12.11.1934
Efri deild: 36. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1792 í B-deild Alþingistíðinda. (2393)

64. mál, sala á eggjum eftir þyngd

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Þetta litla frv. er komið frá hv. Nd., og voru 3 þm. úr landbn., sem fluttu það. Frv. hefir verið athugað í landbn. þessarar hv. d., og hefir hún komið sér saman um að mæla með því.

Aðalefni frv. er það, að nema burt úr l. nr. 21 22. okt. 1912 þá setningu, sem heimilar, að menn geti komið sér saman um að selja egg eftir tölu. En ef þetta frv. verður samþ., verður skylda framvegis að selja egg eftir þyngd. Þetta mun áreiðanlega hafa þau áhrif, að eggjaframleiðendur munn leggja sig eftir því að hafa eggin stærri, og er það hægt á ýmsan hátt, með því að fara betur með hænsnin. Og því frekar á að gera eggjaframleiðendum það að skyldu að hafa vöruna góða, þar sem þeir hafa þau hlunnindi, að þeir eru verndaðir fyrir sölu á útlendum eggjum, með því að bannað er vissan tíma ársins að flytja þau inn. Það hefir sem sé verið fylgt þeirri reglu í gjaldeyrisnefndinni, eftir samkomulagi við ríkisstj., að banna innflutning á eggjum, þegar sannað þykir, að nægilega sé mikið fyrir á innlendum markaði, og hefir þar verið farið eftir skýrslum um eggjaframleiðslu. N. leggur því einróma til, að frv. verði samþ. óbreytt.