25.10.1934
Neðri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1776 í B-deild Alþingistíðinda. (2341)

47. mál, síldarverksmiðjan á Raufarhöfn

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Án þess að ég ætli mér að leggjast á móti því, að stj. sé gefin þessi heimild, vildi ég benda á það, að næsta sumar tekur ný verksmiðja til starfa á Siglufirði, sem á að geta tekið þetta 130—140 þús. mál. Á síðasta þingi var stj. ennfremur gefin heimild til þess að kaupa Sólbakkaverksmiðjuna. Ég geri ráð fyrir því, að þar mætti bæta við 30—40 þús. málum, til þess að starfræksla gæti talizt sæmileg. Hér er því um að ræða 160—170 þús. mál, sem hægt er að bræða næsta sumar í nýjum verksmiðjum, ef maður reiknar með því, að Sólbakki verði keyptur, en það samsvarar afla tíu togara. Ég veit það ekki, og raunar veit enginn það nú, hvort svo mikil aukning verður á skipastól þeim, er síldveiðar stundar, frá því sem var í sumar, að meira verði gert en anna þörfum þessara verksmiðja. Það skiptir auðvitað miklu máli, að síldarbræðsluverksmiðjur ríkisins hafi nóg magn til þess að vinna úr, ef þær eiga að skila sæmilegri afkomu, og það er því að mínu áliti í þeirra hag, að ekki sé bætt of ört við slíkar verksmiðjur. Mér skilst, að sú verksmiðja, sem hér um ræðir, geti tekið um 600 mál í bræðslu á sólarhring. Ég veit ekki nákvæmlega, hvað starfstíminn er langur, en býst við, að hann sé a. m. k. 50—60 sólarhringar, og reikni maður með því, ætti verksmiðjan að geta brætt 30—40 þús. mál yfir þann tíma. Og eigi kaupverðið að vera 200000 kr., er ég á því, að of mikið sé í lagt, og kaup þessi muni ekki verða eins hagkvæm og á verksmiðju dr. Pauls á Siglufirði. Sú verksmiðja mun geta tekið meira til bræðslu en hún hefir gert undanfarin ár, og síldarverksmiðja ríkisins held ég, að þurfi líka að fá meira af síld en áður. Ég bendi á þetta til þess að stj. athugi málið vel áður en ríkið fer að ráðast í að kaupa nýjar síldarbræðslustöðvar, og gæti þess, að nóg verkefni séu fyrir hendi handa þeim, sem þegar eru til.