14.11.1934
Neðri deild: 36. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1845 í B-deild Alþingistíðinda. (2692)

119. mál, tollundanþága fyrir tunnuefni og hamp

Jóhann Jósefsson:

Auðvitað er gott að geta undanþegið tunnuefni innflutningstollum. Sérstaklega sé ég, að hv. iðnn. hefir farið réttar í þetta en til var stofnað, þar sem einungis er átt við síldartunnuefni í frv., en n. vill miða þetta við hverskonar tunnuefni, sem ætlað er til umbúða um innlendar framleiðsluvörur. En brtt. á þskj. 396 teygir sig aftur of langt í þessu efni, því að þar er farið inn á tekjuöflunarsvið hafnarsjóða. Er það sæmileg afgreiðsla á ívilnunum þessum innflutningi og iðnaði til handa, að ríkissjóður geri ekki tilkall til tolla af efninu, þó að ekki sé gengið á þessa tekjuöflunarleið hafnarsjóða, sem mjög þurfa teknanna við. (Fjmrh.: Ekki er ríkissjóður auðugur). Það kann rétt að vera, en hafnarsjóðir þurfa á meiri tekjum að halda en þeir hafa að jafnaði. Það er allt of mikil græðgi, sem liggur í till. hv. þm. Ísaf., þar sem hann hefir aðallega fyrir augum tunnuefni handa síldarútveginum. Ég lái honum ekki, þótt hann vilji ná sem mestum fríðindum þessari framleiðslu til handa, en þarna er samt of græðgilega að farið, og myndi það víða verða hafnarsjóðum til hins mesta tjóns, því að eftir því sem hv. iðnn. leggur til, koma hér fleiri til greina en Akureyrarhöfn, er nú njóta góðs af innfluttu tunnuefni. Og ég sé ekki, hví efni í aðrar umbúðir utan um. fiskafurðir, eða réttara sagt framleiðsluvörur sjávar og sveita, gæti ekki eins komizt undir þessa undanþágu. Ég veit t. d., að talsverð kassasmíði hefir risið upp víða um land í sambandi við útflutning á ísfiski. Eigi tunnuverksmiðjur norðanlands skilið þessa vernd, þá ætti það ekki síður að eiga við um slíka kassagerð. Það liggur að vísu ekki fyrir nein brtt. um þetta efni, en hana mætti flytja við 3. umr. Aftur tel ég óþarft að ganga lengra um ívilnanir þessari iðngrein til handa en það, að leysa hana undan gjöldum til ríkissjóðs. Er ekki rétt, að Alþingi sé að rýra þær tekjur, sem hafnarsjóðir hafa af þessum innflutningi.

Hv. þm. Ísaf. sagði, að bæjunum ætti að vera það nóg að hafa atvinnuna, sem af þessum iðnaði leiddi. En það stendur í engu sambandi hvað við annað. Það kemur hafnarsjóði og bæjarsjóði að engu haldi, þótt tunnugerð standi einhversstaðar, nema þá að því leyti, að hún greiðir útsvör, en það er gott fyrir fólkið.

Ég held, að fleiri hljóti að vera á því máli, að of langt sé farið með því að teygja þetta inn á svið bæjar- og sveitarfélaga.