08.12.1934
Efri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2626 í B-deild Alþingistíðinda. (3542)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Eftir því sem afgreiðslu þessa máls hefir verið hagað hingað til hér í d., bjóst ég sannast að segja ekki við, að frv. væri ætlað fram að ganga á þessu þingi. Hefir mér af þeirri ástæðu farið eins og fleirum, að ég hefi eigi fundið mig knúða til þess að bera fram brtt. við frv., þó ella hefði mér fundizt full ástæða til þess. Þetta frv. mun ganga lengra heldur en tíðkanlegt er í nágrannalöndum okkar, að því er ég bezt veit. Í Danmörku hygg ég, að aðeins ein stétt manna fái lausn 65 ára, almenna reglan mun vera, að embættismenn séu leystir frá starfi sínu 70 ára gamlir, en þó hefir ríkisstj. heimild til að leyfa mönnum að vera lengur í embætti. Slík ákvæði fel ég nauðsynleg, og væri heppilegt að lögfesta svipað fyrirkomulag hér. A. m. k. finnst mér gengið allt of langt með fyrirmælum 1. málsgr. 1. gr. frv., sem hér liggur fyrir, þar sem beinlínis er boðið, að menn skuli leystir frá embætti þegar þeir eru fullra 65 ára. Sök sér væri það, ef stj. væri aðeins heimilt að segja upp 65 ára starfsmönnum, með hæfilega tilteknum fyrirvara, t. d. eins árs, en annars giltu svipuð ákvæði eins og í Danmörku, um að menn skyldu leystir frá störfum 70 ára gamlir. Sérstaklega verð ég að álíta, að þetta frv., ef að lögum verður, eins og til mun ætlazt, komi hart niður á þeim mönnum, sem nú eru við aldurstakmarkið eða komnir yfir það. Þetta dettur yfir þá svo fyrirvaralaust, að ég sé ekki annað en þeir séu beittir meira en harðræði, jafnvel gerræði, þar sem þeim er enginn frestur gefinn til þess að sjá heimili sínu farborða.

Hv. frsm. n. veik að því, að farið myndi verða mildilega að við þá. menn, sem hlut eiga að máli, en að ekki myndi verða hægt að ganga frá því atriði í fjárl. nú. En þeir, sem leystir verða frá embætti á þessu ári, geta ekki beðið eftir þessari málalausn til næsta árs fjárl.

Hv. frsm. benti á, að gerð væri ívilnun til presta, og er það rétt, en þess ber að gæta, að hámark það, sem prestar geta fengið, er þeir fara frá embætti, er 1000 kr., og ætla ég, að það verði þeim mörgum lítill framfærslueyrir, einkum ef maðurinn er ekki nema fullra 65 ára, svo að hann geti enn átt fyrir óuppkomnum börnum að sjá. Verð ég því að telja hér óþarflega geyst af stað farið, og hefði verið eðlilegra, að ákvæði sem þessi yrðu sett í væntanleg launalög.

Það hafa komið fram brtt. frá meiri hl. n. og einstökum þm. við síðasta málsl. 1. gr. Er sýnilegt, að þeim, sem þar hafa fjallað um, ber ekki saman um ákvæði þau, er setja beri. Ég geri ráð fyrir, að þar sem hraða skal málinu svo mjög, muni ekki fást almennt samkomulag, en ég vil þó bera fram skrifl. brtt., er snertir þá hlið málsins, sem snýr að minni stétt.

Í síðasta málslið 1. gr. eru ákvæði þess efnis, að þetta taki ekki til opinberra fulltrúa, sem kosnir eru almennri kosningu. Nú er einn flokkur starfsmanna í landinu einmitt skipaður á þennan hátt, og vil ég þá, að sá flokkur falli undir þennan málslið. Vil ég þó ekki ganga lengra en það, að óska, að 1. ákvæði 1. gr. nái ekki til þeirra. Ég tel rétt að heimila, að menn séu leystir frá starfi, er þeir hafa náð 70 ára aldri, en ekki fyrr. Vil ég því bera fram þessa skrifl. brtt. og lesa hana, með leyfi hæstv. forseta. Hún hljóðar svo:

„Við 1. gr. frv. Á eftir síðustu málsgr. komi: Eigi taka ákvæði 1. málsgr. þessarar gr. heldur til þeirra starfsmanna, sem kosnir eru almennri kosningu“.