24.10.1934
Efri deild: 20. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1726 í B-deild Alþingistíðinda. (2255)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég bjóst hálfgert við því, að það gætu orðið nokkrar umr. um þetta mál, en þó verð ég að játa, að ég bjóst ekki við þeim fyrirspurnum, sem komu frá hv. 2. þm. Rang., eftir þær umr., sem orðið hafa um málið í Nd. Eftir því sem ég bezt veit, hefir það ekki verið deiluatriði milli flokka, að þessi hluti tollsins yrði endurgreiðsla. Um hitt hefir verið deilt, hvernig ætti að úthluta þessari fjárhæð meðal fiskimannanna. En ég skal, að gefnu tilefni, upplýsa nokkuð frekar en hæstv. atvmrh. gerði tildrög þessa máls. Undanfarin ár, síðan einkasalan var lögð niður, hefir verðlagið á síld til þeirra, sem hafa veitt hana, verið afarlágt (JÁJ: Hærra þó en áður var.), og hafa útgerðarmenn og fiskimenn orðið að súpa seyðið af þessu. Verðlagið var komið niður í 5 kr. á tunnuna, og þurfti því feikna mikinn afla til þess að veiðin bæri sig. Þá komu fram háværar raddir bæði frá útgerðarmönnum og sjómönnum um nauðsyn á annari stefnu í sölu síldarinnar og láta ekki kaupmenn vera einráða um sölu hennar. En meðan slíkt skipulag væri ekki komið 5, yrði að þvinga kaupendur til að gefa hærra verð fyrir síldina. Í þessu augnamiði átti síðastl. vetur að mynda samtök meðal útgerðarmanna og þeirra, sem á skipunum vinna. En þegar til kom, urðu þeir sterkari, sem kaupendur voru að síldinni, og sáu útgerðarmenn sér þann kost vænstan að láta sitja við hið sama, þótt þeim væri ljóst, að slíkt ástand væri ekki til frambúðar. Ég skal geta þess í þessu sambandi, að meðfram af þessum ástæðum var síldarsölusamlagið stofnað á síðastl. sumri, til að tryggja hærra verð til útgerðarmannanna; en hækkunin komst ekki nema að litlu leyti til þeirra; sem veiddu síldina, og arðurinn lenti yfirleitt hjá milliliðunum, nema hjá þeim, sem gátu saltað sjálfir af skipum sínum, en það er tiltölulega mikill minni hl. — Í vor, áður en síldveiðar hófust og sýnt þótti, að samtökin mundu bresta um hækkað verð á hrásíldinni, voru háværar raddir uppi um það að fara yfirleitt alls ekkert á síld. Menn sáu, að af þessu var lélegar tekjur að fá. Það þurfti svo geysimikinn afla til þess. Ráðningarmátinn er þannig, að skipverjar hafa frá 35 til 37% andvirði síldarinnar, sem jafnast niður á skipverja. (PM: Í hve marga staði er skipt?). Á mótorbátum er skipt í 15 staði, en á stærri línuveiðurum í 17 til 18. Um það var rætt milli fulltrúa sjómanna hér í Rvík og útgerðarmanna, að gera þá kröfu til stjórnmálaflokkanna, að þeir ynnu að því að lækka síldartollinn og að þessa árs síldartollur kæmi til endurgreiðslu. Það var þannig reiknað út, að ef allur tollurinn hefði verið gefinn eftir — 1 króna af hverri tunnu —, þá myndu 70 —75%, eftir stærð skipa, hafa runnið til skipsmanna, en 25 —30% til útgerðarmanna. En málið tók þeirri breyt. síðar, að ekki var lagt til að gefa eftir nema tollinn, að frádregnu 1½% af verði útfluttrar síldar, og gengi þá greiðslan til fiskimannanna einna. Þegar þetta var rætt, voru fulltrúar útgerðarmanna okkar yfirleitt sammála um, að nauðsynlegt væri að bæta upp hlut fiskimannanna, og í lögskráningu á þessi skip var sett það ákvæði, að ef tollurinn fengist endurgreiddur, þá skyldi fylla upp mismuninn á 5 kr. verðinu, sem var talið fyrirsjáanlegt, að yrði hið almenna samningsverð, og 7 kr. verðinu, sem hafði verið sameiginleg krafa um frá sjómönnum og útgerðarmönnum. Upp á þetta lögskráðu allflestir norðanlands og sunnan, en eitthvað mun það hafa verið orðað öðruvísi á vestfirzkum skipum. Sjómannastéttin er búin að ákveða, hvernig skipt skuli, með lögskráningunni og útgerðarmennirnir búnir að ganga inn á hana með því að samþ. lögskráninguna. Þetta eru í stuttu máli tildrögin til þess, að málið liggur nú hér fyrir í formi þessa frv. Ég tek þetta fram til þess að mönnum komi ekki á óvart, hvernig skiptunum er háttað. (PM: Það er ekki ástæðulaust, að menn fái að vita um þetta). Til upplýsingar um það atriði, hvort þörf sé á að bæta þessum mönnum upp, hefi ég ekki tölur nema frá örfáum skipum, en það kemur auðvitað betur í ljós síðar, og verður að sjálfsögðu gefin út opinber skýrsla nm það. Ég vil nefna hér tvö skip, með leyfi hæstv. forseta: Á öðru er hluturinn brúttó 545,71 kr., frá því á að draga fæðiskostnað, sem er um 60 —70 kr. á mánuði. Þá geta menn séð, hverjar eru hinar raunverulegu tekjur manna, sem þarna hafa unnið um tveggja mánaða skeið. Á hinu skipinu er brúttó hlutur 214.96 kr. Því gekk illa veiðin. — Ég gæfi ennfremur tekið einhverjar fleiri tölur. Ég hefi hér skýrslu um alla Akranesbátana, en hefi ekki reiknað út, hver þeirra hlutur verður. Þá er línubáturinn Jarlinn með nettóhlut kr. 285.63. (PM: Hver verður svo uppbótin?). Hún verður hlutfallslega eftir því, hve mikið þeir hafa lagt á land. (PM: Sama og engin m. ö. o.). Þessi skip munu hafa lagt á land til söltunar yfir 2000 tunnur, en uppbótin verður í hlutfalli við aflann, vegna þeirrar lögskráningar, sem gerð var. N. mun að sjálfsögðu afla sér þeirra upplýsinga, sem unnt er að fá um hlut manna, þó ég hinsvegar telji tormerki á að fá ábyggilegar upplýsingar, en okkur innan stéttarfél. hefir gengið erfiðlega að ná þeim gögnum saman enn sem komið er, sérstaklega utan Rvíkur. En grundvöllurinn fyrir málinu er sá, sem ég hefi skýrt frá. Hv. þm. minntist á, að ekki væri hægt að gera slíkar ráðstafanir sem þessar í framtíðinni. Það er rétt, og ég held, að sjómennirnir geri sér það fyllilega ljóst, að ekki er hægt að krefjast slíkrar greiðslu framvegis úr ríkissjóði. En það er einróma krafa sjómannanna, að svo verði fyrir komið sölu síldarinnar á meðan þeir eru ráðnir upp á hlut af afla, að hið raunverulega verð hennar renni í þeirra hlut og að það skipulag myndist, sem tryggi þetta, en útiloki hinn óhæfilega milliliðakostnað. (PM: Vilja þeir ekki fá einkasölu!). Við komum að því síðar. (JBald: Það er einkasala núna. Útgerðarmennirnir græddu á henni 600 þús. kr.). Læt ég svo mínu máli lokið að sinni.