20.10.1934
Efri deild: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1860 í B-deild Alþingistíðinda. (2742)

75. mál, varðskip landsins og skipverja á þeim

Magnús Guðmundsson:

Hv. frsm. vill ekki kannast við neinn hringsnúning í framkomu sinni í þessu launamáli. Ég verð þá að rifja málið upp að nýju. Þar er þá fyrst að geta þess, að 1927 voru lögákveðin laun yfirmanna á varðskipunum. Árið 1928 voru laun þessi lækkuð hjá skipherrunum. Það var hinn nýi meiri hl. í þinginu, sem færði launin niður, og í þessum meiri hl. var hv. frsm. Á þinginu 1928 var hv. frsm. því fylgjandi að lækka launin frá því, sem þau voru ákveðin 1927, en nú kemur hann með till. um að hækka þau svo, að þau verði enn hærri en 1927. Þetta er hringsnúningur, hvernig sem hv. þm. reynir að vefja málið.