07.11.1934
Efri deild: 32. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1789 í B-deild Alþingistíðinda. (2362)

47. mál, síldarverksmiðjan á Raufarhöfn

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Mér þykir rétt, áður en skilizt er við þetta mál, að segja um það nokkur orð, þó ég sé ekki á móti, að ríkisstj. sé veitt sú heimild, sem frv. gerir ráð fyrir. Ég tel sjálfsagt að rannsaka ýtarlega, hve hagkvæm kaup þetta eru. Þó sjálf verksmiðjan sé ódýr — ekki nema 40 þús. kr. — þá er gert ráð fyrir, að hún þurfi viðgerð fyrir 160 þús. kr., og er þá komið upp í 200 þús. kr., sem er allmikið verð.

Ég verð að segja, að ég er ekki sannfærður um, að skynsamlegt sé að gera þessi kaup. Þykir mér líklegt, að verksmiðjan verði starfrækt áfram af eiganda, ef hann getur ekki selt. Mun hann tæplega láta eignina standa vaxtalausa, hafi reksturinn gengið sæmilega. Þó lega staðarins sé góð, eru þar ýmsir meinbugir á, t. d. lítil og ekki góð höfn. Einnig er þess að gæta — þó hv. þdm. finnist e. t. v. kenna kjördæmareipdráttar —, að vegna Austfjarða væri síldarverksmiðjan bezt sett á Seyðisfirði. Eftir því, sem síldin hagaði sér í sumar, þar sem hún var engu minna fyrir austan Langanes en vestan, held ég, að sá staður væri betur fallinn fyrir verksmiðju en Raufarhöfn. Þess má einnig gæta, að verksmiðjan þar mun verða rekin áfram. Þótti rétt að taka þetta fram, þó því fari fjarri, að ég sem atvmrh. muni ekki nota heimildina, ef kaupin virðast við nánari athugun hagkvæm.