11.12.1934
Efri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2294 í B-deild Alþingistíðinda. (3065)

148. mál, stimpilgjald

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það er vitanlegt, að mjög erfitt er að gera sér grein fyrir því, hve miklar tekjur frv. sem þetta koma til með að gefa af sér. Þær einn hugsanlegu leiðbeiningar í því efni eru ávísanaviðskipti bankanna. Ég bað því að athuga það, hvað margar ávísanir á bankana hefðu verið gefnar eftir þeim tékkaheftum, sem bankinn hefði selt, og voru það 160000 við aðalbankana hér syðra, en þeir vissu ekki um viðskipti útibúanna úti á landi. Ef maður gerir ráð fyrir álíka miklu hjá útibúunum, sem mun þó vera ríflega áætlað, og miðar meðalgjald af ávísun við 25 au., ættu ávísanastimpilgjöldin frá bönkunum að gefa 70000 kr. af sér. Hvað kvittanirnar snertir getur enginn maður sagt um það, hvað tekjurnar verða miklar af þeim. Einnig ber að athuga það, að frá þessari lauslegu áætlun um ávísanastimpilgjöldin dragast þær ávísanir, sem gefnar eru út til að greiða með opinber gjöld, því að samkv. þessu frv. eru þær undanþegnar stimpilgjaldi. Ég hefi því ekki þorað að gefa mikið upp af tölum, en hefi þó látið uppi, að af þeim hluta ávísananna, sem gegnum bankana fer, mætti vænta 70000 kr. Ég viðurkenni, að þetta er ófullkomið svar við spurningu hv. 1. þm. Skagf., en hann hlýtur að geta sett sig inn í það, að nákvæmar áætlanir er ekki hægt að gefa um þetta.

Um 2. málsl. fyrri málsgr. 4. gr., þar sem sagt er, að það skuli varða sektum að taka við óstimplaðri ávísun eða kvittun, nema viðtakandi láti þegar í stað sjá um, að stimplað sé, o. s. frv., er það að segja, að þetta ákvæði er vitanlega sett til þess, að svona ávísanir eða kvittanir verði yfirleitt ekki sendar af stað. En það má athuga fyrir 3. umr., hvort þetta muni vera ósanngjarnt ákvæði, og bera það saman við hliðstæð fyrirmæli annara l.

Þá sagði hv. þm., að ákvæði síðari málsgr. 4. gr. væri tóm vitleysa. Þarna er vitanlega átt við það, að stimplað sé með íslenzkum stimpilmerkjum. Annars væri gr. vitleysa. Mér finnst vel mega gera ráð fyrir þeim möguleika, að menn, sem hefðu stöðug viðskipti við Ísland, létu líma á þessi gögn sín íslenzk stimpilmerki. Og gerðu einhverjir þetta, væri ekkert vit í því að láta stimpla þau aftur. Mér finnst, að það spilli engu, þótt ráð sé gert fyrir þessum möguleika.

Hv. þm. taldi, að langur tími mundi líða þar til almenningur vendist framkvæmd þessara l. Þetta má vel vera; mér er sagt að svo hafi verið með núgildandi stimpillög. En það eru engin rök gegn réttmæti þessarar löggjafar. Frá ráðuneytisins hálfu mun allt verða gert, sem hægt er, til þess að kynna mönnum l. og fá þá til að hegða sér eftir þeim. — Hv. þm. bað um útskýringu á orðinu „ávísanir“. Um það verða sett ýtarleg ákvæði í reglugerð þeirri, sem gefa á út samkv. þessum l., ásamt mörgum fleiri smærri atriðum, sem þurfa nánari skýringu. Út af því, sem hv. þm. sagði um það, að ósanngjarnt væri, að stimpla þyrfti ávísanir í einkabréfsformi, sé ég ekki, að það sé nokkuð ósanngjarnara en að krefjast stimplunar á almennar ávísanir. Hitt er annað mál, að ef til vill þarf að setja um þetta atriði nákvæmari fyrirmæli, svo að ákvæði l. verði ekki misskilin. — Ég skal taka það til athugunar, þegar gjaldið verður ákveðið, hvort upphæðin, sem nú er undanþegin gjaldinu, sé nógu há. — Í hv. Nd. var sett inn í frv. ákvæði með heimild fyrir ráðh. til að ákveða, að gjaldið yrði aðeins eitt, og ennfremur, að hann mætti ráða lágmarksfjárhæð stimpilskyldra ávísana og kvittana og hversu hátt stimpilgjaldið skuli vera. Það er því athugandi, hvort ekki er rétt að færa lágmarksupphæðina ofar, svo að gjaldið snerti ekki eins smáar greiðslur og það gerir nú. Það er vitanlega gott eitt við því að segja að fá fram sem flestar aths., þessi löggjöf er algert nýmæli, og stendur því til bóta. En það hefir nú fengið allýtarlega athugun í hv. fjhn. beggja deilda, og hefir ennfremur verið athugað af bönkunum, t. d. var gengið endanlega frá 2. málsgr. 4. gr. í samráði við fulltrúa Landsbankans, og ætti hún því ekki að vera tóm vitleysa eins og hv. þm. orðaði það.