18.12.1934
Neðri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2478 í B-deild Alþingistíðinda. (3743)

69. mál, eftirlit með sjóðum

Frsm. (Ólafur Thors):

Þetta mál hefir fengið afgreiðslu hjá hv. Ed. og verið þar ágreiningslaust. Það var í raun og veru líka afgr. ágreiningslaust frá fjhn. þessarar d., og gaf n. út um það sameiginlegt nál. Einn nm. skrifaði undir það með fyrirvara og flutti svo á eftir allverulegar breyt. á frv., sem munu, ef þær verða samþ., gerbreyta svo að segja efni frv. Mér finnst hann því varla geta sótt af miklu kappi, að þær till. nái fram að ganga, þar sem hann með undirskrift sinni undir nál. þó hefir tjáð sig í höfuðefnum samþykkan frv. Ég vænti því, að þetta mál geti fengið ágreiningslitla afgreiðslu og nái fram að ganga, þar sem það er komið svo langt sem raun ber vitni um, og þar sem allir hljóta að vera sammála um, að þau fyrirmæli, sem frv. fer fram á að verði lögfest, séu þörf og að af þeim geti ekkert annað en gott leitt. Menn getur náttúrlega greint á um, hvað stórvægilegt gagn þessi fyrirmæli hafi í för með sér, en hitt hlýtur að vera ágreiningslaust, að ekkert illt geti af þeim hlotizt. — Ég leyfi mér því að vænta þess, að þetta mál þurfi ekki að tefja störf þingsins á síðustu stundu með löngum umr. og geti náð samþykki.