10.12.1934
Efri deild: 57. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2198 í B-deild Alþingistíðinda. (3335)

77. mál, áfengislög

Jón Baldvinsson [óyfirl.]:

Ég hefi flutt hér eina brtt., og er í henni fólgin sú breyting, sem ég tel mikilsverðast, að gerð sé á frv. Hún er sú, að heimila kaupstöðum utan Rvíkur, sem nú hafa útsölur á Spánarvínum, að greiða atkv. um það, hvort þeir vilji sterka dykki eða ekki. En ég geng þó ekki lengra en það, að einfaldur meiri hl. ráði úrslitum. Ég tel ekki rétt að krefjast mjög mikils meiri hl. til að leyfa hin sterku vín, því að sé mönnum neitað um vínin af minni hl. kaupstaðarbúa, er mjög hætt við, að á þeim stað veittist erfitt að halda uppi reglu, og slíkt myndi jafnan hafa óánægju í för með sér. Síðan 1922, er Spánarvínin voru leyfð, hefi ég litið á bannlögin sem gagnslaust flak, því að í skjóli hinna sterku vína hefir reynzt ómögulegt að halda þeim uppi. Við þetta bætist þjóðaratkvgr. sú, sem fram fór síðastl. haust, þótt ég skuli játa, að hún hafi verið slælega sótt. Auk þessa höfum við nú misst þá siðferðislegu stoð, sem við höfðum í bannþjóðunum í kringum okkur, nú, er þær hafa afnumið bannlögin hjá sér. Ég fæ því ekki skilið, að þeir, sem hafa vilja áfengismálin í sæmilegu horfi, sjái sér nokkurn vinning í því, að vera að halda lengur í þá ræfla, sem eftir eru af bannlögunum. Ég sagði 1922, er Spánarvínunum var hleypt inn í landið, að ég vildi heldur greiða atkv. með fullkomnu afnámi bannlaganna, enda myndi reynslan sína, að þau væru raunverulega úr sögunni með þeirri breytingu, er þá var gerð á þeim.

Ég hefi skrifað undir nál. með fyrirvara, þar sem ég hefi ekki getað orðið sammála meðnm. mínum að öllu leyti. Ég álít það mikilvægustu breytinguna, sem beri að gera á frv., að kaupstaðirnir utan Rvíkur hafi sjálfsákvörðunarrétt um það, hvort þeir vilja sterku vínin eða ekki, eins og felst í brtt. minni, og því legg ég áherzlu á, að sú brtt. verði samþ. Hér mun vera um í kaupstaði að ræða, og mér er kunnugt um, að í sumum þeirra er mikill áhugi fyrir því meðal bindindissamra manna að fá þetta inn í lögin. Í gömu áfengislögunum var það lagt undir úrskurð íbúanna á hverjum stað, hvort áfengissala skyldi leyfð þar eða ekki. Þegar bannlögin voru sett, féll þetta niður af sjálfu sér, en nú, er þau eru afnumin, er sjálfsagt að taka þá upp aftur.

Fjhn. hefir breytt því til batnaðar í frv., að einstakir hreppar, þ. e. kauptún, geti ekki sett upp áfengissölu gegn vilja héraðsins í kring.

Ég skal ekki vera að hræsna um það, að ég tel víst, að reynt yrði að hafa einhver undanbrögð til að koma sterku vínunum inn í þá kaupstaði, er kynnu að banna útsölu á sterkum drykkjum hjá sér, en slíkt bann yrði þó ávallt til þess að draga nokkuð úr drykkjuskap af völdum þeirra vína. Ég tel rétt, að einfaldur meiri hl. ráði, bæði til þess að forðast óánægju, og eins vegna þess, að það er demokratískt, en hitt ekki.

Auðvitað er ætlazt til, að útsölur Spánarvínanna séu áfram í kaupstöðunum, því að það mun vera samningsbundið.