03.10.1934
Sameinað þing: 2. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í B-deild Alþingistíðinda. (40)

Kosning til efrideildar

Jónas Jónsson:

Ég vil einungis bæta við fáum orðum. Við hv. þm. V.-Ísf. erum nokkuð á sama máli. Sú skýring, sem hæstv. forseti byggir á, er hvað lokatakmarkið snertir hin sama og sú, sem hv. 2. þm. Rang. stakk upp á. Einn þingflokkurinn hefir neitað að kjósa til Ed. og lýst yfir, að hann vilji ekki eiga fulltrúa þar. Það er þess vegna fullvíst, að a. m. k. einn af leiðandi mönnum Sjálfstæðisfl. lítur þannig á, að í því tilfelli, að þingfl. neiti að gera skyldu sína í þessu efni, þá verði meiri hl. þingsins að sjá svo um, að slíkt fái ekki haldizt. Hv. 2. þm. Rang., hæstv. forseti og form. flokkanna, sem að hæstv. stj. standa, eru sammála um, að aðferðin, sem vakti fyrir hv. 10. landsk., sé ófær. Um atkvgr. um þessa sjálfsögðu nauðsyn er það að segja, að um það ræður hæstv. forseti náttúrlega öllu, en sá þingmeirihluti, sem að stj. stendur, er yfirleitt sömu skoðunar og hv. 2. þm. Rang., að það framferði, sem hv. 10. landsk. viðhafði, geti ekki liðizt, að það sé óhugsandi, að einn flokkur geti á þann hátt ruglað réttarreglum í þinginu með hinu fyrirhugaða verkfalli. Þess vegna get ég, út af ræðu hv. 3. þm. Reykv., sagt það, að það má ná þessu sama takmarki með uppástungu hv. 2. þm. Rang., og þingmeirihlutinn hefði þá vafalaust kosið hinn merka mann, sem að komst sem 16. maður í Ed., en ef það hefði ekki verið gert, og farið að eins og hv. 3. þm. Reykv. vildi, að bera úrskurðinn undir þingmeirihlutann, þá sé ég ekki, að það hefði breytt nokkru, þegar vitað er, að hann hefir meiri hlutann að baki sér. Allir, sem um þetta mál tala utan Bændaflokksins, eru sammála um það, að ekki komi annað til mála en að Bændaflokkurinn verði sem aðrir að lúta réttum reglum.