03.11.1934
Efri deild: 29. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1732 í B-deild Alþingistíðinda. (2264)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Magnús Guðmundsson:

Ég býst ekki við, að það þýði mikið að ræða þetta mál hér, því að það er kunnugt, að samningur var gerður um það fyrir stjórnarskiptin, að þetta fé skyldi greiða sjómönnum, og það án tillits til þess, hvernig færi um síldveiðarnar. Þetta er því í raun og veru herkostnaður, sem ríkissjóður verður að borga vegna samnings, sem inniheldur lítið annað en pólitíska spillingu.

Ég verð að segja það, að mér finnst undarlega skipt milli landsmanna, þegar stj. ætlar sér að gefa sjómönnum, sem ef til vill hafa haft allgott kaup, mikið fé, en setja hjá þá atvinnurekendur í landinu, t. d. bændur, sem vitað er um, að fjöldi þeirra hefir orðið að vinna alveg kauplaust í sumar, og þar að auki hafa orðið að gjalda kaup fyrir vinnu, sem hefir orðið að mestu leyti til ónýtis. Þegar maður ber þetta saman við það, sem á að gera með þessu frv., og þegar þar að auki er upplýst, að jafnvel þeir, sem hafa fengið kr. 7.00 til 8.00 fyrir tunnu nýrrar síldar, eiga líka að fá uppbót, og að ofan á þetta allt eiga þeir að fá mesta uppbót, sem mest hafa borið úr býtum, sýnist það öfug jafnaðarmennska, að fara þannig að sem hér á að gera.

Ég bar fram fyrirspurn um það við 1. umr. málsins, hvað stj. hefði hugsað sér að gera fyrir þá bændur, sem hafa orðið fyrir svo miklum búsifjum vegna tíðarfarsins í sumar, að það er alls ekki sambærilegt við kjör þeirra manna, sem hér um ræðir. Það er ekki upplýst, að þessir sjómenn hafi orðið fyrir neinum búsifjum, því að þótt sumir þeirra kunni að hafa haft nokkuð lítið kaup yfir síldveiðitímann, þá getur vel verið, að þeir hafi haft gott kaup annan tíma ársins. Um það hafa engar rannsóknir verið gerðar. (Atvmrh.: Þær hafa verið gerðar). Hvar er þá að finna niðurstöður þeirra? En svo segir samt í frv., að þannig skuli skipt, að þeir skuli fá mest, sem mest kaup hafa haft. Þó að látið sé í veðri vaka, að hér sé um verðuppbót að ræða til þeirra, sem verst eru staddir, þá hlýtur aðferð eins og þessi að dæma sig sjálf. En eins og ég hefi áður tekið fram, þá þýðir ekkert að ræða um þetta hér, þar sem hér er um gerðan samning að ræða, þó að ranglátur sé og ósæmilegur í alla staði.

Ég vildi samt leyfa mér að spyrja hæstv. stj. um það, hvað hún ætli sér að gera í þessum síldarmálum næsta ár, ef svo skyldi fara, að síldveiðin yrði líka endaslepp þá. Ætlar hæstv. stj. að halda áfram á þeirri braut, að láta greiða uppbót til þeirra, sem síldveiðar stunda? Og eiga þetta þá að vera sérstök hlunnindi fyrir síldveiðimenn, en ekki fyrir þá, sem vinna við aðrar atvinnugreinar? Og eiga þeir einir að njóta góðs af þessu, sem vinna hjá öðrum, en ekki atvinnurekendur?

Það var nokkuð hastarlegt gagnvart bændum landsins, að stj. skyldi leika sér að því að hækka kaupið í sumar. Þar við bættist svo, að bændur á stórum svæðum landsins fengu ekki annað en lítil og hrakin hey, sökum ótíðar um sláttinn, og urðu vitanlega þrátt fyrir það að borga sínu kaupafólki. En þegar þeir svo þar að auki fengu sama og ekkert fyrir sína eigin vinnu, þá sér hver sanngjarn maður, hvort hér er jafnt skipt milli þegna þjóðfélagsins.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta mál að þessu sinni, en vildi að endingu spyrja um það, hvort það sé svo fast bundið að greiða verði þennan styrk í hlutfalli við afla manna, að þar verði engu um þokað í sanngirnisátt.