26.10.1934
Efri deild: 22. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1679 í B-deild Alþingistíðinda. (2117)

60. mál, forðagæsla

Frsm. (Páll Hermannsson):

Þetta frv. var flutt í hv. Nd. af hv. landbn. þar, eftir tilmælum hæstv. landbrh., og hlaut þar samþykki með yfirgnæfandi meiri hl. atkv. — Þessi viðauki við l. um forðagæzlu felst aðallega í þremur atriðum. Hið fyrsta er það, að hlutaðeigandi ráðh. er heimilt að krefjast skýrslna af forðagæzlumönnum um ásetning eða ástæður í þessu efni, þegar honum þykir þörf á. Ástæður fyrir þessu ákvæði eru augljósar, og getur slíkt verið þarflegt bæði vetur og sumar. Við höfum um það glöggt dæmi frá síðasta sumri, þar sem á hálfu landinu var svo ástatt, að leita þurfti aðstoðar ríkisins vegna fyrirsjáanlegra fóðurvandræða á komandi vetri. Hið sama getur komið fyrir á vetrum, ef harðindi eru. Í öðru lagi er forðagæzlumönnum gert að skyldu að senda Búnaðarfél. Íslands skýrslu um ástandið þegar að lokinni fyrri skoðunarferð sinni að haustinu, sem á að vera fyrir miðjan okt. Þetta hlýtur að sjálfsögðu einnig að vera gagnlegt. Þá verður til á einum stað vitneskja í þessum efnum, og er eðlilegt, að hún sé hjá Búnaðarfél., enda er það víst, að þingið, eða a. m. k. þessi hv. d., hefir áður litið svo á, að félagið ætti að fá þessar upplýsingar. Í því tilfelli, að ráðh. krefjist upplýsinga, er um sérstök vandræði að ræða, annaðhvort vegna þess, að heyafli er lélegur eða harðindi óvenjuleg. Hitt verður almenna reglan, að Búnaðarfél. eitt fái þessar skýrslur.

Í þriðja lagi er það skylda forðagæzlumanna að senda hagstofunni allar sínar skýrslur í afriti. Það mun vera gert til þess að afla almenns fróðleiks um búnaðarástæður, t. d. með því að hafa skýrslur forðagæzlumanna til samanburðar við framtalsskýrslur hreppstjóra. Jafnvel þó þetta allt orsaki forðgæzlumönnum nokkra fyrirhöfn, verður þetta að teljast nauðsynleg breyting.

Mér finnst mál þetta svo auðskilið, að ekki þurfi um það fleiri orð. Ég vil geta þess, að ekki voru allir nm. landbn. á fundi, er rætt var um þetta mál og það afgr. þar. T. d. var hv. 2. þm. Rang. þar ekki, enda hefir hann ekki undirskrifað nál., sem ég býst þó við, að hann hefði gert, hefði hann mætt. Ég óska svo, að frv. verði samþ. og vísað til 3. umr.