11.12.1934
Efri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1979 í B-deild Alþingistíðinda. (2612)

124. mál, hlutafjárframlag fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi

Frsm. (Páll Hermannsson):

Það er alveg rétt, sem hv. 1. þm. Skagf. benti á, að ég tók ekki neitt til greina þá sundurliðun, sem gerð var á kostnaði við væntanlegar bátsferðir við vesturland í áætlun frá skipaútgerðarstjóra ríkisins, Pálma Loftssyni. Ég benti aðeins á, að aðalútkoma á rekstrarkostnaði þeim, sem færi til fyrningar og viðhalds, væri dálítið hærri en gengið er út frá, að yrði um Hermóð, ef hann er lánaður leigulaust og að mestu haldið við af eiganda. Ég tók þetta ekki til greina, af því að ég álít ókleift fyrir héraðsbúa að hafa Hermóð þarna í ferðum.

En ég er hv. 1. þm. Skagf. sammála um það, að hvort sem Hermóður verður hafður þarna í ferðum eða nýr bátur, þá eigi fólkið þarna rétt á því, að því sé gert kleift að standa undir kostnaðinum af þessum ferðum.

Ég treysti mér ekki til að gizka á, hve háan styrk slíkur bátur þyrfti að fá. En ég þykist vita, að ætlazt sé til þess, að þetta fyrirtæki fái 20 þús. kr. styrk á næsta ári eftir till. samgmn. Ég þori vitanlega ekki að segja um það. hvort sá styrkur yrði hækkaður, ef hann reyndist of lítill. Ósanngjarnt sýnist mér það ekki.

Ég vil geta þess út af ummælum hv. þm. N.Ísf., að ég vil ekki láta hafa eftir mér neitt, sem er í áttina að vera loforð, annað en það, sem ég hefi sagt. En hv. þm. N.-Ísf. sagði, að ég hefði sagt f. h. míns flokks, að flokkurinn vildi leggja til, að Hermóður yrði lánaður til þessara flutninga án þess að greidd væri eftir hann leiga eða gjald. Ég sagði í umboði míns flokks, að flokkurinn vildi leggja til, að Hermóður yrði lánaður til þessara ferða án þess að greidd væri eftir hann leiga eða gjald, nema að nokkru leyti. Ég álít, að útgjöld muni óumflýjanlega fylgja daglegum rekstri bátsins, auk þess sjálfsagðasta rekstrarkostnaðar. Ég vil ekki, að hægt sé að herma upp á mig ákveðin orð sem loforð þessu að lútandi, því að ég mun hafa orðað þetta í hið fyrra skipti eins og ég orða það nú.

Mér virðist mjög vel viðeigandi, að hv. þm. N.-Ísf. láti þessar till. sínar ekki ganga undir atkv. nú, heldur dragi það til 3. umr. til þess að geta fengið upplýsingar um vitabátinn Hermóð og um það, hvort hann muni ekki geta hlaupið í skarðið þarna næsta árið.