30.11.1934
Neðri deild: 49. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í C-deild Alþingistíðinda. (4011)

87. mál, bæjargjöld á Akureyri

Ásgeir Ásgeirsson:

Ég fylgdi þessu máli í fjhn. af þeirri ástæðu, að viðurkennt er, að kaupstaðirnir utan Rvíkur eiga í miklum örðugleikum um öflun nauðsynlegustu tekna. Ég lít svo á, að hér sé aðkallandi mál, sem ekki verði komizt hjá að leysa, og ég hefi ekki á móti því að gefa þessa heimild til bráðabirgða, til að reka á eftir því, að málið í heild verði tekið til úrlausnar fyrir kaupstaðina alla. Ég mundi fylgja því til samkomulags, að allir kaupstaðirnir fengju þessa bráðabirgðaheimild, og ég tel rétt að breyta frv. í það horf. Það gæti verið rétt að setja hér nokkrar hömlur, t. d. á það, að kaupstaðirnir legðu gjald á innl. afurðir, sem fluttar eru milli hafna hér á landi. Það má ekki koma fyrir, þó að það hafi verið gert í Vestmannaeyjum, og væri rétt að setja ákvæði um það í frv. Þá þyrfti og að girða fyrir, að kaupstaðirnir gætu notað sér þetta vörugjald til þess að lækka útsvörin óeðlilega mikið, og mundi því atriði bezt borgið með því að láta reglugerð um slíkt vörugjald í kaupstöðum heyra undir staðfestingu ráðuneytisins, svo að það gæti komið í veg fyrir, að þessi heimild yrði misbrúkuð á einn eða annan hátt. Ég hefi nú nefnt þau atriði, sem ég tel, að þurfi lagfæringar við, og ég tel rétt að breyta frv. við 3. umr. á þann veg, að öllum kaupstöðunum sé í þessu efni gert jafnhátt undir höfði.