13.12.1934
Efri deild: 60. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2305 í B-deild Alþingistíðinda. (3115)

148. mál, stimpilgjald

Pétur Magnússon:

Ég lét í ljós við 2. umr., að ef þessi löggjöf ætti að koma að gagni, yrði sérstaklega að gæta tvenns. Annarsvegar, að lögin væru einföld í framkvæmd, og hinsvegar, að stimpilgjaldið væri ekki sett svo hátt, að menn kveinkuðu sér við að borga það. Mér skildist á hæstv. fjmrh., að nota ætti ákvæði 3. gr. til þess að ákveða sama gjald af ávísunum og kvittunum, án tillits til upphæðarinnar, og hefir það þann kost, að þá þarf ekki nema eina tegund af stimpilpappír. En ég álít nauðsynlegt að hafa heimild til að ákveða mismunandi gjald af ávísunum og kvittunum. Kvittanir þola ekki að jafnaði hátt gjald, og þyrfti að orða þetta öðruvísi í lögunum. Auk þess álít ég, að sú fjárhæð, sem ráðgerð er sem hámark, sé of hátt sett. Ég ætla að leyfa mér að bera fram brtt. við 2. málsgr. 3. gr., og afhendi ég hæstv. forseta hana hér með.