10.12.1934
Efri deild: 57. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2026 í B-deild Alþingistíðinda. (2901)

170. mál, Byggingarfélag Reykjavíkur

Frsm. (Jón Baldvinsson) [óyfirl.]:

Það er útúrsnúningur hjá hv. þm., að öll hús, sem byggð eru, séu til þess að bæta úr húsnæðisvandræðum. En þegar talað er um byggingarfélög, þá er veitt sérstakt fé til þess að koma upp ódýrum verkamannabústöðum. Einstakir menn, sem byggja hús fyrir verkamenn, verða náttúrlega líka til þess að bæta úr húsnæðisvandræðunum, en það er ekki í þessu sambandi verið að tala um að styrkja þá. Byggingarfélögunum, sem nú eru stofnuð, er tryggt, að húsaleigan geti verið hæfileg, þannig, að menn geti nokkurn veginn staðið undir kostnaðinum við byggingarnar. En þetta var ekki tryggt, þegar Byggingarfél. Rvíkur var stofnað á erfiðum tímum, en það hafði þó mikil áhrif á, að húsaleiga lækkaði á sínum tíma. Að vísu er það satt, að bæjarsjóður Rvíkur gæti staðið straum af þessum húsum, en mér finnst rétt, að byggingarsjóður einnig styðji þetta félag, enda hefir það verið viðurkennt af stjórn sjóðsins, ef heimild væri til þess í l.