05.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í C-deild Alþingistíðinda. (4107)

128. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Ólafur Thors:

Ég hafði ekki hugsað mér að hafa veruleg afskipti af þessu máli við 1. umr., en ég kvaddi mér hljóðs til þess að lýsa yfir því, að Sjálfstfl. er eðlilega fús til samninga um það, hvernig ríkissjóði verði séð fyrir nægum tekjum til tekjuhallalausra fjárlaga, enda þótt hann sé sviptur þessum gjaldstofni. Lýsi ég yfir því f. h. Sjálfstfl., að hann er þess reiðubúinn að tryggja það. Vona ég þá, að stjórnarliðið sjái sér fært, eða réttara sagt, sjái sér ekki annað fært en að fylgja frv.

Fyrsti flm. frv. hefir getið þess, að frv. hafi ekki fengið þær móttökur hjá sjútvn. eða ríkisstj., sem eðlilegar hefðu mátt teljast. Hv. þm. Barð. talaði hér með nokkrum þjósti, en ég sé ekki ástæðu til að svara honum verulega, því að ég gat ekki betur heyrt á ræðu hans en að áhuginn væri ekki meiri en það, að hann væri ekki farinn að lesa frv. (BJ: Jú). Hann kvartaði undan því að hafa ekki séð frv. og að hafa ekki haft tíma til þess að kynna sér það, og hann virtist ekki einu sinni hafa lesið 1. gr. frv. (BJ: Þetta er bara venjuleg rangfærsla hjá hv. þm.). Hann sló því fram, að í 2. gr. væri sjóðnum eigi tryggðar nema 4 millj. Mér virðist það benda ótvírætt til þess, að hann hafi ekki lesið greinina, því að í henni stendur, að Fiskveiðasjóður leggi fram 1/4 millj. og að útflutningsgjaldið, 750 þús. kr. á ári, renni til sjóðsins í 6 ár. (BJ: Hvar stendur, að það geri það í 6 ár?). Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa greinina fyrir þm., svo að hann hafi þó a. m. k. heyrt hana áður en málið fer út úr deildinni. 2. gr. hljóðar svo:

„Stofnfé Skuldaskilasjóðs er 5 milljónir króna. Skal þess aflað sem hér segir:

1. Fiskveiðasjóður Íslands leggur sjóðnum til kr. 250 þús. í reiðufé.

2. Útflutningsgjald af sjávarafurðum, eins og það nú er ákveðið með lögum nr. 70 27. júní 1921, og lögum um breyt. á þeim lögum, nr. 11 29. maí 1925, og í lögum nr. 60 27. júní 1921 rennur óskert í Skuldaskilasjóð árin 1935 til 1940, að báðum þeim árum meðtöldum“.

Ég þarf svo ekki að lesa lengra, því ég veit, að hv. þm. skilur þetta, þegar hann hefir heyrt mig lesa það. Ég veit líka, að hann skilur það, að frá 1935—1940, að báðum þeim árum meðtöldum, eru 6 ár, og að 750 þús. á ári í 6 ár verða 4,5 millj., því að hv. þm. hlýtur að kunna einföldustu margföldun. Ég sé, að hv. þm. „nikkar“ til samþykkis, og er það vel. Þá á hann ekki eftir að játa öðru, sem ég hefi sagt, en því, að hann hafi ekki lesið frv. Þetta vil ég að hann bæti við yfirlýsingu þá, sem hann ætlar að gefa í blöðunum, og geri hann það ekki, þá skal ég sjá um, að þjóðin fái að vita þetta. (BJ: Hefir þm. ráð á nokkru blaði?). Ég fæ alltaf að skrifa í blöð þegar með þarf. Ég hefði vel getað skilið það, að hv. þm. hefði sagt, að hann vildi hafa örugga vissu fyrir því, að ríkissjóði yrði tryggðar einhverjar tekjur vegna þessa frv. Það liggur í hlutarins eðli, að það verður að gerast, enda sagði fyrsti flm., að það yrði gert, og erum við því reiðubúnir til samstarfs í þeim efnum.

Ég efa ekki, að hv. þm. hafi sagt það satt, að hann hafi ekki haft aðstöðu til þess að vera búinn að lesa frv., þá er hann varð að taka afstöðu til málsins í sjútvn., en hinu er ég hissa á, að hann skuli rísa hér upp og tala um, að hann væri ekki búinn að lesa frv. Þó að hv. þm. hafi ekki verið búinn að lesa frv., þá skipti það ekki máli, þegar hv. þm. Ísaf. er búinn að lesa það og tjá sig andvígan því í nefndinni. Það hefir oft komið í ljós hér á Alþingi, að hv., þm. Barð., sem er miklu greindari og dómbærari maður en þm. Ísaf., lætur sér sæma að fylgja honum í blindni, sem er sá aumasti einfeldningur, sem nokkru sinni hefir komið inn fyrir dyr þessara þingsala. (Forseti hringir).

Hæstv. atvmrh. sagðist hafa þurft l7 daga til þess að athuga þetta mál. Sjútvn. sagðist aftur hafa haft of lítinn tíma til þess að kynna sér málið. Við flm. getum aftur sagt það, að við þurftum ekki mikinn tíma til þess að skilja það, að hér var um að ræða nauðsynjamál sjávarútvegsins og alþjóðar, sem hægt var að taka fljóta afstöðu til eftir þeim skýrslum mþn., sem fyrir lágu. Það má kannske leita skjóls í þessum afsökunum um tímaleysi o. fl., en ég hygg, að það skjól verði ekki haldgott. Afstaða þessara háu herra til málsins ber því aðeins vott um skort þeirra á samúð með þessum atvinnuvegi, sem hér á hlut að máli. Þeir vilja ekki rétta honum hjálparhönd, enda þótt þeir sjái þörfina. Hæstv. atvmrh. sagði, að það væri sín skoðun, að ekki væri hægt að afgreiða málið á þessu þingi, vegna þess, að farið væri fram á svo mikinn tekjumissi fyrir ríkissjóð, að hann væri ekki verjandi. Út af þessum ummælum hæstv. ráðh. vil ég beina þeirri fyrirspurn til hans, hvort hann telji þau 13—14 millj. kr. útgjöld, sem fjárlfrv. ber með sér nú, öll þarfari en þennan stuðning til sjávarútvegsins. Þessu vænti ég, að hæstv. ráðh. svari. Samtímis vil ég benda honum á, að hæstv. fjmrh. er ekki hræddur við að bera fram frv. um geigvænlegar skattaálagningar á þegna landsins, aðeins til að standa undir útgjöldum fjárl. Þannig hafa komið fram 3 ný frv., sem fara fram á á þriðju millj. kr. nýja skatta á skattþegnana. Vilji hæstv. ráðh. bera það á borð fyrir þingheim, að það, sem greiða á með því fé, sé nauðsynlegra en útgjöld til endurreisnar sjávarútveginum, sem að dómi okkar flm. o. fl. þolir enga bið, þá verður hann að færa einhver skynsamleg rök fyrir því.

Það er ekki mitt að svara fyrir mþn. í sjávarútvegsmálum, en það þykir mér undarlegt, að hæstv. ráðh. skuli bera það fram, að hún hafi brugðizt annari höfuðskyldu sinni, sem sé þeirri, að benda á leiðir til tekjuöflunar til þess að standast þau útgjöld, sem af frv. þessu muni leiða. Mér finnst þetta langt gengið til þess að ófrægja þá nefnd, sem skilað hefir viturlegum tillögum til úrlausnar þessu vandamáli. Það ber og vott um skort á samúð með málefninu. Ég vil í þessu sambandi benda hæstv. ráðh. á, að ekki kom nefnd sú, sem rannsakaði hag bænda, með neinar till. um tekjuöflun fyrir ríkissjóð til þess að standast útgjöld hans vegna viðreisnar bændastéttarinnar. Og mér vitanlega áfelldi hana enginn fyrir það.

Hæstv. fjmrh. þarf ég ekki að svara. Það varð almennur hlátur, þegar hann sagði, að enda þótt menn væru ginnkeyptir fyrir kjósendafylginu. yrði að gæta alls velsæmis. Ég held nú, að hæstv. ráðh. hefði gott af því að kynna sér þingtíðindi frá árunum 1927—30, þegar lærifaðir hans og núverandi flokksforingi fór með völdin, þá myndi hann kannske geta lært það, að ekki sé sérlega vel til fallið, að hann sé að leggja okkur lífsreglur í þessum efnum.