27.11.1934
Neðri deild: 46. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2017 í B-deild Alþingistíðinda. (2701)

104. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Frsm. meiri hl. (Finnur Jónsson):

Ég þarf ekki miklu að svara hv. þm. Vestm., því að flestu, er hann drap á, hefi ég svarað, er ég svaraði hv. 6. þm. Reykv. Út af útflutningsgjaldinu vil ég segja það, að það er rétt, að við jafnaðarmenn höfum staðið að mestu leyti einir uppi um að fá það lækkað. Hinsvegar var málinu tryggt fylgi með stjórnmálasamningum milli Alþýðufl. og Framsóknarfl. Ég geri ráð fyrir því, að ef hv. sjálfstæðismenn hefðu átt hér atkvæði um, mundu þeir hafa skipt sér í málinu, eins og oft er títt um þá, til þess að einstakir þm. komist ekki í andstöðu við hagsmuni kjósenda sinna.

Hv. þm. Vestm. vildi halda því fram, að nauðsyn væri á hækkuðu síldarverði, en þó eigi svo mikil, að það réttlætti það, að bera fram brtt. við l. Ég álít það hinsvegar mjög aðkallandi. Ég hefi fært rök að því, að þessi breyt. á fyrningargjaldi verksmiðjanna, ásamt fleiru, gerir það að verkum, að hægt sé að hækka bræðslusíldina um 12%—l5%. Þá geta og fleiri togarar en nú gerast fiskað í bræðslu.

Hv. þm. benti á það, að jafnhliða því, sem ríkið gæfi síldartollinn eftir, ætlaði Siglufjarðarkaupstaður að hækka vörutollinn um helming. Þetta hefir nú ekki verið samþ. enn, og ég fyrir mitt leyti mun greiða atkv. á móti þessu ákvæði í hafnarlögum Siglufjarðarkaupstaðar. Það nær ekki neinni átt, að ríkissjóður geti eftir tolla, og bæjarfél. sé svo jafnframt leyft að taka þennan ágóða aftur. Vænti ég, að hv. þm. Vestm. haldi fast við sína skoðun á þessu máli og greiði atkv. á móti þessu ákvæði þegar þar að kemur, eins og ég. Um stj. verksmiðjunnar er það að segja, að þar koma sömu ástæður til greina og árið 1933, en það var einróma samþ., að atvmrh. skipaði stj. Munurinn er aðeins sá, að kominn er nýr atvmrh. Nema hv. þm. ætli að snarsnúast eingöngu af því, að málið er ekki lengur á valdi hans flokks?

Að öðru leyti hefi ég ekki ástæðu til að svara hv. þm. Vestm. Ég hefi áður við þessa umr. fært fullkomin rök fyrir því, að það tvennt vinnst með þessu frv., að hagsmunir ríkissjóðs eru sæmilega tryggðir, og hitt, að sjómönnum er tryggt hærra verð fyrir síldina heldur en þeir hafa átt að venjast undanfarin ár.