02.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í C-deild Alþingistíðinda. (4054)

46. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Garðar Þorsteinsson:

Hv. frsm. hélt því fram, að það væri aðalatriði, hvort samvinnufélögin notuðu styrkinn til að okra á borgurunum eða ekki. Það er rétt, en hann hefir ekki enn fært rök að því, að það sé ekki óhæfileg álagning, sem hér er farið fram á. Það bætir ekki úr skák, þótt vera kunni, að aðrir selji síld jafndýrt eða okri eins á henni. Það bætir ekki málstað glæpamannsins, þótt aðrir fremji sama glæp. Ég skaut því til n. þeirrar, sem hv. þm. Mýr. á sæti í, hvort hún vildi ekki athuga. hvort ekki fyndust þess dæmi, að samvinnufélög keyptu síld á 5 aura og seldu hana aftur á 25 aura. Hann hefir nú staðfest þetta. Nú vil ég upplýsa, að samvinnufélag Hríseyinga hefir selt hana á 30 aura. Ég lét mér nægja að nefna lægri töluna, því að mér ofbauð sú hærri.

Það verður nú ekki hrakið, að það kostar ekki nema 4—5 aura að frysta kg. af síld. Hv. þm. talaði um upplýsingar, er hann hefði fengið hjá Óskari Halldórssyni. Ég hefi líka fengið upplýsingar hjá honum. Frystingin kostar á kg. 4—5 aura, geymslan 1 eyri á mánuði, og þetta að viðbættu kaupverðinu er þá allur kostnaðurinn. Er það óneitanlega alveg óhæfilegt, að þessu athuguðu, að selja kg. á 25—30 aura. Það bætir ekki úr skák, þótt aðrir selji líka dýra síld, því síður sem samvinnufélögin hafa fengið mikinn styrk úr ríkissjóði.

Það getur rétt verið, að áhætta sé talsverð við að kaupa síld og frysta. En þetta síldarverð, sem ég nefndi 25—30 aurar, á aðeins við einn stað við Eyjafjörð, en þar getur áhættan ekki verið mjög mikil, því að margra ára reynsla er fyrir um það hve mikillar síldar er þörf. Þar hafa um langt skeið róið jafnmargir bátar, jafnmarga róðra, og fer því sem næst jafnmikil beita í hvern róður. Er því ekki nema einfalt dæmi að reikna, hve margar tunnur af beitusíld hver bátur þarf að fá, svo að áhættan getur ekki verið mikil. (Forseti: Ég vil minna hv. þm. á, að þetta átti aðeins að vera stutt aths.). Hæstv. forseti hefir ekki takmarkað ræðutímann við suma sem hér hafa talað þrisvar og jafnvel fjórum sinnum. (Forseti: Þetta er ekki rétt).

Hv. 2. þm. N.-M. reis upp og spurði, hvort samvinnufélögin hefðu fengið styrk til að reka frystihúsin. Það getur verið, að ég hafi komizt þannig að orði. Í 1. segir, að þeim skuli veittur 1/4, hluti stofnkostnaðar. Á þessu tvennu er raunar ekki nema orðamunur, hvort það heitir styrkur til endurgreiðslu stofnkostnaðar eða rekstrarfé. Svona hugsanagrautur getur víst ekki þrifizt í heila annara en hv. 2. þm. N.-M.

Hv. þm. N.-Þ. þarf ég ekki að svara. Ég hefi þegar sýnt honum fram á, að tölur hans eru fleipur út í bláinn. Mér er nóg, að þingheimur trúir mér og mínum tölum, enda get ég nefnt heimildarmenn að þeim.