05.12.1934
Efri deild: 53. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2475 í B-deild Alþingistíðinda. (3734)

69. mál, eftirlit með sjóðum

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Meiri hl. fjhn. leggur til, að frv. verði samþ., með einni smábreyt.

Þessir sjóðir, sem hér um ræðir, eru bæði nokkuð margir og dreifðir, svo að sjálfsögðu er ekki nema eðlilegt, að það opinbera skipi einhverskonar eftirlit með þeim, a. m. k. það lágmarkseftirlit, að það viti, hvaða sjóðir eru til í landinu. Það er það minnsta, sem hægt er að komast af með í þessu efni, en samt getur farið svo, að það verði heldur til þess að draga úr töpum sjóðanna. Þess vegna er sjálfsagt að skipa sæmilegt eftirlit með þessum sjóðum. Aftur á móti er jafnsjálfsagt að gera þetta eftirlit sem einfaldast og ódýrast. Fjöldinn allur af sjóðunum er vel geymdur og vel stjórnað. Sumir af sjóðunum hafa verið lagðir undir ýms yfirvöld, sem geyma þá og varðveita, t. d. biskup, og háskólann má einnig nefna. Háskólaráð sér um og stjórnar þeim sjóði og skipar nákvæma endurskoðun á hverju ári á honum. Slíka sjóði er vitanlega ástæðulaust að leggja undir aðra yfirstjórn.

Aftur á móti er rétt, að einhverjir menn séu til þess valdir, að halda skrá yfir sjóðina, hafa yfirlit yfir, hvaða sjóðir eru til, og geta gripið inn í, hvenær sem þeim þykir eitthvað á bresta í meðferð þessara sjóða. Okkur virtist með þessu frv. vera séð fyrir þessu á ódýran hátt.

Það var hér frv. fyrir þinginu í fyrra, sem gekk í svipaða átt, enda þótt það væri að vísu nokkuð umfangsmeira. Í því var gert ráð fyrir, að sjóðirnir væru lagðir undir yfirstjórn fjmrn. Mér finnst það að ýmsu leyti vera óheppilegra fyrirkomulag. Ég er hræddur um, að ef yfirstjórn þessara sjóða ætti að vera í höndum ráðuneytisins ásamt öðrum málum, sem stjórnarráðið fæst við, þá yrði eftirlitið aðeins á pappírnum. Þetta eftirlit hlýtur að verða mikið gagnlegra, ef Alþ. kýs 2 menn, sem eiga að bera ábyrgðina á því, að þetta starf verði vel og samvizkusamlega af hendi leyst. Þessir menn hafa meiri hvöt til þess að rækja þetta starf vel heldur en gert væri, ef ráðuneytið hefði það með höndum. Í frv. þessu var og ákveðið, að ríkisendurskoðandi skyldi endurskoða þessa sjóði. Ég tel óþarft að skipa sameiginlegan endurskoðanda fyrir alla sjóðina, þar sem vitanlegt er, að á mörgum þeirra er framkvæmd nákvæm endurskoðun, t. d. eins og á háskólasjóðunum. Öll endurskoðun ráðuneytisins fer nákvæmlega fram á ári hverju og er að því er háskólanum viðvíkur birt í Árbók háskólans. Það er engin ástæða til þess að gera þetta nema því aðeins, að þeim mönnum, sem skipaðir eru til eftirlitsins, þyki eitthvað á bresta í þessu efni, t. d. ef þeir taka eftir því, að þeir fá ekki skýrslu um einhvern sjóðinn, og endurskoðandi getur þá gert ráðstafanir til þess að kippa því í lag. 3. og 4. gr. frv. gefa þessum mönnum fullkomna heimild og fullkomið vald til þess að sjá um, að þessu sé öllu haldið í lagi. Í sjálfri skipulagsskránni eru nákvæm ákvæði um stjórn og endurskoðun. Þess vegna er hægt að halda sjóðstj. að því að framkvæma þessa hluti alveg eins vel og sett væru ákvæði um það í lögum.

Ég held, að n. sé öll sammála um aðalatriði þessa frv., en hv. minni hl. gerði aðallega ágreining út af því, að í fyrra var samþ. þál., þar sem stj. er falið að láta safna skýrslum um sjóði, sem nú eru til í landinu. Hagstofan hefir sent út plögg til þess að safna skýrslum, og hv. minni hl. virðist vilja bíða eftir þessum skýrslum, áður en hann tekur ákvörðun um málið. Meiri hl. vill ekki bíða. Það, sem upp kemur við skýrslusöfnunina, verður ekkert, sem kemur mönnum á óvart. Skýrslusöfnunin er aðeins framkvæmd til þess að fá frekari tryggingu fyrir því, að hægt verði að semja skrá yfir alla sjóðina. Það er hægt að gera skrá yfir sjóðina án slíkrar eftirgrennslunar.

Verði frv. þetta samþ. og þessir umsjónarmenn verða kosnir af þinginu, þá verður þeirra fyrsta verk að taka við þessum skýrslum frá stjórnarráðinu, þegar búið er að safna þeim, og þar fá þeir efni í þessa skrá samkv. 1. gr. frv. Það er engin ástæða til þess að láta skýrslurnur koma endilega allar inn, áður en Alþ. tekur málið í sínar hendur. Aftur á móti er ekki séð fyrir, hve mikið þetta verk verður. Verk þessara manna verður mikið eða lítið eftir því, sem reynslan verður um skilsemi sjóðsstj. við það að gefa skýrslur. Reynslan sýnir fyrst, hve mikið þessir menn eiga að fá í þóknun fyrir þetta eftirlit. Þess vegna hefir þóknun þeirra ekki verið þegar ákveðin. Sú 150 kr. þóknun, sem hvorum fyrir sig er ætluð árlega, er vitanlega eingöngu miðuð við lítið starf. Ég gæti hugsað mér, að þóknunin yrði höfð dálítið hærri. Þetta er trúnaðarstarf, og það skiptir áreiðanlega fjárhagslega mjög litlu máli fyrir það opinbera, þótt ráðh. ákveði þetta. Þetta getur munað nokkrum hundruðum króna í mesta lagi, en það er rétt að orða 5. gr. þannig, að ráðh. ákveði þóknun til eftirlitsmannanna, eins og eftir brtt. meiri hl. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ. með þessari einu breyt.

Ég býst við, að hv. þdm. geti fallizt fyrst og fremst á sem einfaldasta lausn þessa máls og hinsvegar, að leiddi reynslan í ljós, að frekari ákvæði þyrfti um þetta, þá spillti þetta frv. ekkert fyrir slíkri umbót. Þvert á móti verða þessir menn, sem skipa á, manna tillögubeztir í þessu efni um það, hvað frekar þurfi að gera af hálfu löggjafans í þessu máli.