02.11.1934
Neðri deild: 26. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2028 í B-deild Alþingistíðinda. (2925)

109. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Finnur Jónsson:

Það er svo með ýmsar veiðiaðferðir, að þeir, sem ekki nota þær eða þekkja þær, telja þær ónothæfar og til spillis. Þannig var t. d. þegar byrjað var að nota þorskanet. Það var talið, að þau eyðilegðu þorskastofninn, að ég ekki tali um botnvörpuveiðarnar. Þær voru taldar af ýmsum eyðileggjandi fyrir fiskistofninn, einkum meðan þær komu útlendingum einum að notum. Það hefir og verið töluverð andúð gegn dragnótaveiðunum; þær eru taldar eyðileggjandi fyrir fiskistofninn, eins og botnvörpuveiðarnar. En eins og kunnugt er, þá hafa fiskifræðingar gert ýtarlegar rannsóknir á þessu, og er álit þeirra, að dragnæturnar séu alveg skaðlausar fyrir fiskistofninn, þegar höfð sé sú möskvastærð, að ungviðið komist í gegn. Eins og kunnugt er, þá hefir nú í seinni tíð risið upp töluverður atvinnuvegur í sambandi við þessar veiðar. Þannig hafa þær t. d. töluvert verið stundaðar hér við Faxaflóa og í Vestmannaeyjum, og ég hefi heyrt, að eitt skip hafi aflað síðastl. sumar fyrir 27 þús. króna og hásetarnir haft á þriðja þús. kr. í tekjur yfir þennan stutta tíma, en það eru hæstu tekjur, sem vitanlegt er, að sjómenn hafi haft fyrir jafnstuttan tíma. Verði nú horfið að því ráði að eyðileggja þessa nýju atvinnugrein, þá myndu sjómenn þeir, sem hana stunda, hverfa að því að veiða fisk í salt, en eins og kunnugt er, þá er saltfiskmarkaðurinn mjög þröngur eins og nú standa sakir, svo þröngur, að í alvöru hefir verið talað um að takmarka saltfiskframleiðsluna. Það sjá því allir, sem um þessi mál vilja hugsa, að það er stórt atriði fyrir afkomu sjávarútvegsins að gera hann sem fjölbreyttastan, og þessi dragnótaveiði er einmitt stórt spor í þá átt. Það væri því mjög illa farið, ef horfið yrði að till. hv. þm. Borgf., að láta frv. það, sem hér liggur fyrir, ekki ná fram að ganga. Með því væri ekki aðeins verið að svipta allmarga sjómenn sæmilega góðri atvinnu, heldur og að koma í veg fyrir það, að létt verði að nokkru á saltfiskframleiðslunni. Að slík till. sem till. hv. þm. Borgf. skuli koma fram nú, er þeim mun undarlegri, þegar þess er gætt, að sérstök nauðsyn er á að beina fiskiveiðunum inn á það svið, að gera þær sem fjölbreyttastar, og aðrar þjóðir eru t. d. að koma fiskiveiðum sínum inn á þá braut, að afla þess fiskjar, sem verðmestur er samanborið við þyngd. Slíkt þykir nauðsynlegt sakir þeirra innflutningstakmarkana, sem alstaðar eru að verða að lögum, einkum af því að innflutningsleyfi eru miðuð við ákveðna þyngd fiskjar.