20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2355 í B-deild Alþingistíðinda. (3434)

150. mál, fiskimálanefnd

Ólafur Thors:

Ég veit, að hæstv. ráðh. skilur muninn á því, að taka einkasölu á allri saltfiskframleiðslu landsmanna, og bráðabirgðalögum þeim, sem ég lagði til, að gefin væru út, er mæltu svo fyrir, að um örstuttan tíma væru settar vissar skorður við útflutningi á nýjum afla, til þess að koma í veg fyrir verðfall á birgðum, sem lágu fyrir í landinu.

Hæstv. ráðh. sagði, að sig undraði það, að ég skyldi ekki vita, að allir mættu flytja út fisk. Mig undrar, að hæstv. ráðh. skuli vera með slíka útúrsnúninga sem þessa, og það án þess að tilefni gefist til, því að hann veit, að sumir fiskútflytjendur hafa fylgt sölusamlaginu vegna þess, að þeir hafa óttazt, að frjáls og takmarkalaus samkeppni yrði til þess að fella verð fiskjarins í markaðslöndunum. Nú sagði hæstv. ráðh., að það yrði takmarkaður hópur útflytjenda, sem ætti að annast útflutninginn. Það er einmitt þetta, sem ég held, að geti orðið til þess að sprengja sölusamlagið. Þetta, að fáum útflytjendum er boðið upp á vernd og sérréttindi, er ég hræddur um, að freisti manna. Að geta orðið einn af þeim fáu og skarað eld að sinni köku freistar áreiðanlega ýmissa.

Þá gat hæstv. ráðh. þess, og sagði, að það mætti skoða sem yfirlýsingu frá sér, að einkasala á saltfiski yrði ekki tekin upp nema áður hefði farið fram rannsókn á því, hvernig slíku fyrirkomulagi yrði tekið í neyzlulöndunum. Þetta er virðingarvert hjá hæstv. ráðh. En ég vil benda honum á, að svo getur farið fyrir rás viðburðanna, hvað sem hans vilja liður, að það ástand, sem skapast, verði frv. þetta að l., rúmi fyrr en varir ekki annan möguleika til lausnar þessum málum en einkasölu, og verður þá ráðh. e. t. v. að grípa til einkasölunnar fyrr en hann hefði kosið, og áður en rannsókn sú, er hann lofar, getur fram farið.