17.12.1934
Neðri deild: 62. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2307 í B-deild Alþingistíðinda. (3132)

148. mál, stimpilgjald

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Þetta frv. hefir tekið nokkrum breyt. í hv. Ed., og er aðalbreyt. á 3. gr. frv., þar sem sett er inn heimild fyrir fjmrh. til þess að taka sama gjald af öllum kvittunum, hvort sem þær eru háar eða lágar, og sama gjald af ávísunum, hvort sem þær eru háar eða lágar, enda fari gjaldið aldrei fram úr 20 aurum á kvittun og 25 aurum á ávísun. Og hæstv. fjmrh. hefir tjáð mér, að hann sé ráðinn í að nota heimildina, þó að hann hinsvegar hafi ekki ákveðið sig um, hvort hann noti heimildina til hins ýtrasta, þ. e. a. s., hvort hann tekur gjaldið svo hátt sem heimildin leyfir. Ég fyrir mitt leyti hygg, að þessi breyt. sé til bóta, en ég er samt sem áður andvígur frv., vegna þess að ég hygg, að þau rök, sem færð hafa verið gegn því í báðum þd., og þó sérstaklega þau rök, sem bankastjórar Landsbankans færa gegn frv., séu rétt, og mér finnst satt að segja undarlegt, að Alþingi skuli telja sig fært til þess að setja slíka löggjöf alveg fyrirvaralaust, þannig, að menn hafa ekkert um hana heyrt fyrr en frv. dettur inn á þingið, og samtímis koma fram tilmæli frá bankastjórum Landsbanka Íslands um að málinu sé frestað, til þess að það fái meiri og betri athugun heldur en það hefir fengið.

Fyrir utan þau óþægindi og þann kostnað, sem þetta frv. færir þeim mönnum, sem reka viðskipti sín við bankana, og fyrir utan þau ómök, sem þetta hefir í för með sér fyrir bankana, eru allar líkur til þess, að af því leiði aukna þörf fyrir bankana til seðlaútgáfu, og það út af fyrir sig er varhugavert atriði. Það er hæpið, hvort sá vinningur, sem er í aðra hönd fyrir ríkissjóðinn, er svo mikill, að rétt sé að seilast til hans þrátt fyrir þá annmarka, sem á því eru, en líklega er það svo um þetta mál eins og svo mörg önnur mál, sem hæstv. ríkisstj. flytur, að örlög þess séu ráðin, svo að umr. um það hafi enga þýðingu.

Ég held, að um þetta frv. megi segja, að af öllum þeim tekjuöflunarfrv., sem hæstv. fjmrh. hefir borið fram hér á Alþingi, hafi verið færð fram veikust rök fyrir þessu, og sterkust rök gegn því að hraða þessu máli endilega í gegn á þessu þingi. Ég geri því ráð fyrir, að sjálfstæðismenn hér í d. verði allir andvígir þessu frv.