28.11.1934
Neðri deild: 47. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2662 í B-deild Alþingistíðinda. (3688)

161. mál, síldarútvegsnefnd

Frsm. (Finnur Jónsson):

Ég get á þessu stigi málsins verið stuttorður. Þetta frv. er byggt á sömu grundvallarreglum og frv. stj. um fiskimálanefnd, útflutning á fiski o. fl. Það liggja allar sömu ástæður fyrir því, að þetta frv. er fram borið eins og frv. um skipulagningu á fiskverzluninni. Út af umtali, sem nýlega varð í hv. Ed. í sambandi við þetta mál, vil ég taka það fram, að þeir, sem sömdu þetta frv., hafa fylgt nákvæmlega sömu reglum í till. sínum og n. sú, sem kosin var í enska þinginu til þess að gera till. til breyt. og endurbóta á síldarútvegi Breta og koma skipulagi á síldveiðina þar, sem er í ófremdarástandi eins og hér á landi. En þó ætla ég, að þeim, sem unnið hafa að þessu frv., hafi ekki verið kunnugt um till. brezku síldarmálan., þegar þeir sömdu þetta frv.

Vegna þess að komið var í óvænt efni um rekstur brezka síldarútvegsins, var skipuð sérstök n. í fyrra til þess að athuga og bera fram till. til bjargar útveginum. Og það vill svo einkennilega til, að till. þeirrar n. stefna nákvæmlega í sömu átt um skipun þeirra mála og gert er í þeim frv., sem ríkisstj. leggur fyrir þetta þing, um fiskimálanefnd og síldarútvegsnefnd. Þó er sá munur á, að ætlazt er til, að síldarmálan. Breta sé að öllu leyti skipuð af ríkisstj. og að síldarmálan. þar ákveði, hvað mörg skip skuli gerð út á síldveiðar, hvaða veiðarfæri skuli notuð, á hvaða tímum síldveiðar skuli fara fram og hvaða veiðisvæði skuli notuð. Ennfremur hefir n. vald til þess að löggilda síldarsaltendur og útflytjendur síldarinnar, og einnig í aðalatriðum að skipa útflutningsdeildir, er taka að sér verkun á síldinni og semja um útflutning á henni og tryggja markaði erlendis. Ég hefi nýlega séð í fréttum frá Bretlandi, að gert er ráð fyrir, að þar verði skipuð síldarnefnd til þess að koma skipulagi á síldarútveginn þar, eftir till. brezku þingnefndarinnar. Ég geri ráð fyrir, að það sé engin tilviljun, að ríkisstj. hefir í frv. sínum um útvegsmálin farið í sömu átt og gert hefir verið í mesta fríverzlunarlandi álfunnar, Bretlandi, heldur mun það stafa af því, að sömu ástæður í ýmsum löndum skapa samskonar till. til úrlausnar, þó að í fjarlægum löndum sé. Enda er það sérstaklega nauðsynlegt, að við Íslendingar skipuleggjum síldarútveginn hjá okkur á sama hátt og Bretar, af því að við þurfum að keppa við þá á sömu mörkuðum, t. d. í Þýzkalandi og Bandaríkjunum. Ef við mætum brezkri samkeppni með svipaðri skipulagningu á síldarútveginum og Bretar hafa hjá sér, þá höfum við miklar líkur til þess að vinna nýja markaði. En því aðeins stöndumst við samkeppnina, að skipulagið verði sem traustast.

Það hefði verið mjög æskilegt, að þeir hv. þm., sem halda því fram, að þessum málum verði bezt skipað hjá okkur með því að hafa aðeins ráðgefandi nefndir, kynntu sér álit og till. brezku n., fyrst þeir vilja ekki viðurkenna, að ástand það, sem nú ríkir í sjávarútvegsmálum hér á landi, gefi tilefni til svipaðra aðgerða og gert er annarsstaðar. Þeir ættu að athuga, hvaða till. eru efstar á baugi um meðferð þessara mála erlendis, þar sem atvinnuvegirnir standa máske betur að vígi en hér á landi, og færa svo rök að því, á hvern hátt það muni vera hættulegt fyrir okkur Íslendinga að feta í fótspor þekktustu fríverzlunarþjóðar í álfunni.

Flutningi þessa frv. hefir verið hagað á sama hátt og við frv. um fiskimálanefnd. Það var tekið eintak af því í prentsmiðjunni áður en prentun var lokið og sent sjútvn. Nd. til athugunar. Að nokkrum tíma liðnum kváðust tveir af nm. ekki vilja eiga þátt í flutningi frv. með meiri hl. n., sem flytur frv. eftir ósk hæstv. stj. Meiri hl. sjútvn. er frv. aftur á móti samþykkur og leggur til, að það verði gert að lögum.

Ég skal svo ekki hafa þetta forspjall lengra, en óska, að frv. verði vísað til 2. umr.