26.11.1934
Sameinað þing: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í B-deild Alþingistíðinda. (248)

1. mál, fjárlög 1935

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Herra forseti! Hæstv. ráðherrar Framsfl. hafa gert tilraun til að afsaka þá afsláttarpólitík, sem þeir að undanförnu hafa rekið í málefnum bændanna. Þeir halda, að ekkert mál komist fram hjá þeim, nema með því að kaupa sósíalistana til fylgis við það, en við þá sé ekki hægt að verzla, nema þeir fái í hverju máli eins mikið og bændurnir hagnast, sbr. mjólkurlækkunina. Þar mega bændurnir ekki fá þennan hagnað, þó að hægt sé með rökum að sýna og sanna, að hann hrökkvi ekki fyrir framleiðslukostnaði. Það er ekki nóg með það, að sósíalistar þurfi að fá fullkomna lausn allra sinna mála, heldur þurfa þeir líka í málum landbúnaðarins að fá jafnan hlut á móti bændum. Hæstv. fjmrh. hélt því fram, að það væri ekki hægt að taka til úrlausnar eða ráða bætur á málefnum bænda, nema líta jafnframt á hag annara stétta og taka tillit til þeirra. M. ö. o.: Það má aldrei hugsa til að fullnægja kröfum bænda, nema neytendurnir fái jafnframt aukinn skammt, annaðhvort af því, sem vinnst fyrir bætt skipulag, t. d. á afurðasölu landbúnaðarvara, eða beinlínis úr ríkissjóði.

Út af andstöðu hæstv. ríkisstj. gegn því, að bændur megi fá það verð fyrir kjötið, er svari til framleiðslukostnaðarins, höfum við Bændafl.mennirnir flutt brtt. við fjárlfrv. þess efnis, að greitt verði úr ríkissjóði til verðjöfnunarsjóðs allt að sömu upphæð og verðjöfnunargjaldinu nemur samanlagt, til þess að hægt sé að nokkru leyti að samræma kjötverðið á útlendum og innlendum markaði, þ. e. a. s. bæta upp verðið á útflutta kjötinu. Nú vil ég beina þeirri fyrirspurn til hæstv. stj., hvernig hún hugsi sér að taka þessari úrlausn á sjálfsagðasta nauðsynjamáli bændanna. Og það er fróðlegt fyrir bændur að fylgjast með þessu máli og hlusta á svör stj.

Í þessu sambandi er rétt að benda á það, að hér er um lítið hærri upphæð að ræða fyrir ríkissjóð, sem ætlazt er til að greidd verði í verðjöfnunarsjóð, heldur en þá hlutaruppbót, sem stj. lét greiða úr ríkisjóði síðastl. haust til sjómanna á síldveiðiskipum. Hvað þá ef bætt væri við það kauphækkuninni, sem stj. lét greiða úr ríkissjóði til verkamanna í opinberri vinnu síðastl. sumar. Ég held því, að það sé engan veginn hægt að segja, að við höfum ekki litið til annara stétta í landinu um leið og við fluttum þessa brtt. við fjárl. — Við höfum tekið til samanburðar og bent á það, sem ríkisstj. hefir gert til hagsbóta verkamannastétt kaupstaðanna, og það eru ekki óverulegar upphæðir, sem til þess hafa farið. Til atvinnubóta eru áætlaðar 500 þús. kr. í fjárlfrv. Og þó að tekið væri af því, eða jafnað á móti því þeirri upphæð, sem við Bændafl.menn höfum lagt til, að veitt væri til þess að létta á skuldabyrðum bænda, þá er samt til muna meira eftir. Og þó framfleyta bændur miklu fleira fólki en verkamannastéttin í kaupstöðunum.

Ég hefi áður bent á hina ólíku afstöðu stj. til bænda og kauphækkunina í opinberri vinnu síðastl. sumar, en nú kem ég að hinum hóflausu árásum hennar á Búnaðarfél. Ísl., sem þó verður nánar vikið að síðar, og svo annarsvegar hinn einstaka dekri hennar við Alþýðusamband Íslands, sem alstaðar kemur fram. Alþýðusambandið þarf náttúrlega að vera aðili í öllum málum, að áliti stj.

Ég hefi bent á hinn stórfellda mismun, samkv. till. stj., á fjárframlögum til atvinnubóta í kaupstöðunum og því, sem hún ætlar að láta af höndum rakna til bænda, til uppbótar á hinu óskaplega lága verði, sem þeir fá fyrir útflutta kjötið. Þar er aðstaðan ólík. Ég hefi bent á, hversu ríkisstj. virðist margfalt fúsari til þess að greiða sjómönnum hlutaruppbót á síldina og gefa eftir af síldartollinum, sem þó var búið að innheimta í ríkissjóð, heldur en að bæta bændum upp kjötverðið.

Hæstv. forsrh. minntist eitthvað á þá menn, sem alltaf væru hálfir í málum, og kvaðst blátt áfram fyrirlíta þá; enda gæti vel verið, að hann sýndi þeim í framkomu það, sem vel mætti kalla hroka, eða nálgaðist það. Vildi hann telja okkur Bændafl.menn til þeirra, sem alltaf væru hálfir í málum. Og það er áreiðanlegt, að þessi hæstv. ráðh. hefir fullkomlega staðið við þann ásetning, að sýna okkur og málefnum okkar hinn mesta hroka. Hið sama hefir komið fram frá honum gagnvart aðalmálum landbúnaðarins, hvort sem það kann að vera af því einu, að við höfum jafnan orðið til þess að bera þau fram. Ég læt hlustendur dæma um. hvort slík framkoma getur talizt sæmileg. Ég tel það fyrstu og sjálfsögðustu skyldu hæstv. ráðh., að líta á það, hvort málefnið er gott og réttmætt eða ekki, og taka afstöðu eftir því, en hitt á ekki að hafa nein úrslitaáhrif, hver málið flytur. Honum ber skylda til að líta á málavexti og haga sér eftir þeim, fremur en persónulegri hlutdrægni. Slík framkoma hæstv. stj. verður áreiðanlega ekki þoluð til lengdar.

Hæstv. forsrh. talaði um, að ég hefði komizt á þing nú síðast vegna þess, að sjálfstæðismenn hefðu stutt kosningu mína. Ég held, að hann hljóti nú að vita það, að form. Sjálfstfl. vann eins og hann gat á móti mér í kjördæminu, og að flokkurinn hafði þar sérstakan frambjóðanda. Kosningabaráttan var ákaflega hörð. Og þó mér detti ekki í hug að neita því, að menn úr Sjálfstfl. og Framsfl. hafi fremur hallazt að Bændafl. í síðustu kosningum, eins og raun bar vitni um, þá er það ekki nýtt fyrirbrigði, að kjósendur fari úr einum flokki í annan. Og Framsfl. varð einnig upphaflega til á þann hátt, að kjósendur gengu í hann úr öðrum flokkum. Út af dylgjum hæstv. forsrh. um það, að ég fylgi Sjálfstfl. alstaðar að málum, vil ég benda honum á að lesa sitt eigið blað. Fyrir skömmu varð ég fyrir þeirri upphefð — eða ærumeiðingu, hvort sem betur þykir við eiga — að flokksblað ríkisstj. birti mynd af mér, og var þess jafnframt getið, að ég væri nú genginn á mála hjá sósíalistum. Líklega hefir það ekki verið fyrir tilstilli eða eftir skipun frá Sjálfstfl. Svona er nú samræmið í því, sem hæstv. ráðh. segir og hans eigið blað; en stjórnarliðar hafa ekki búizt við, að þessi blaðsnepill þeirra með myndinni og þeim orðum, sem fylgdu, mundi berast út til landsmanna. Þessa vegna hafa þeir talið óhætt að halda því fram í þessum umr., að ég væri algerlega háður Sjálfstfl., og það á nú að hrífa. En hvað sem þeim þóknast að þvæla um þetta til eða frá, þá tel ég eðlilegast fyrir mig að fylgja hverri till., sem horfir til bóta, hvaðan sem hún kemur, þó að hæstv. ríkisstj. sé svo mikil með sig og drambsöm, að hún getur ekki litið svo á, að neinar till., sem frá öðrum koma, eigi rétt á sér í þeim málum, sem hún telur vera sín áhugamál. Ég get fylgt hverri þeirri till. og frv., sem fram kemur, ef það horfir til bóta. Og það er ósköp eðlilegt, að einstakir þm. vilji hafa áhrif á afgreiðslu þeirra frv., sem stj. flytur, með brtt., er þeir telja, að miði til bóta. Ég skal játa það, að við Bændafl.menn höfum takmarkað okkar störf við kröfur framleiðenda, og þá einkum bænda, og borið mál þeirra fyrir brjósti, en ekki þanið okkur út yfir málefni allra stétta. Hæstv. ríkisstj. má gjarnan lá okkur það, ef hún vill. Við erum mótfallnir þessu daðri við allar stéttir og hálfleik í hverju máli, sem Framsfl. temur sér nú orðið. Þó að framsóknarmenn neyðist stundum til að ganga nokkuð á móti okkur í málefnum bænda, þá eru þeir þar ekki nema hálfir; þess vegna má hæstv. forsrh. viðurkenna þann sannleika opinskátt fyrir almenningi, að hann beri mesta fyrirlitningu fyrir sjálfum sér. Hann er hálfur í hverju máli. Nema hæstv. ráðh. vilji nú lýsa því yfir, að hann sé ekki fylgjandi þeim till. landbn. Nd. um bætt lánakjör og lækkun vaxta á landbúnaðarlánum, þar sem landbn. tók tillit til frv. okkar Bændafl.manna um það efni. Það væri máske hreinlegast af hæstv. ráðh. Ég hélt, að það væru ekki nema sósíalistar — og tveir framsóknarmenn þeim hlynntir — á móti vaxtalækkuninni. En máske þeir séu einmitt í samræmi við hæstv. forsrh., og að með því að setja þennan örlitla kafla aftan við frv. sé verið að reyna til að smeygja handjárnunum á samflokksmenn hæstv. ráðh. Ef hann hefir gert það og vill hreinsa sig af því, að hann aðhyllist nokkuð í þessum III. kafla í frv. landbn. Nd. um lánakjör landbúnaðarins, þá skal ég viðurkenna, að hann er ekki hálfur, heldur heill í fjandskap sínum gegn málum bænda. En hafi hann hinsvegar verið fylgjandi landbn. um þessar till., þá er hann hálfur í því máli, eins og í afurðasölumálum landbúnaðarins.

Annars vil ég einnig í þessu sambandi benda á, hraða vettlingatökum hæstv. stj. tekur á lánakjörum landbúnaðarins. Þetta frv. um endurbætur á kjörum fasteignaveðslána, sem flutt er að undirlagi hennar, er svo fljótvirknislega afgreitt og afkáralega samið, að það eru hrein undur, að nokkur skuli hafa getað skilið svo vesalmannlega við það. Ég skal t. d. benda á það, að í ákvæðum til bráðabirgða er í 16. gr. gerð sú bráðabirgðaákvörðun, að stjórn Búnaðarbanka Íslands hafi á hendi stjórn ræktunarsjóðs, sem búið var að slá föstu í lögunum um Búnb. Ísl. frá 1929, þar sem breytt er ákvæðum ræktunarsjóðslaganna gömlu. Einnig er ætlazt til þess að hin nýju lög verði felld inn í meginmál laga nr. 17 frá 13. júní 1925, um Ræktunarsjóð Íslands, enda þótt í þessu frv. sé ekkert ákvæði, ekki nokkur skapaður hlutur, sem kemur ræktunarsjóðslögunum við. Auðvitað er það ekki meining hv. flm. frv. að fella annað úr því inn í meginmál ræktunarsjóðslaganna heldur en þau atriði, sem snerta ræktunarsjóðinn. Svona amböguháttur sýnir, að ekki hefir verið unnið af áhuga að þessu frv. frá stj. hálfu.

Hæstv. forsrh. var að ásaka fyrrv. stj. fyrir, hvað lítið hún hefði afrekað í landbúnaðarmálum. En þó er það vitað, að stærstu átökin, sem gerð hafa verið í þágu landbúnaðarins, voru framkvæmd og undirbúin af fyrrv. landbúnaðarráðh. Kreppulánalöggjöfin er hans verk, og kjöt- og mjólkursölulögin voru algerlega undirbúin af honum, og eru því að mestu einnig hans verk. Ráðh. átti aðeins eftir að setja nafn sitt undir lögin: En það afrek kom í hlut núv. landbrh. eftir kosningarnar; og það litla, sem hann gerði annað viðkomandi þessum lagabálkum, var til stórskemmda, vegna þess að hæstv. ráðh. var undir áhrifum sósíalista og háður samningum við þá, en þeir heimta stöðugt meiri og meiri völd. Þetta er alveg ljóst af ummælum, sem birtust í blaði sósíalista, þar sem því var haldið fast fram, að neytendur ættu jafnt og framleiðendur að njóta þess, sem hægt væri að spara við sölu mjólkurinnar, þegar búið væri að koma þar á skipulagi.

Vegna þess að ég þarf að tala ýtarlega um framkomu hæstv. stj. gagnvart Búnaðarfél. Ísl., þá tek ég það efni í einu lagi síðar í kvöld. En þó get ég ekki látið hjá líða að benda á, til frekari sönnunar því, sem ég sagði áðan, að sú framkoma hæstv. forsrh. hafi ekki beinlínis verið sprottin af illvilja til B. Í., heldur eins mikið af hinu, að sósíalistar voru búnir að koma á hann snöru, og svo var hann keyrður og pískaður áfram í haftinu af blaði þeirra hér í bænum. Það er alveg ljóst af myndun þessarar samsteypustj. í upphafi, hvernig sósíalistar hafa beitt þessari hundasvipu sinni á Framsfl. Í fyrstu tilnefndi Framsfl. formann sinn til þess að mynda stj., en „sósar“ sögðu nei takk, og Framsfl. varð að beygja sig í auðmýkt. Form. flokksins varð sjálfur að lýsa því yfir í Tímanum, að hann hefði orðið að sætta sig við þessa kosti, að flokkur hans væri svínbeygður á sinni fyrstu göngu með „sósum“. Í ofsókninni á hendur Búnaðarfél. Ísl. hefir ríkisstj. verið háð fjötrum „sósa“. Hún byrjar þannig, að stj. verður að bægja B. Í. frá því að tilnefna mann í kjötverðlagsnefndina, en láta Alþýðusamb. skipa þar mann í staðinn. Þetta er líka ofsókn gegn öllum samtökum bænda, sem standa að Búnaðarfél. Ísl. Allt er einhliða gert til þess að þóknast Alþfl., svo sem eftirgjöf á síldartollinum o. fl., en hinsvegar er hæstv. landbrh. kúgaður til þess að vera á móti samskonar verðuppbótum til bænda. Alstaðar eru fingraför „sósa“, sem Framsfl. getur aldrei þvegið af sér og aldrei afsakað fyrir kjósendum sínum. Og þetta er ákaflega eðlilegt. Flokkurinn gaf fyrir fram opinberlega þá yfirlýsingu, löngu fyrir síðustu kosningar, að hann gæti ekki unnið með öðrum en „sósum“ í landsmálum. Þessa uppgjafayfirlýsingu frá Framsfl. hafa „sósar“ notað sér eftir föngum. Þeir hugsuðu á þessa leið: Nú getum við sett framsóknarmönnum hvaða kosti sem vera skal, þeir láta einskis ófreistað til þess að fá völdin og komast í ráðherrasætin.