01.11.1934
Neðri deild: 25. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1993 í B-deild Alþingistíðinda. (2659)

104. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Flm. (Finnur Jónsson):

Ég held, að frv. gefi ekki mikið tilefni til þeirra umræðna, sem hér hafa farið fram. Hér er alls ekki verið að tala um að takmarka byggingu síldarbræðslustöðva, nema brýn nauðsyn sé fyrir hendi. (ÓTh: Hvenær er brýn nauðsyn fyrir hendi?). Það er brýn nauðsyn, ef ekki eru til skip til þess að fiska í verksmiðjurnar. Það er vitanlegt, að fái verksmiðjurnar ekki svo mikla síld, að þær geti unnið með hagnaði, þá kemur það niður á þeim, sem fiska í verksmiðjurnar. Á síðasta ári var vinnslumagn verksmiðjanna aukið um því sem næst 80% frá því, sem var árið áður, að meðtöldum þeim verksmiðjum, sem koma til með að taka á móti síld næsta sumar. Þetta er meiri aukning en hefir orðið á skipastólnum, sem á síldveiðar fer, og það þarf að bæta mörgum skipum við á síldveiðar, ef fullnægja á vinnsluþörf verksmiðjanna. Nú þykir mér gott að heyra það hjá hv. þm., að þeir álíta, að bæta þurfi skipum við, því að undanfarið hafa mörg skip legið hér yfir síldveiðitímann, sem hefðu getað farið á veiðar. En hinsvegar álít ég það mjög óheppilegt, að bætt verði við svo mörgum verksmiðjum, að skipastóllinn hrökkvi ekki til þess að veiða í þær. (ÓTh: Sá möguleiki liggur ekki fyrir). Hvað vitum við um það, ef haldið verður áfram í þessu efni eins og gert hefir verið 2 síðustu árin. Þetta frv. er flutt að gefnu tilefni frá stj. ríkisverksmiðjanna og fiskiþinginu, vegna þess, að fram kom á fiskiþinginu till. um að skora á ríkisstj. að byggja nýja síldarverksmiðju við Húnaflóa. En með tilliti til þeirrar aukningar, sem hefir orðið á þessu sviði á síðasta ári og verður þetta ár, gat sjútvn. fiskiþingsins ekki lagt það til, að ríkið legði fram fé til verksmiðjubyggingar við Húnaflóa, að svo komnu máli, ekki fyrr en það sýndi sig, að nógur markaður væri fyrir afurðir þeirra verksmiðja, sem fyrir eru.

— Hv. 5. þm. Reykv. var að tala um þann stóra markað, sem væri til fyrir afurðir síldarbræðsluverksmiðjanna. Ég held, að þetta sé ekki rétt hjá þessum hv. þm. Markaður fyrir þessar afurðir er aðallega í Þýzkalandi, a. m. k. fyrir síldarmjölið, og nú er viðskiptum okkar við Þýzkaland svo háttað, að við verðum að kaupa jafnmikið þaðan og við seljum þangað á hverju ári. Það má þess vegna segja, að markaður fyrir síldarmjöl sé lítill, ef ekki eru sérstakar ástæður fyrir hendi. En þessar sérstöku ástæður voru fyrir hendi á síðasta sumri, og voru þær, að Norðmenn öfluðu lítið og keyptu sjálfir aldrei þessu vant megnið af því síldarmjöli, sem var flutt héðan í ár.

Það er fjarri því, að þetta frv. miði á nokkurn hátt að því, að draga úr atvinnunni í landinu. Það á eingöngu að sjá til þess, að ekki verði reistar óheppilega margar síldarverksmiðjur. Og það er einmitt hér, sem skilur á milli okkar Alþýðuflokksmanna og sjálfstæðismanna. Sjálfst.menn vilja láta hið frjálsa framtak njóta sín og reisa svo margar síldarverksmiðjur sem verkast vill, þó að ekki séu til skip til þess að fiska í þær, og ekki sé tryggt, að afurðirnar seljist, og það getur vel verið, ef þetta er látið afskiptalaust, að þannig fari. Við flm. þessa máls lítum svo á, að það dugi ekki, eins og ríkið á hér mikilla hagsmuna að gæta, að það láti þetta afskiptalaust. Ríkið verður að sjá til þess að vöxtur verksmiðjanna verði samfara möguleikunum til þess að veiða síld og möguleikunum til þess að selja afurðirnar. Að þessu miðar frv. og engu öðru. Ummælum um það, að þetta sé fram komið til þess að teppa atvinnurekstur í landinu, vísa ég algerlega á bug. Þetta mál er fyrst og fremst flutt til þess að tryggja atvinnurekstur, sem til er í landinu, og að tryggja það, að þau íslenzk veiðiskip, sem fara á síldveiðar, fái sem mest fyrir afla sinn.