05.12.1934
Neðri deild: 51. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2692 í B-deild Alþingistíðinda. (3719)

161. mál, síldarútvegsnefnd

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Mér skildist á frsm. þessa máls, hv. þm. Ísaf., að ég hefði verið að átelja hann fyrir það, að hann hefði setzt á bráðabirgðal. hæstv. ríkisstj., sem sett voru á síðastl. sumri um síldarsölusamlag.

Ég gerði það út frá því, að það er ómótmælanlegt, að með því að sitja á því frv. og bera fram það frv., sem hv. meiri hl. sjútvn. ber hér fram, er horfið frá þeirri stefnu, sem bráðabirgðal. byggðust á, að veita frjálsum félagssamtökum síldarútvegsmanna nokkurn stuðning til þess að þeir gætu betur notið sín við söluna, því að þótt um bráðabirgðal. megi segja, að í þeim felist nokkuð víðtækt vald, þá er það vitanlegi, að þau eru fram komin fyrir ósk hlutaðeigandi manna og eiga ekki að ganga lengra en að styðja þessi frjálsu samtök síldarútgerðarmanna sjálfra til þess að selja sína síld. En það frv., sem hér liggur fyrir, eins og ég hefi rakið í minni ræðu um þetta mál í dag og hv. frsm. hefir ekki á móti mælt, stefnir beinlínis að því, að tekin verði upp einkasala á síld, því að það er gerð ýtarleg tilraun til þess, að þessi n., sem á að skipa og ráða á yfir þessum málum, verði þannig skipuð, að meiri hl. verði menn, sem hafa þá yfirlýstu skoðun, að telja einkasölu bezta fyrirkomulagið á verzlunarmálum, og hvers vegna skyldi maður þá ekki ætla, að þeir færu þessa leið, sem þeir álíta bezta og heppilegasta í þessu efni?

Það er því sá reginmunur á þessu frv., sem hér liggur fyrir, og bráðabirgðal., að bráðabirgðal. byggja á þeim grundvelli, að styðja frjáls samtök um sölu á síld, en frv. aftur á móti á því, að tekin verði einkasala á síld. Það þýðir því ekkert fyrir hv. frsm. að vera að vitna í þessi bráðabirgðal., að þau feli þetta í sér engu síður en þetta frv., sem hér liggur fyrir, því að þótt ríkisstj. hafi haft heimild til þess að skipa n. til nánari framkvæmda í þessu efni, þá var hún ekki notuð á síðastl. sumri frekar en það, að sett var n. manna, sem svo hafði engin afskipti af sölunni, en hinsvegar var talað við fulltrúa stj. um að fylgjast með því, hvað síldarsölusamlagið gerði í þessum efnum. (FJ: Ha?). Ha, segir hv. þm., hann skilur kannske ekki þann mikla mun, sem er á því, hvernig þetta var framkvæmt á síðastl. sumri, og hvernig hugsað er að framkvæma það eftir þessu frv., ef að l. verður. Ég skal svo ekki fara lengra út í þetta, en hvað snertir ágæti þessara bráðabirgðal., þá sagði ég ekkert um það.

Hv. þm. Ísaf. lýsti því yfir, að þessi skipulagning, sem gerð var á síldarútveginum á síðastl. sumri, hefði leitt til góðrar úrlausnar á þessu máli, og það, sem ég sagði um þetta, var ekkert annað en það, að mér þætti undarlegt, að þingmenn vildu hverfa frá fyrirkomulagi, sem hefði gefið góða raun, og stefna að þeirri tilhögun, sem verst hefir leikið þessa útgerð.

Að því leyti sem hv. þm. minntist á, að sjálfstæðismenn hefðu verið í meiri hl. í stj. síldarsölusamlagsins, þá vil ég vekja athygli á því, að hv. þm. virðist gera tilraun með þessu frv. til þess, að svo geti ekki orðið framvegis, því að auk þess sem þessir fjórir aðilar, sem tilnefndir eru í frv., eiga að kjósa sinn manninn hver í síldarútvegsnefndina, þá er það tryggt, að hinir þrír í n. verði hreinræktaðir sósíalistar, með því að fela Alþýðusambandinu að skipa tvo og sósíalistaráðh. að skipa þriðja manninn. Ég held þess vegna, að eftir þeim till., sem hér liggja fyrir, sé gengið svo langt í því að skipa þessa n. pólitíska, að það sé fyrirsjáanlegt, að hún fari með síldarverzlunina út í einkasölu.