18.10.1934
Neðri deild: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1702 í B-deild Alþingistíðinda. (2221)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Sigurður Kristjánsson:

Ég var búinn að ræða þessar brtt. hér áður, og þarf þar litlu við að bæta.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, er þetta frv. flutt fyrir stj., og eins og ég tók þá fram, leggur stj. þar til, að mismuninum á útflutningsgjaldi af síld, veiddri síðastl. sumar, og venjulegu útflutningsgjaldi, eins og það er á öðrum fiski, verði varið til hlutaruppbótar sjómönnum, sem stunduðu síldveiðar í sumar á innlendum skipum til verkunar og útflutnings. Nú er það svo, að hlutur manna á þessum veiðum hefir á síðasta sumri verið mjög mismunandi, og ég geri ráð fyrir, að fyrst hæstv. ríkisstj. sér sér fært að greiða úr ríkissjóði sem svarar um 120 þús. kr. í þessu skyni, þá sé það fyrir það, að hún álíti, að hlutur sjómanna hafi verið svo rýr síðastl. sumar, að það sé fullkomlega réttmætt að fórna til bóta á því lögboðnum tekjum ríkissjóðs. En svo undarlega vill til, að hæstv. stj. sjálf hefir í frv. lagt til, að styrk þessum sé úthlutað þannig, að hann falli mest til þeirra, sem mestan hlut hafa haft, en minnst til þeirra, sem minnstan hlut hafa fengið við síldveiðarnar. Þessi rök held ég sé óhætt að segja, að stangist algerlega.

Ég get vel hugsað, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki hugsað nóg út í þetta mál, og að þess vegna geti þetta stafað af fljótfærni. Sjútvn. gat nú ekki orðið sammála um þetta. Raunar er þetta ekki kappsmál af hendi meiri hl. í n. En okkur hv. þm. Vestm., sem erum minni hl. n. um þetta atriði, hefir virzt, að tilganginum með því að bæta upp óviðunandi hlut sjómanna verði því aðeins náð, að uppbótin gangi mest til þeirra manna, sem lægstan hafa hlutinn haft. Þess vegna er brtt. okkar fram komin.

Enginn hefir andmælt því, að þessi hlutaruppbót sé nauðsynleg. Vænti ég þess vegna, ef hv. þdm. á annað borð ganga inn á það, að uppbótina beri að greiða, að þeir þá einnig verði svo sanngjarnir að samþ., að henni verði úthlutað eftir till. okkar hv. þm. Vestm., þannig, að hún geti orðið til þess, að hlutir sjómanna geti orðið viðunanlegir yfirleitt.