13.11.1934
Neðri deild: 35. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2249 í B-deild Alþingistíðinda. (2871)

106. mál, vélgæsla á mótorskipum

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Í meðferð þessa máls bæði hjá sjútvn. og við 2. umr. málsins var nokkuð dregið úr þeim réttindum, sem ákveðin voru í frv. eins og það var flutt, að þeim vélstjórum, sem fengið hafa allmikla æfingu og leikni í sínu starfi, yrði heimilað að fara með vélar, sem væru stærri heldur en núv. löggjöf heimilar þeim að fara með. Í frv. eins og það er flutt var gert ráð fyrir, að í vissum kringumstæðum öðlaðist sá maður, sem búinn er að vera — l. vélstjóri við 50—150 hestafla vél, rétt til þess að vera 1. vélstjóri við 150—500 hestafla vél, þ. e. þegar svo stendur á, að þessi sami vélstjóri er búinn að vera 1. vélstjóri við 50—150 hestafla vél í 3 ár. Þessi 500 hestafla hámarksvélarstærð, sem frv. upphaflega tók til, var færð niður í 250 hestafla stærð. En þar með eru að engu gerð þau fríðindi, sem tilgangurinn var að veita með frv., sem sé þau, að menn, sem nú eru vélstjórar á vélbátum eða minni vélskipum, gætu öðlazt réttindi til þess að vera vélstjórar t. d. á línuveiðurum, sem nokkuð eru stærri, en eru í sömu siglingum, — og í öðru lagi að menn, sem eru nú 2. vélstjórar á þessum minni skipum, eða þeim, sem hafa 50—150 hestafla vél, gætu fengið útfærslu á sínum réttindum. En ég hefi borið fram brtt. um millileið á milli frv. núv. og frv. þessa eins og það upphaflega var, þar sem ég legg til, að á þremur stöðum í frv. eins og það nú er orðið komi í stað „250“: 400 — m. ö. o., að þessir vélstjórar fái að stjórna allt að 400 hestafla vélum, í staðinn fyrir að frv. eins og það nú er orðið ákveður þetta hámark 250 hestöfl.

Ég vil í þessu sambandi benda á, hvernig þeir menn sem nú hafa lögum samkv. rétt til þess að stjórna stærri vélum heldur en hér er gert ráð fyrir, líta á hæfileika sinna undirmunna til að annast vélgæzlu þeirra manna, sem minni prófin hafa. Mér er sagt, að þegar þeir fari í sumarfrí, þá feli þeir þessum minnaprófsmönnum meðferð þessara stærri véla. Það gera þeir í þeim tilfellum, þegar þessir minnaprófsmenn hafa langa æfingu og reynslu um meðferð þessara véla, af því að þeir telja þetta öruggt og óhætt. Þetta ætti að vera nokkur leiðbeining fyrir Alþ. um, að hér sé ekki lengra gengið í þessu efni heldur en reyndir fagmenn hafa viðurkennt, að rétt sé og hættulaust að gera. Ég vil þess vegna mjög mælast til þess, að hæstv. Alþ. samþ. brtt. mína um að setja þetta hámark 400 hestöfl.