30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1894 í B-deild Alþingistíðinda. (2831)

71. mál, fiskimatsstjóri

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Á ég aðeins að svara fyrirspurn hæstv. forseta til sjútvn.? (Forseti: Hv. þm. má líka tala um málið sjálft). Ég hefi ekki ástæðu til að fara mörgum fleiri orðum um þetta mál. Hv. 1. þm. Rang. þótti mjög óforsvaranlegt, ef fiskimatsstjóri færi til Spánar og fiskifulltrúinn væri þar fyrir. Það kann að vera, að ekki sé mikil þörf á því, að þeir væru þar báðir samtímis, en það er langt frá að vera óforsvaranlegt. En það er annað, sem er óforsvaranlegt í þessu máli, og það er það, ef ekki verður gert allt, sem hægt er, til þess að vanda matið. Hv. 1. þm. Rang. talaði um, að umbæturnar væru með frv. þessu byrjaðar á skökkum enda; það ætti ekki að byrja að ofan frá, heldur neðan. En mér er þá spurn, hvað hv. þm. meinar, hvort hann ætlast til, að farið verði að setja löggjöf um það, á hvern hátt eigi að draga línuna, eða ákvæði um. hvaða handbrögð sjómennirnir skuli nota við vinnuna. Það er vitanlega hægt að setja lög um þetta efni, en þau lög væri ómögulegt að framkvæma. En það, sem hægt er að gera, er að láta þá menn, sem svíkja sína vöru, ekki sleppa „billega“ fyrir það, og það er einungis hægt með því að skerpa eftirlitið með matinu svo sem verða má. Í frv. er gert ráð fyrir því, að fiskimatsstjórinn hafi ekki eftirlit á einum einstökum stað á landinu, heldur um allt landið, og hann á að hafa fullt vald til þess að skera úr ágreiningi og úrskurða matið og sjá um, að eftir sínum úrskurðum verði farið. Náist enginn árangur af starfi fiskimatsstjórans, er ég ákaflega vondaufur um, að aðrar ráðstafanir dugi. Sé starf hans unnið með samvizkusemi og þekkingu, þá ætti sá fiskur, sem illa er verkaður, að lenda í sinn rétta flokk; hann lendir þá í 2. eða 3. flokk. Það er sporinn á þá fiskverkendur, sem illa verka sinn fisk, að þeir fái réttlátan dóm um sína vöru.

Hv. 1. þm. Rang. sagðist efast um, að fiskifulltrúinn hefði hæfileika til þess að vinna matsstjórastarfið, og það get ég gengið inn á, því þó sá maður sé ágætum hæfileikum búinn, þá vantar hann þá reynslu, sem matsstjóri þarf að hafa, þar sem hann hefir ekki sjálfur vanizt fiskverkun. Fiskimatsstjórinn þarf að vera uppalinn í starfinu og hafa sjálfur unnið að fiskverkun. Þess vegna álít ég, að ekki sé hægt að ætla fiskifulltrúanum að vinna þetta starf.

Ég álít, að þegar fiskframleiðendur fá að reka sig á, að þeir fá minna fyrir fiskinn þegar hann er illa verkaður, þá sé það sá harðasti og bezti skóli, sem þeir geta fengið í þessu efni, og betri heldur en þó farið væri með nýjum lagafyrirmælum að segja þeim, hvernig þeir eigi að meðhöndla sína vöru.

Hæstv. forseti beindi þeirri spurningu til sjútvn. frá hv. þm. N.-Þ., hvort hún vildi ekki fallast á að fresta umr., til þess að reynt yrði að bræða saman þær till., sem fyrir liggja í málinu. Ég hefi því að skila frá sjútvn., að hún óskar ekki eftir neinni frestun á málinu. N. hefir þegar athugað það, og hún mun hvorki breyta áliti sínu á þeim brtt., sem fyrir liggja, eða óska eftir nýjum fleygum í frv.