06.12.1934
Neðri deild: 52. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2367 í B-deild Alþingistíðinda. (3624)

150. mál, fiskimálanefnd

Frsm. (Finnur Jónsson):

Þær umsagnir, sem talað var um síðast þegar málið var á dagskrá, hafa borizt sjútvn., en svo seint, að enginn tími hefir unnizt til þess að prenta þær.

Fyrsta umsögnin, sem n. barst, er frá Útvegsbanka Íslands h. f., dags. 5. des., og hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Vér höfum meðtekið bréf hv. sjávarútvegsnefndar neðri deildar Alþingis, dags. 29. f. m., þar sem leitað er umsagnar og álits bankastjórnarinnar um frv. til laga um fiskimálanefnd o. fl., á þskj. nr. 431.

Vér undirritaðir bankastjórar getum fallizt á frv. þetta í aðalatriðum, ef 12. gr. þess félli niður. Þá grein teljum vér bæði óþarfa og varhugaverða. Óþarfa vegna þess, að okkur virðast engin líkindi til þess, að til hennar þurfi að grípa, og varhugaverða vegna þess, að við vitum ekki, hve ófyrirsjáanleg og skaðleg áhrif hún gæti haft á fiskverzlun vora í Suður-Evrópu, ekki aðeins ef hún kæmi til framkvæmda, heldur og þó hér væri aðeins um heimild að ræða.

Virðingarfyllst,

Helgi Guðmundsson. Jón Ólafsson.“

Þá er næst umsögn frá sölusambandi ísl. fiskframleiðenda, sem barst sjútvn. í morgun. Hún hljóðar svo:

„Reykjavík, 5. des. 1934.

Vér höfum móttekið heiðrað bréf yðar, dags. 29. f. m., þar sem þér spyrjist fyrir um álit okkar um frv. til l. um fiskimálanefnd, sem nú liggur fyrir Alþingi.

Með hliðsjón af framhaldsstarfsemi S. Í. F. fáum við ekki annað séð en líkindi séu á, að S. Í. F. hljóti að leggjast niður, ef fiskimálanefnd verður lögfest, en hinsvegar örðugt á þessu stigi málsins að gera sér fyllilega ljóst, hver áhrif á framhaldsstarfsemi S. Í. F. framkoma frv. þessa kann að hafa, enda þótt það verði ekki samþ. á Alþingi.

Að öðru leyti leyfum vér oss að vísa til síðustu ársskýrslu vorrar, er ber með sér álit og samþykktir fulltrúafundar þess, er haldinn var í nóvember s. 1., ásamt till. stjórnar S. Í. F. viðvíkjandi framhaldsstarfsemi sölusambandsins. Virðingarfyllst,

F. h. sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda, Richard Thors. Ólafur Proppé. Kristján Einarsson. Magnús Sigurðsson.“

Þá er eftir umsögn Landsbanka Íslands, en hún er ákaflega ýtarleg, og svo löng, að ég veit ekki, hvort ég á að eyða tíma hv. d. til þess að lesa hana upp, nema þess sé sérstaklega óskað. (Margir þm. mæltust til þess). Ef hv. þm. óska þess, þá verð ég að sjálfsögðu við þeim tilmælum, og sparast þá prentunarkostnaður um leið. Umsögnin er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Landsbanki Íslands.

Reykjavík, 6. des. 1934.

Vér höfum móttekið bréf hinnar hv. sjávarútvegsnefndar Nd. Alþingis, dags. 29. f. m., þar sem hún óskar umsagnar og álits vors um frv. til l. um fiskimálanefnd, útflutning á fiski, hagnýtingu markaða o. fl.

Eins og n. mun vera kunnugt hefir undanfarið starfað hér sölusamband ísl. fiskframleiðenda, sem bankarnir ásamt öðrum hafa átt þátt i, að stofnað hefir verið, og hefir það haft á hendi meginhluta saltfiskframleiðslu landsmanna. Vér lítum svo á, að S. Í. F. hafi gert landsmönnum mikið gagn, enda þótt finna megi eitthvað að fyrirkomulagi félagsskaparins og einstökum framkvæmdum hans, en árangurinn mundi hafa orðið ennþá betri, ef útlendingar með aðstoð hérlendra manna hefðu ekki getað tekið þátt í saltfiskverzluninni, án þess að vera í S. Í. F. Það, sem unnizt hefir við þessi samtök, er m. a. að skapa festu í verðlagið, að koma fiskinum á rétta staði á réttum tíma, að sjá um að offylla ekki markaðina, þannig að verðið falli við undirboð, eins og áður átti sér stað, meðan útflutningurinn var í höndum fleiri útflytjenda, og síðast en ekki sízt, að allir fengju jafnt verð fyrir fiskinn eftir gæðum, jafnt smáútgerðarmaðurinn, sem átti fáein skippund, og stórútgerðarmaðurinn, sem átti þúsund skippund. Áður mun það tæplega hafa komið fyrir, að sá fyrrnefndi hafi ekki fengið 5 til 10 kr. minna fyrir skippundið. Að voru áliti hefir S. Í. F. aflað sér almenns trausts út á við og inn á við, þótt einstöku óánægjuraddir hafi heyrzt, eins og ávallt er, og þ. á m. trausts hjá bönkunum, bæði hér og erlendis, og oss er kunnugt um, að erlendis hafa Íslendingar beinlínis verið öfundaðir af að geta komið slíkum samtökum á af fúsum og frjálsum vilja. Ríkisstj. mun oft hafa notið aðstoðar S. Í. F. í málum, sem snerta sölu á fiski, enda munu aðalframkvæmdastjórar félagsins vera manna kunnugastir þeim málum.

Á fulltrúafundi S. Í. F. var rætt um framtíðarfyrirkomulag þess, og eru n. kunnar till. þær, sem þar voru samþ. í þessu efni, og voru bankastjórarnir samþykkir þeim fyrir sitt leyti, og leyfum vér oss að skírskota til þeirra. Það skal að vísu viðurkennt, að fyrirkomulag S. Í. F., enda þótt brtt. fulltrúafundarins næðu fram að ganga, er byggt á veikum grundvelli ennþá, en gæta verður þess, að að S. Í. F. standa menn með mjög misjafnar skoðanir á verzlunarháttum, — menn úr öllum flokkum, — framsóknarmenn, jafnaðarmenn og sjálfstæðismenn, og er því erfitt að skipa þessu svo að öllum líki. Hinsvegar virðist oss, að till. þær, sem fram komu á fulltrúafundinum, hnigi í átt til meiri festu í félagsskapnum og til nánari samvinnu í framtíðinni.

Vér fáum ekki betur séð, ef umrætt frv. verður að lögum og fiskimálanefnd verður stofnuð, en að þá sé S. Í. F. lagt að velli, og oss virðist það jafnvel við það eitt, að frv. kom fram, þar eð það gefur þeim óánægðu byr undir báða vængi, og þeim, sem græða vilja á glundroða þeim, sem framkoma frv. hefir valdið.

Vér munum ekki fara inn á einstakar greinar frv., en aðeins benda á eftirfarandi atriði: Að vér teljum ákvæðin um einkasölu á fiski í 12. grein frv. mjög athugaverð, sérstaklega með tilliti til markaðslandanna í Suður-Evrópu, þar sem sumsstaðar má ekki heyrast nefnt orðið einkasala.

Þá er talað um löggilta útflytjendur í frv., sem fiskimálanefnd á að löggilda. Við höfum áður haft útflytjendur marga og „útflytjendagrúppur“ eins og sumir kalla t. d. Alliance með sína viðskiptamenn, Kveldúlf með sína viðskiptamenn, og fisksölusamlagið með sína viðskiptamenn. Hér er því ekki um neina nýja hugmynd að ræða nema löggildinguna. En hitt vitum vér, að undir þessu fyrirkomulagi hafa hinir einstöku útflytjendur barizt á mörkuðunum og lækkað verðið hver fyrir öðrum, öllum landsmönnum til tjóns, og svo mundi enn verða eins, þrátt fyrir ákvæði 5 gr. frv., um að fiskimálanefnd eigi að setja lágmarksverð á fiskinn, því að ekkert er hægara fyrir útflytjendur en að fara í kringum það ákvæði. Ennfremur verður að telja ýms ákvæði í 5. gr. frv. varhugaverð, að því leyti sem þau beinast að kaupandanum ytra. Aðallega er deilt um í þessu máli, hvort ráða skuli í slíkum félagsskap og starfað hefir hér að fisksölu, fiskmagn hvers einstaks einvörðungu eða með vissum takmörkunum, eða höfðatala félagsmanna. Að ráða fram úr því máli á heppilegan hátt, svo að vel megi við una, er markmið þeirra, sem að þessum málum vinna, og þar á meðal þings og stjórnar. En vér lítum svo á, að of snemmt hafi verið að ráða því endanlega til lykta nú, og vel hefði mátt notast við það fyrirkomulag, sem S. Í. F. hefir skapað, þar til menn hafa komizt að fastri niðurstöðu um endanlegt fyrirkomulag á þessum málum, og viðskiptaerfiðleikar þeir, sem nú standa yfir, eru liðnir hjá. Aftur á móti virðist oss rétt, að fiskimálanefnd hefði verið sett á laggirnar til þess að sjá um leitun nýrra markaða, nýrra verkunaraðferða, hafa með höndum úthlutun á verkunarleyfum og fleira, en láta fisksöluna afskiptalausa a. m. k.

Að lokum viljum vér bera fram þá áskorun til þings og stjórnar, að reynt verði að ráða saltfisksölumálinu til lykta nú á þinginu fyrir árið 1935, með samkomulagi milli flokkanna, svo að allir megi vel við una, og ekki hljótist af neinir alvarlegir árekstrar, þar eð þessi verzlun er aðalhyrningarsteinninn undir fjárhagslegri getu þjóðarinnar, og mega því engin mistök á því máli eiga sér stað. Með góðum vilja hlýtur að vera hægt að finna veginn.

Virðingarfyllst,

Landsbanki Íslands.

Magnús Sigurðsson. Ludvig Kaaber. Georg Ólafsson.“

Þá liggja hér fyrir við 3. umr. þessa máls þau skjöl, sem æskt var eftir að lægju fyrir við þá umr. málsins. Ég sé ekki ástæðu til þess að koma neitt verulega að því, sem haldið er fram í hverri einstakri umsögn, vegna þess, að rökin bæði með og móti málinu hafa komið fram undir meðferð málsins. En ég vil þó benda á það, að umsagnirnar eru talsvert mismunandi, þannig, að 2 bankastjórar Útvegsbankans leggja með frv., að undanskilinni 12. gr. þess, sem hefir í sér fólgna heimild til einkasölu á saltfiski. Umsögn Landsbankans og sölusambands ísl. fiskframleiðenda eru að vissu leyti samhljóða, en þó er umsögn Landsbankans miklu fyllri heldur en umsögn sölusambandsins. Ég vil benda á eitt atriði, sem þessar tvær umsagnir eru algerlega sammála um, og það eru þau ummæli, að vel sé líklegt, að sölusambandið leysist upp, af því að þetta frv. hefir komið fram hér á Alþ., hvort sem það nær fram að ganga eða ekki. Í báðum þessum umsögnum má sjá ótta um það, að sölusambandið muni leysast upp, hvort sem þetta frv. nær fram að ganga eða ekki, bara vegna þess að það hefir séð dagsins ljós. Ef þessi ótti bankastjóranna og S. Í. F. er á rökum reistur, finnst mér því meiri ástæða fyrir Alþ. að skiljast ekki svo við þetta mál, að afgreiða ekki þetta frv. Ég lít svo á, að umsagnir þessara tveggja aðila séu mjög veigamikil rök fyrir því, að Alþ. beri að afgr. frv. á þessu þingi. Væri það ekki gert, má samkv. umsögninni telja alveg víst, að fullkomið öngþveiti verði í fiskverzluninni nú á næsta ári.

Ég get svo horfið frá þessu, en skal nú minnast á brtt. á þskj. 662, sem meiri hl. sjútvn. flytur í samráði við ríkisstj. og er þess efnis, að stj. skuli heimilt að veita einstaklingum og félögum lán eða styrk, til þess að gera þeim kleift að koma upp tækjum til þess að verka fisk og aðrar sjávarafurðir með nýjum aðferðum, svo sem herðingu, hraðfrystingu o. fl., svo og til þess að gera tilraunir með útflutning og sölu sjávarafurða á nýja markaðsstaði. Það er gert ráð fyrir, að fiskimálan. sjái um veitingu þeirra lána og styrkja, og að lánin megi vera vaxtalaus um ákveðið árabil. Einnig er stj. heimilað að taka 1 millj. kr. að láni í þessu skyni. Ég þarf ekki að fjölyrða um þessa brtt., en hún markar þá stefnu, sem stjórnarflokkarnir hafa tekið í þessu máli hér á Alþ., að kapp skuli lagt á að hefjast handa um breyt. og umbætur á verkunaraðferðum, og að áherzla sé lögð á að finna nýja markaði, svo að fiskiflotinn þurfi ekki að stöðvast. Menn eru samdóma um þann voða, sem vofir yfir þjóðinni í þessu efni, og má því til sönnunar benda á grg. fyrir frv. um fiskiráð, sem oft hefir verið rætt hér í d. Þar er hvað eftir annað tekið fram, að gera þurfi ráðstafanir um breyt. á verkunaraðferðum, og það er bent á, að ef ekki verði neitt gert, séu líkur til, að hér liggi í árslok 1935 viðlíka miklar saltfiskbirgðir eins og gera má ráð fyrir, að verði hægt að selja af þeirri vöru árið 1936. Þeir, sem að þessu frv. um fiskiráð standa, koma þó ekki auga á annað, sem hægt sé að gera en að afgreiða frv. um skuldaskilasjóð og um fiskiveiðasjóð, sem á að koma til framkvæmda eftir 6 ár, ennfremur rekstrarlánafélög, sem stj. Landsbankans hefir sagt um, að ekki fæli í sér neitt nýtt, sem ekki væri hægt að gera eftir gildandi l. Þeir vilja og afgr. frv. um fiskiráð, sem á að vera bæði valdalaust og félaust og því ekki nema nafnið tómt. Í grg. þessa frv. um fiskiráð eru tekin fram ýms almenn sannindi, sem allir flokkar geta verið sammála um, svo sem að vandræði vofi yfir. En munurinn á stefnu stj. og andstæðinganna er sá, að andstæðingarnir vilja gera breyt., sem að okkar áliti ganga ekki nógu langt og bæta alls ekki úr þeim markaðsörðugleikum, sem vofa yfir. En stjórnarflokkarnir bera hinsvegar fram fiskimálanefndarfrv., sem hér liggur fyrir, sem miðar að því, að hafizt sé handa um nauðsynlegar athafnir til þess að bjarga sjávarútveginum úr yfirvofandi vandræðum. Og í framhaldi af þessu frv. er lögð fram sú brtt., sem ég gat um, til þess að n. geti fengið það starfsfé, sem hún að áliti stjórnarflokkanna þarf að hafa. Ég sé, að við frv. hafa komið fram brtt. frá hv. þm. V.-Ísf. og í öðru lagi frá hv. þm. Vestm. og hv. 1. þm. Rang. Um brtt. hv. þm. V.-Ísf. get ég sagt það, að mér sýnist, að þær muni ekki verða til skaða fyrir frv., og er rétt að athuga, hvort eigi væri ástæða til að taka þær upp í frv. Í till. er bent til þess, að gefa einu fél., sem byggt er á félagslegum grundvelli, meiri réttindi en löggiltum útflytjendum, og get ég fallizt á, að þetta sé tekið til athugunar.