rétt að athuga, að þetta gjald fari ekki út í öfgar, og ég get vel gengið inn á það, að rétt sé að athuga, hvort ekki sé kominn tími til að færa niður þetta gjald, t. d. á síldarmjöli og fóðurmjöli, og vil ég í því sambandi mælast til þess við hv. 6. landsk., að hann taki aftur sína brtt. til 3. umr.

Eins og áður hefir verið getið hér í hv. þd., verður á næsta sumri að útvega verksmiðjunum meiri síld til vinnslu en þær hafa haft og það til stórra muna meiri. Og það getur vel verið, að bezta ráðið til þess að hvetja síldveiðiskipin til að láta síld í bræðslu, sé sú, að halda ekki allt of háu útflutningsgjaldi á síldarmjölið. Ég sé, að nokkur hluti þeirrar vöru, sem verksmiðjurnar framleiða, hefir lægra útflutningsgjald. Það er síldarolían. En ég sé ekki neina ástæðu til þess að hafa þetta gjald hærra af síldarmjölinu en af olíunni. Ég skal viðurkenna það, að um talsvert mikinn tekjumissi er að ræða fyrir ríkið, ef gjald þetta verður lækkað að mun, en þegar um það er að ræða að hjálpa einum atvinnuvegi, þá má ekki horfa í það eitt, enda getur tapið unnizt upp á öðrum sviðum. Og hvað snertir rekstur ríkisins á sínum síldarverksmiðjum, þá er ég ekki í vafa um það, að ríkið vinnur það upp á rekstri þeirra, sem það tapar af útflutningsgjaldi af því síldarmjöli, sem þær vinna. Útflutningsgjald af síldarmjöli hefir verið óeðlilega hátt og er það enn. Ég hygg, að upphaflega hafi það verið selt svo hátt vegna þess, að svo margar verksmiðjur voru upphaflega eign útlendinga, og þótti þá rétt að ná sem mestu af þeirra gróða í ríkissjóðinn, en nú eru tímarnir breyttir, allt hefir fallið í verði, og miðað við það, sem verksmiðjurnar verða að borga fyrir hrávöruna, og útflutningsgjaldið tvímælalaust allt of hátt.