10.12.1934
Neðri deild: 55. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2580 í B-deild Alþingistíðinda. (3425)

80. mál, eftirlit með opinberum rekstri

Magnús Torfason:

Þetta er í annað skiptið í dag, sem ég er ónáðaður, og það alveg ófyrirsynju. Það er þó ekki gustuk, því að ég er allmjög kvefaður. En mér finnst, að Bændafl. geti ekki setið undir þeim árásum, sem hv. síðastl ræðumaður gerði á hann, án þess að svara nokkru til.

Ég hygg, að það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, hafi hann borið hér fram sökum algerðs ókunnugleika og skilningsleysis á Bændafl. Honum er víst ekki kunnugt um það, að Bændafl. er ekkert annað en smámynd af gamla Framsfl. Ef hann vill athuga það betur, þá hygg ég, að hann geti séð, að núv. form. flokksins sé í honum miðjum, eins og Tryggvi Þórhallsson var í gamla Framsfl. Hannes Jónsson er þverrar handar til vinstri við Jón í Stóradal, en hvað mig snertir, þá er ég vinstra megin við formanninn og snertuspöl til hægri við Jónas Jónsson, og því er eðlilegt, að slíkt komi fram við atkvgr. okkar. En ég neita því harðlega, að nokkur Bændaflokksmaður hér á þingi hafi nokkurntíma greitt atkv. gegn nokkurri samþykkt flokksins. En flokkurinn er svo frjálslyndur, að hann setur engin höft ná handjárn á starfsmenn sína, og ég get lýst yfir því, að ég kann einstaklega vel við mig í svo frjálslyndum flokki. Það er satt, að við tveir, sem eigum hér sæti í d., höfum stundum greitt atkv. hvor gegn öðrum, en þau atkv. verða þá = 0, eða vega hvort annað upp, alveg eins og við hefðum báðir setið hjá við atkvgr., eins og oft hefir verið.

Því er Bændafl. frjálslyndastur og sjálfum sér samkvæmastur allra flokka. Hann krefst þess eins af sínum mönnum, að þeir fylgi af alhug málum bænda, þeirrar stéttar, sem nú á við þrengstan kost að búa, en mest ríður á, að fái sinn hlut réttan.