08.12.1934
Efri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2620 í B-deild Alþingistíðinda. (3532)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég þarf ekki að svara mörgu af því, sem fram hefir komið í þessum umr. Ég vil aðeins taka það fram, að þetta frv. er vitanlega fram borið á þessu þingi með þeim ásetningi, að það verði núna að lögum.

Það hefir verið minnzt á, að eðlilegt væri, að þessi ákvæði biðu þangað til launalögin nýju verða samþ. Það getur að vísu vel verið, að launalagafrv. verði borið fram á næsta þingi, en það er ekki sennilegt, að það öðlist gildi á fyrsta þinginu, sem það er borið fram á. Þess vegna er ég því mótfallinn, að þetta frv. verði látið bíða eftir launalögunum, sem vitanlega þurfa að liggja fyrir 2 þingum áður en þau hljóta samþykki. En það er eðlilegt, að þessi meginregla sé samþ., þar sem hún hefir áður verið samþ. í okkar löggjöf viðvíkjandi Landsbankanum. Og það er fullkomin þörf á því að lögleiða þetta, vegna þess að það hefir þegar orðið tjón að því, að ekki er búið að gera það.

Hvað það snertir, sem hv. 2. þm. Rang. sagði, að ekki væri rétt að hætta að sýna sanngirni, þótt svo og svo hefði verið tekið í málið af andstæðingunum, vil ég taka það fram, að þetta lá ekki í mínum orðum, heldur hitt, að þegar ég bar frv. fram þá sagði ég, að bæði meiri og minni hl. væru sammála um meginstefnu frv., og því sagði ég, að ég væri fús til þess að leita samkomulags um smærri atriði frv. Ég tel frv. eðlilegt eins og það er nú og ekki þörf á að breyta því. En það stafar ekki af því, að ég ætli að hætta að sýna sanngirni í þessu máli. En ég mun verða síðastur manna til þess að kvarta yfir „opposition“, því að hún hefir ávallt gert mér gagn, en aldrei skaða.