13.12.1934
Efri deild: 60. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2305 í B-deild Alþingistíðinda. (3121)

148. mál, stimpilgjald

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég á brtt. á þskj. 176, og eru þær í beinu áframhaldi af því, sem gerðist við 2. umr. — 1. brtt. gerir ráð fyrir að fella niður úr A.-lið 1. gr. orðið „vöruávísanir“. Það er óþarft að hafa þetta, því að vöruávísanir eru ekki ávísanir í venjulegri merkingu þess orðs, og gæti það því orðið til þess að villa fyrir að láta þetta standa svona. — 2. brtt. er líka fram komin vegna aths., sem fram kom við 2. umr. Ef hún verður samþ., hljóðar upphafið á B-lið 1. gr. þannig: „Allar viðurkenningar fyrir greiðslu eða innborgun á fjárhæð“ o. s. frv. En það þótti geta komið fyrir, að gefin væri út kvittun með ótilgreindri fjárhæð. — 3. og 4. brtt. eru aðeins til þess að taka af öll tvímæli um, að opinber gjöld skuli undanþegin stimpilgjaldi. Ég er samþykkur brtt. hv. þm. Dal. og hv. 2. þm. Rang. að mestu leyti. Mér finnst skynsamlegt að hafa möguleika til að setja lægra gjald á kvittanir en ávísanir. En ég mundi kjósa að hafa heimild fyrir lítið eitt hærra gjaldi en hv. 2. þm. Rang. vill, án þess ég sé þó viss um, að það verði haft hærra, en ég er ekki alveg tilbúinn að taka ákvörðun um þetta. Ég ber því fram skrifl. brtt. við hina skrifl. brtt. hv. 2. þm. Rang., og afhendi ég hæstv. forseta hana hér með.