24.11.1934
Neðri deild: 45. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1930 í B-deild Alþingistíðinda. (2057)

73. mál, stjórn og starfræksla póst- og símamála

Gísli Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég skal ekki lengja þessar umr.; hér er um smáatriði að ræða. Vitanlega er það misskilningur hjá hv. þm. Vestm., að ég hafi sagt, að það ætti ekki í þessu máli að taka tillit til ástæðna og vilja þeirra manna, sem búsettir eru í þeim kaupstöðum eða sveitum, þar sem ráðgert væri að sameina afgreiðslu pósts og síma. Ég sagði, að hér væri um tvennskonar sjónarmið að ræða, annarsvegar hagsmuni stofnunarinnar og hinsvegar aðstöðu og þarfir almennings, og ástæður þeirra, sem búsettir eru í hverju byggðarlagi, heyra vitanlega undir það síðara.

Annars geri ég ráð fyrir, að bæjar- og sveitarstjórnir mundu ekki telja sér þetta viðkomandi, ef ekkert ákvæði væri um það í lögunum, að þeim bæri að hafa tillögurétt um það.

Ég tók það fram í fyrri ræðu minni, að bæjar- og sveitarstjórnir mundu veigra sér við að mæla með því, að afgreiðsla á pósti og síma yrði sameinuð í þeirra byggðarlögum, ef það hefði þær afleiðingar, að góður og gegn borgari tapaði atvinnu sinni þess vegna. Ég álít því öllu heppilegra að ekkert sé gefið undir fótinn um þetta í lögunum. Annars sé ég ekki, að hv. þm. Vestm. hafi neina ástæðu til að blanda lýðræðisskrafi inn í umr. um þetta mál.

Ég vil svo að lokum benda hv. þdm. á, að mér er kunnugt um, að landssímastjóri óskar frekar eftir því, að ákvæðið, sem felst í brtt., verði ekki tekið inn í frv. — Og þó að ekki væri um neina aðra ástæðu að ræða á móti brtt., þá tek ég þessa ósk landssímastjóra fullkomlega til greina, meðan ekki eru færð fyllri rök fyrir nauðsyn þessarar brtt. En hér er um fremur smávægilegt atriði að ræða, sem litlu máli skiptir.