15.10.1934
Neðri deild: 10. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1278 í B-deild Alþingistíðinda. (1896)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég óttast, að hv. þm. Snæf. sé ekki í sem beztu ásigkomulagi, því að hann sér eintóma drauga nú um hábjartan daginn í sambandi við þetta frv. og verkefni þeirrar n., sem hér er um að ræða.

Hv. þm. hélt því þannig fram, að stj. hefði átt kost á samvinnu við þekkingarríkustu menn atvinnuveganna, en hefði hafnað þeirri samvinnu til þess að kjósa í hennar stað einlita, harðsvíraða pólitíska baráttumenn, og steytti nú „rauða hnefann“ framan í máttarstólpa atvinnulífsins. Hv. þm. orðaði þetta að vísu ekki svo en hann meinti það. Verð ég að biðja hv. þm. Snæf. að færa þessum fullyrðingum sínum einhvern stað næst þegar hann talar.

Hv. þm. var hér með fullyrðingar, sem blöð flokks hans hafa viljað ósanna, a. m. k. hefi ég ekki heyrt það fyrr en nú, er ég heyri það af vörum hv. þm. Snæf., að Sjálfstfl. hafi verið reiðubúinn til samvinnu um till. um nýtt skipulag á þjóðarbúinu. Sjálfstfl. hefir til þessa haldið því fram, að atvinnurekstur allur og viðskipti ættu að vera í höndum einstaklinga, en ekki hins opinbera, að því verr gegndi, sem afskipti hins opinbera af atvinnulífinu væru meiri. Og þetta atriðið í stefnuskrá Alþfl., sem hv. þm. vitnaði í, var ein aðaltuggan í árásarræðum andstæðinga okkar jafnaðarmanna fyrir síðustu kosningar. Sjálfstæðismenn töluðu þá af mikilli vandlætingu um þetta nefndarbákn, sem við vildum koma upp, í bitlingaskyni fyrst og fremst, auðvitað, og tjáðu sig ekki vilja leggja hönd að slíkum hégóma. Veit ég, að hv. þm. Snæf. man vel eftir því, hvernig látið var út af till. um þessa nefndarskipun.

Þá minntist hv. þm. Snæf. á hina mjög svo leiðinlegu tilviljun í Skagafirði, sem hann sagði, að hefði orðið því valdandi, að Sjálfstfl. náði ekki völdunum að þessu sinni. Hefi ég nú að vísu aldrei heyrt því lýst yfir af hálfu Bændafl., að hann hafi verið ráðinn og reiðubúinn til að mynd. stj. með sjálfstæðismönnum, þótt vel megi þetta svo hafa verið, en þetta er held ég í þriðja sinn, sem ég heyri þessu lýst yfir af sjálfstæðismönnum.

Ef marka má orð hv. þm. Snæf., eru nú einhver veðrabrigði í Sjálfstfl., því að hv. þm. skýrir frá því, eins og ég veik að áður, að Sjálfstfl. vilji gjarnan taka þátt í störfum skipulagsn., og af því að ég er gæfur og friðsamur maður, vil ég fyrir mitt leyti stuðla að því, að það verði athugað af n. þeirri, sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, hvaða möguleikar eru á, að þetta megi verða. Eins og ég tók fram, hafði ég skilið það svo af ræðum sjálfstæðismanna fyrir kosningarnar og skrifum flokksblaðanna, að Sjálfstfl. vildi ekki taka þátt í þessu starfi, en sé það svo, að flokkurinn óski þess nú, myndi ég fyrir mitt leyti vilja leggja til, að það verði athugað í n., hvort hægt er að ganga til móts við óskir flokksins í þessu efni.

Hv. þm. sagði það vera virðingarvert af Alþfl. að vilja efna þau loforð, sem flokkurinn hefði gefið fyrir kosningarnar. Sömuleiðis taldi hv. þm. það virðingarvert af stj., að hún vildi láta rannsaka, hvar umbóta væri þörf, hvaða umbætur væru æskilegastar o. s. frv. Er ég sammála hv. þm. Snæf. um þetta. En hv. þm. taldi, að framkvæmdirnar á þessu hefðu orðið á þá leið hjá stj., að þær væru verri en engar. Stj. hefði gengið fram hjá mönnum, sem þekkinguna hefðu á þessum málum, og tekið í þeirra stað harðsnúna pólitíska baráttumenn. Nú er það að vísu ekki einhlítt að draga slíkar ályktanir. Þótt menn hafi ákveðnar pólitískar skoðanir og fylgi þeim fast fram, er ekki þar með sagt, að þeir séu óhæfir til annara starf. Auk þess vill nú svo vel til, að þeir menn, sem stj. hefir valið í þessa n., hafa einmitt til brunns að bera mikla þekkingu á þessum málum, sem þeim hefir verið falið að rannsaka. Form. n. er þannig hagfræðingur að menntun, hefir hann haft á hendi forstöðu mikilla verzlunarfyrirtækja í opinberum rekstri sem einkarekstri, enda hygg ég, að hann hafi til jafns við hvern annan, sem væri, hagnýta þekkingu og menntun til þess að leysa þetta starf af hendi. Annar nm. er verkfræðingur með ágætu prófi og einhver helzti leiðtogi iðnaðarmanna jafnframt; hefir hann átt frumkvæðið að fjölmörgum nauðsynjamálum iðnaðarins og er því líklegur til að vinna með árangri að lausn hinu mörgu verkefna, sem nú bíða, á sviði iðnaðar og iðnaðarmála. Auk þess hefir hann til að bera ágæta þekkingu á sveitarstjórnarmálum og mikla hagnýta reynslu á því sviði. Þriðji nm. er iðnaðarmaður og hefir nú um langt skeið veitt forstöðu fyrirtæki, sem sætt hefir óvægari krítík en nokkurt annað fyrirtæki hér á landi. (ÓTh: Sá er eldurinn heitastur, sem á sjálfum brennur). Ég býst við því, að hv. þm. G.-K. hefði þótt sá eldur heitur á sér, sem bæjarútgerðin í Hafnarfirði hefir orðið að bera, og mér er sem ég sæi upplitið á hv. þm., ef „Kveldúlfi“ væri gert að skyldu að leggja fram rekstrarreikning sinn til athugunar hverjum, sem vildi, og afbökunar. - Fjórði nm. er landbúnaðarkandidat, sem veitir forstöðu öðrum bændaskóla landsins. Hefir hann að allra dómi til að bera prýðilega þekkingu á öllum málefnum landbúnaðarins. - Fimmti nm. er einn af upphafsmönnum samvinnuhreyfingarinnar hér á landi og hefir jafnan verið í brjóstfylkingu þeirrar hreyfingar og er. Hann er því allra manna kunnugastur sumvinnumálum hér á landi, og enda erlendis líka, og mun sízt vanþörf þeirrar þekkingar í n., því að ég býst við, að þau úrræði, sem um verður að ræða, muni snerta mjög svið samvinnunnar.

Ég tel mig nú hafa gert grein fyrir því, að það var ekki eingöngu með pólitík fyrir augum, að n. varð svona skipuð. Þá get ég og bætt því við, að allir þessir menn eru áhrifamenn hver í sínum flokki, en það gefur tryggingu fyrir því, að meira samkomulag verði um till. þeirra, en á því ríður, ef þær eiga að ná fram að ganga og verða til umbóta eins og til er ætlazt.

Þá neitaði háttv. þm., a. m. k. öðrum þræði, að nokkurt verkefni væri fyrir þessa n., því að mest af því, sem henni væri ætlað að vinna, væri þegar búið að vinna af öðrum nefndum, og nefndi þar til n. þá, sem rannsaka átti hag sjávarútvegsmanna, ennfremur n. þá, sem rannsakaði hag bænda vegna örðugleika kreppunnar og í þriðja lagi milliþn., er rannsaka átti hag verkamanna, iðnaðarmanna og sjómanna. Ég játa að sjálfsögðu, að rannsóknir þær, sem nefndir þessar hafa innt af hendi, muni hafa mikinn fróðleik að geyma, og verða því notaðar að svo miklu leyti sem hægt er. En það hlýtur að vera takmarkað, sem þær ná, þar sem þær eru miðaðar við það að gera upp efnahag manna á ákveðinni stundu, og t. d. að koma skuldamálum bænda í léttara horf. Aftur hafa nefndir þessar t. d. ekki gert neinar till. um breyt. á framleiðsluháttum eða á sölu afurðanna. Þannig liggja engar rökstuddar till. fyrir um breyt. á búnaðarháttum bænda eða því um líkt.

Úr því nú háttv. þm. Snæf. taldi sig svo mjög hneykslaðan yfir vali mannanna í þessa n., þá vil ég spyrja hann, hvað hann segi um val mannanna í n. þá, sem rannsakaði hag sjávarútvegsmanna. Þar er t. d. enginn Alþýðuflokksmaður. Form. hennar er háttv. þm. Vestm., auk þess skipa hana háttv. 6. þm. Reykv. og albróðir þm. N.-Ísf. Ætli það megi ekki segja, að þessi n. hafi á sínum tíma verið skipuð með pólitík eina fyrir augum?

Verk það, sem skipulagsnefndinni er ætlað að vinna, er að fá heildaryfirsýn yfir þau mál, sem hún á að athuga, og koma svo með rökstuddar till. um breyt. til bóta. — Ég vil svo að endingu endurtaka það, að það eru ekki nema fullyrðingar einar að n. hafi á nokkurn hátt sýnt sig í því að fjandskapast við nokkra stétt manna í þjóðfélaginu, og hún hefir heldur ekkert tilefni gefið til að ætla slíkt. Þeir, sem leyfa sér að bera slíkar fullyrðingar fram, verða því að finna fyrir þeim einhver rök, ef þeir vilja ekki verða minni menn fyrir orð sín. Þá vil ég og taka það fram, að svo fremi sem Sjálfstæðisflokkurinn óskar þess af alvöru að fá að taka þátt í störfum nefndarinnar, þá er sjálfsagt að taka það til athugunar.