12.11.1934
Efri deild: 36. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1945 í B-deild Alþingistíðinda. (2510)

114. mál, lögreglustjóri í Ólafsfirði

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson) Ég hefi heyrt þessa skoðun hv. þm. Dal. áður, og mun hún hafa verið uppi á síðasta þingi. En hún réttlætir í raun og veru alls ekki að neita um slíkt embætti, ef á annað borð er þörf fyrir það. Og ég held, að enginn neiti því, að lögreglustjóri sé nauðsynlegur, og eftir því, sem maður bezt veit, þyrfti hann helzt að hafa lögreglu sér við hlið, eins og t. d. í Keflavík. Í Ólafsfirði munu nú vera um 600 manns, og eins og gefur að skilja, getur margt komið fyrir í svo fjölmennu þorpi, að ástæða geti verið til að hafa þar lögreglustjóra. Ég neita því náttúrlega ekki, að hér sé um aukin útgjöld fyrir ríkissjóð að ræða. En hvað viðvíkur hreppstjórunum, þá get ég ekki láð þeim það með þeim launum, sem þeir hafa, þó þeir vilji ekki eyða öllum sínum starfstíma til þess að annast löggæzlu. Það er því full ástæða til að taka það til athugunar, hvort heldur eigi að hækka laun hreppstjóranna eða taka upp þá stefnu að setja lögreglustjóra. Og viðvíkjandi því, hvað margir munu koma á eftir, þá ath. n. einmitt, hvaða líkur væru til, að margir mundu krefjast slíks hins sama. Þar, sem lögreglustjóri er fyrir, kemur slíkt ekki til greina. Það eru þá helzt nokkur kauptún á Austfjörðum, sem komið gætu til mála, t. d. Fáskrúðsfjörður. Á Seyðisfirði, Norðfirði og Eskifirði eru þegar lögreglustjórar. Ef maður svo leitar víðar kringum landið, þá kemur Dýrafjörður helzt til greina. En á þessum plássum er ekki nærri því eins mikið fjölmenni og í Ólafsfirði. — Ég hygg því, að ekki þurfi að óttast, að á næstunni komi mörg kauptún á eftir.

Annars skal ég geta þess, að n. gerir ráð fyrir, að launamálanefnd muni komu með einhverjar breyt. á skipun þessara mála.