20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2355 í B-deild Alþingistíðinda. (3433)

150. mál, fiskimálanefnd

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl]:

Ég hefi enga tilhneigingu til þess að beita valdboðum að þarflausu. En eins og ég sagði áðan þá tel ég það glapræði, að ganga svo frá þessu máli, að ekki væri neitt vald til, sem beita mætti, ef nauðsyn krefði.

Háttv. þm. G.-K. gat þess áðan, að hann hefði ekki sagt, að hann óttaðist ekki, að þetta kynni að hafa áhrif í viðskiptalöndunum. Ég vil nú endurtaka það, sem ég sagði, að ég geri ekki ráð fyrir, að einkasöluheimildin yrði notuð, nema rannsaka áður, hvort óttast þyrfti sérstakar afleiðingar hennar hjá aðalviðskiptaþjóðunum. Þessa yfirlýsingu má hafa eftir mér sem ráðherra. Annars er hann dálítið einkennilegur, þessi ótti háttv. þm. við einkasölu, þar sem hann hefir sjálfur sem ráðherra sett bráðabirgðalög um einkasölu á fiski og það alveg án þess að spyrja þingið að. — Þá vildi háttv. þm. halda því fram, að frv. þetta hvort sem að lögum yrði eða ekki, gæti orðið til þess að sprengja fisksölusamlagið, því að með því væri opnuð leið fyrir fleiri útflytjendur en nú eru. En þetta er hinn mesti misskilningur, sem mig stórfurðar, að háttv. þm. skuli bera fram. Nú eru engar hömlur lagðar á í þessum efnum, stj. getur leyft hverjum sem er að flytja út fisk, og það eru engar líkur til, að stj. yrði örari á útflutningsleyfin, þó að frv. yrði samþ., heldur en hún er nú.