22.10.1934
Efri deild: 18. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2498 í B-deild Alþingistíðinda. (3777)

76. mál, einkasala á bifreiðum o.fl.

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Það má vera, að orsökin til þess, að hæstv. fjmrh. gaf svo fáar upplýsingar um þetta mál í ræðu sinni í fyrradag, hafi verið sú, að komið var nærri fundarslitum. Ég hefi því fáu einu að svara honum. Þó sagði hæstv. ráðh. dálítið, sem mér þótti vænt um að fá skýrt fram, en það var, að hér væri ekki að ræða um einkasölu, sem fyrst og fremst ætti að afla ríkissjóði tekna, heldur væri hún sett á, af því að það verzlunarfyrirkomulag væri heppilegast, og ríkinu mundi farast verzlunin betur úr hendi en einstaklingum. M. ö. o.: Hæstv. ráðh. er að boða þjóðnýtingu verzlunarinnar, einstaklingarnir eiga að hætta við verzlun, og ríkið eitt að taka við. Þetta er ekkert nýtt hvað snertir hv. 4. landsk. og flokk hans. Hitt hafa menn ekki vitað eins greinilega áður, að þetta væri líka stefnumál Framsóknarfl. Eins og ég lýsti skýrt í minni fyrri ræðu, eru til tvennskonar einkasölur. Hingað til hafa menn haldið, að Framsóknarfl. gengi inn á einkasölu sem heppilega leið til þess að afla þurfandi ríkissjóði tekna, og þá helzt af óþörfum eða lítt þörfum vörum. En nú er bert, að flokkurinn hefir gengið inn á þá stefnu, að einkasölur séu sjálfsagðar, af því að þær séu betra fyrirkomulag verzlunar en einstaklingsrekstur. Og ég benti á, að það væri í fyllsta máta undarlegt, ef báðir stjórnarflokkarnir eru sammála um þetta mál, að þeir skyldu ekki fara að undirbúa það, að taka alla utanríkisverzlunina í hendur ríkisins. Því á að halda áfram að ofurselja landslýðinn kvölurum sínum, kaupmönnunum, með ýmsar aðrar vöruteg., fyrst stjórnarliðið er búið að uppgötva miklu betra verzlunarfyrirkomulag? Það var auðvitað fjarri því, að ég væri að gera þetta að mínum till., ég er eins og menn vita, á móti því, að ríkið reki nokkra verzlun. Reynslan hefir ósannað öll pappírsrök ríkisverzlunarinnar. Ég endurtek það, að ég vildi, að forsvarsmenn ríkiseinkasalanna vildu kynna sér betur reynslu einokunarverzlunarinnar gömlu. Rökin fyrir þeirri verzlun, eða því fyrirkomulagi á verzluninni, voru sterk á pappírnum, alveg eins og rökin fyrir einkasölum nú. Þá var sagt sem svo, að ef konungur hefði alla verzlun í sínum höndum, væri alltaf hægt að flytja inn nóga, en þó ódýra vöru, hægt að áætla nákvæmlega, hvað mikils þyrfti með, svo komizt yrði hjá því að senda fleiri skip upp en nauðsynlegt var. Alltaf hefði átt að vera hægt að tryggja góða vöru o. s. frv. En hver varð reynslan af þessu fyrirkomulagi? Hún varð sú, að þessi verzlunarmáti varð sú mesta plága, sem yfir land þetta hefir komið, engin drepsótt, ekkert harðæri átti eins mikinn þátt í því að koma íbúafjölda landsins niður í 30000 manns eins og einokunarverzlunin. Um það munu allir sagnfræðingar sammála. En nú munu menn segja: þessu víkur allt öðruvísi við nú á dögum. Stj. selur auðvitað þessar einkasölur á með heill þjóðarinnar fyrir augum. En munurinn er ekki svo mikill sem menn halda. Í gamla daga var konungurinn hafður þessi forsjón, sem stj. á að vera nú. Konungur hafði þá aðferð, að selja hafnirnar á leigu, en auðvitað átti strangasta eftirlit að vofa yfir höfðum kaupmannanna, taxtar voru settir o. s. frv., sem auðvitað var allt þverbrotið. En þegar einkasalan loks var afnumin, þá voru margir landsmenn á móti því, svo impóneraðir voru þeir af rökum einokunarinnar, að þeir þorðu ekki almennilega að sleppa þessu fyrirkomulagi, sem þó hafði leikið þá svo grátt. En þetta var nú samt gert, einokunarverzlunin var afnumin af kjarkmiklum mönnum. Verzlunin komst í gott horf, þjóðin rétti við efnalega, en það gerði svo aftur stjórnarfarslega endurreisn mögulega. Ég vildi, að forsvarsmenn þessarar nýju einokunar vildu athuga betur þessa reynslu, en horfa minna á sín pappírsrök, þótt þau kunni að líta glæsilega út.

Annars ætlaði ég ekki nú að fara inn á umr. um frjálsa og ófrjálsa verzlun; um það efni hefir oft verið rætt hér, en þar sem umr. var beint inn á almennar brautir, þóttist ég hafa afsökun fyrir því að láta þessi orð fylgja.

Hv. 4. landsk. minntist á það í fyrstu ræðu sinni, að þessar ráðstafanir kynnu að valda truflunum í viðskiptalífinu, og skildist mér það vera vegna þessara truflana, að hann treysti sér ekki til þess að bera fram till. um að einoka alla verzlunina. Það er þó gott að fá viðurkenningu á því, að ráðstafanir þessar valdi truflunum. En það er ekki nóg með það, að þær valdi truflunum í lífi einstaklinga, heldur veldur þetta líka truflunum á starfsrekstri bæjarfél. Eins og hv. þm. N.-Ísf. benti á, fá bæjarfél. mestan hluta af tekjum sínum með álagningu aukaútsvara, þ. á m. á verzlanir. Og sölsi nú ríkið alltaf meira og meira af þessum atvinnurekstri undir sig, hlýtur þessi tekjustofn stórum að minnka.

Það, sem hv. þm. talaði um glundroðann í frjálsu verzluninni, var aðeins endurtekning þess, sem hann er margbúinn að segja hér áður, og er því óþarfi að svara því sérstaklega. Ennfremur hélt hv. þm. því fram, að miklir peningar stæðu í vörubirgðum, þó að ég hefði sýnt fram á það í fyrri ræðu minni, að svo væri ekki. Ég er viss um, að það stendur ekki mikill gjaldeyrir í vörubirgðum, eftir að búið er að framkvæma innflutningshöftin. Og vissar vöruteg. binda lítinn gjaldeyri. Ég þekki enga, sem liggja með birgðir af bílum, mótorum eða rafmagnsvélum, mest af þessu er pantað bara eftir hendinni, og mikið af því flutt inn með gjaldeyrisfresti, og þá ekki meira af hverju en hægt er að selja áður en gjaldfresturinn er úti. Og svo eru nú þessar mörgu teg., sem alltaf er verið að stagast á, teg., sem þurfi að bíða eftir varahlutum i. En nú er það svo, að þegar maður kemur og vill t. d. kaupa bíl, spyr hann, hvort hægt sé að fá varahluti í hann hér á landi. Ef svo er ekki, verður hann að gera það upp við sjálfan sig, hvort hann vill samt sem áður kaupa þessa bílateg. Oftastnær fer það svo, að hann kaupir bíl, sem svo mikið er selt af, að seljandi telur sér fært að liggja með safn varahluta. Geri hann það ekki, þá er það sökum þess, að hann álítur, að kostir þeirrar bílateg., sem hann tekur, séu þyngri á metunum en þau óþægindi, að geta ekki fengið varahluti hér á landi. Og ef má dæma eftir reynslunni með viðtækjaverzlunina, má gera ráð fyrir, að bílaeinkasalan neyðist líka til þess að panta þessi ýmsu merki, eftir því sem menn óska. Og það gott leiðir af mörgum teg. á markaðinum, að menn prófa þær. En einkasalan prakkaði sennilega upp á menn þeirri einu teg., sem hún hefði bitið sig fasta í. Ef hefði verið hér einkasala á bifreiðum frá upphafi, býst ég við, að við sætum enn með gamla Ford, af því að hann kom hingað fyrst.

Hv. 4. landsk. var á því, að forstjórar einkasölunnar mundu áreiðanlega hafa hitann í haldinu, og engin hætta væri á því, að þeir gerðu ekki allt, sem í þeirra valdi stæði til þess að stofnunin mætti blómgast, því að þeir hefðu alveg sömu eigingirnishvötina og einstakir kaupmenn. Ég endurtek það, að þessir menn hafa ekki aðhald til annars en að reka fyrirtækið svo forsvaranlega, að ekki þyki ástæða til þess að setja þá af vegna beinnar vanrækslu. Þetta er galli, sem fylgir öllum embættisrekstri. Það reynist alltaf svo, að erfitt er að fá menn til þess að leggja alla krafta sína fram, nema þeir hafi einhverja eiginhagsmuni af því. Um margt er það svo, að ríkið verður að treysta á samvizkusemi embættismanna sinna, en það á ekki að reyna á það á fleiri sviðum en þörf er til. Það er mikill munur á því, hvað kaupsýslumaður gerir meira fyrir verzlun sína, ef hann veit, að dugnaður hans launast með álitlegri fúlgu í hans eigin vasa, og forstjóranum, sem má vera sama, hvernig verzlunin lafir, ef hún gengur það þolanlega, að embætti hans sé ekki hætta búin.

Hv. 4. landsk. færði það sem meðmæli með einkasölum, að hæg væru heimatökin hjá ríkinu, ef það vildi takmarka innflutning einhverrar þeirrar vöru, sem ríkiseinkasala væri á. Ég vil benda honum á það, að þegar ríkið sjálft hefir einkasölu á vörunni, á það meiri hagnaðar að gæta í sambandi við sölu hennar en annars, og öll líkindi eru til þess, að Alþ. hugsaði sig um tvisvar, áður en það færi að takmarka innflutning á slíkri vöru, sem þýddi þá um leið tekjumissi fyrir ríkissjóð. — Þá reyndi þessi sami hv. þm. að afsaka einkasölufarganið með því, að það væri afleiðing þeirra verzlunarhafta, sem nú væru 1 veröldinni. Þetta getur hv. þm. ekki sýnt fram á með neinum líkum. Allt skraf um verzlunarhömlur úti í heimi í sambandi við þetta mál er að tala í austri, þegar málið sjálft er í vestri. Þessar hömlur eru víða settar til þess að ná betri verzlunarjöfnuði ríkja á milli, og geta haft áhrif á það, hvaðan varan er keypt, en alls ekki, hvernig. En mér er ekki kunnugt um, að þetta einkasölufargan gangi nokkurstaðar yfir í heiminum nema hér. Hv. 1. þm. Skagf. hefir bent á það, að ekkert slíkt er á ferli hér í nágrannalöndunum, og eru þó jafnaðarmannastjórnir við völd í Danmörku og Svíþjóð, og líklega bráðum í Noregi. Þar er eins og annarsstaðar verið að takmarka innflutning á ýmsum vörum og gera verzlunarsamninga við aðrar þjóðir, en hvergi eru einkasölur talin lausn viðfangsefnanna, nema hér. Og ef þessi pest ætlar að fara að geysa yfir löndin, þá á hún upptök sín hér á Íslandi.