08.11.1934
Neðri deild: 31. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í C-deild Alþingistíðinda. (4122)

128. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Þorbergur Þorleifsson:

Við umr. um kjötlögin hér í d. fyrir skemmstu komst hv. 6. þm. Reykv. svo að orði, að framsóknarmenn reyndu að gera öll mál að kosningabeitu. Þetta sagði hann í miklum umvöndunar- og heilræðistón. En það virðist fara svo fyrir þessum hv. þm. — eins og mörgum öðrum, bæði fyrr og síðar —, að honum gangi betur að kenna heilræðin en halda þau.

Í fyrstu ræðu sinni, framsöguræðunni um þetta mál, sem hér liggur fyrir, reyndi hann þegar að túlka málið þannig, að nota það sem agitations“mál gegn stjórnarflokkunum. Allar þær ræður, sem sjálfstæðismenn hafa flutt um þetta mál hér í d. síðan, hafa meira og minna gengið út á það, að reyna að sverta þá menn, sem standa að hæstv. ríkisstj., og ætla þeim hinar verstu hvatir í þessu máli. Þetta er nú að vísu alls ekki ný bóla hvað okkur framsóknarmenn snertir, þó að það sé reynt að klína því á okkur, að við séum yfirleitt fjandsamlegir útgerðinni og sjávarútveginum yfir höfuð. Mun aðalorsök þess vera sú, að við höfum viljað stuðla að aukinni menningu sveitanna og því, að við landbúnaðinn sé beitt nútíma tækni, en ekki miðaldalaginu gamla, og svo af því, að við erum fyrst og fremst fulltrúar sveitanna hér á Alþingi. En ég minnist þess ekki, að jafnaðarmenn í heild hafi verið vændir um það fyrri, að bera kala til sjávarútvegsins. Og þótt það kunni að takast að fá einhverja til að trúa því, að við framsóknarmenn séum fjandsamlegir sjávarútveginum, þá trúir enginn því, að jafnaðarmenn vilji þann atvinnuveg feigan, svo að það er í raun og veru vel við unandi fyrir okkur þm. Framsfl. að vera undir sama númeri og hv. þm. jafnaðarmanna í þessu máli, sem margir eru þekktir að því að bera hag sjávarútvegsins mjög fyrir brjósti og hafa meira og minna starfað fyrir þann atvinnuveg og eru fulltrúar fyrir það fólk, sem að honum stendur og byggir sitt líf og tilveru á gæfu hans og gengi. En þrátt fyrir þetta ætla ég ekki að láta því ómótmælt hér á Alþingi, að ég sem framsóknarmaður beri nokkurn kala til sjávarútvegsins eða vilji leggja stein í götu hans eða nokkurs annars heiðarlegs atvinnuvegar, er þjóðin stundar. Ýms þau ummæli, sem hafa fallið hjá sjálfstæðismönnum undir umr. um þetta mál í garð okkar, sem stöndum að hæstv. ríkisstjórn, eru mjög svo óviðeigandi og dæma sig sjálf. Jafnvel hv. þm. Ak., sem gaf sjálfum sér þann vitnisburð — og ég held alveg með réttu —, að hann hefði bæði góða skapgerð og væri vel upp alinn. — jafnvel hann talaði í æsingu um þetta mál og lýsti yfir því, að sá flokkur, sem stendur að hæstv. ríkisstj., hafi aldrei nokkurn tíma tekið vel þeim málum, sem horfa sjávarútveginum til góða. Þegar svona lætur nú í hinu græna tré í þessu falli, þá er ekki að furða, þó að nokkuð ískri í greinum hinnar visnu. En hvað mikið sem þeir reyna til, hv. sjálfstæðismenn, þá mun þeim aldrei takast að fá menn almennt til að trúa því, að það séu nokkrir menn svo heimskir og illgjarnir á Alþingi, að þeir vilji láta falla í rústir annan aðalatvinnuveg landsmanna, og þá þann atvinnuveg, sem eins og nú er komið heldur mest uppi ríkisbúskapnum. Og ég fyrir mitt leyti geri engan mun á þessum tveimur aðalatvinnuvegum þjóðarinnar. Ég vil gengi þeirra beggja. Þjóðin getur ekki lifað í landinu, svo að nokkurt líf geti talizt, nema báðir þessir atvinnuvegir gangi vel. Og hvað sjávarútveginn snertir, þá vil ég fullyrða, að á Alþingi er enginn sá maður, sem ekki veit, að það er undir gengi þess atvinnuvegar komið, hvort við getum staðið við skuldbindingar okkar við útlönd. Það væri því mjög óviðeigandi og heimskulegt að vilja þann atvinnuveg feigan. Og svo standa hv. sjálfstæðismenn upp hver eftir annan hér í d. og tala allir um það, að stjórnarflokkarnir vilji ekkert gera fyrir þennan atvinnuveg. Ég held, að mér sé óhætt að segja, að þeir geti framvegis sparað sér þá fyrirhöfn. Enginn trúir þeim.

En svo að ég víki nú beinlínis að málinu sjálfu, sem hér liggur fyrir, þá er þar skemmst af að segja, að þessu máli verður að taka vel. Framsöguræða sú, sem hv. 6. þm. Reykv. flutti um málið, hvort sem hún nú var úr einhverri grg. um málið eða hugsuð af honum sjálfum, var ágæt allt þar til hann fór að tala um hvatir okkar stjórnarliða í málinu. Þá fór honum að vefjast tunga um tönn, sem sýnir, að þessi hv. þm. er þó ekki svo gerspilltur, að hann hikstar á ósannindunum. Vandræði útgerðarinnar verður að leysa, en það virðist svo, að málið sé ekki nægilega undirbúið til þess, að hægt sé að leysa það á þessu þingi, þar sem enn hefir ekki verið bent á neina tekjuöflunarleið, sem hægt er að fara til að standast þann kostnað, sem framkvæmd væntanlegrar löggjafar um þetta mundi hafa í för með sér. Að vísu hefir hv. þm. G.-K. látið í ljós, að hann mundi benda á leið til tekjuöflunar, og hæstv. atvmrh. lýsti því yfir í gær, að það mundi verða tekið til athugunar í stj., hvort takast mætti að leysa málið á þeim grundvelli nú þegar á þessu þingi.

Mín skoðun er sú, að til Skuldaskilasjóðs útgerðarmanna ætti að stofna á svipaðan hátt og Kreppulánasjóðs, og ef sú leið væri farin, mætti leysa málið nú þegar á þessu þingi. Að fara þá leið þykir ýmsum ófært, vegna þess að það leiði til þess, að festist of mikið veltufé landsmanna í bönkunum um langan tíma. En því er þar til að svara, að þá er ekki annað en að taka lán, ef ýtrasta nauðsyn krefur, til þess að auka veltufé bunkanna, eða þá að auka seðlaútgáfuna. Að vísu má þá segja, að allt beri að sama brunni, ef einhverntíma verður að taka lán til þessa, og betra sé að taka lán strax til að standa undir væntanlegum Skuldaskilasjóði. En frestur á lántöku í lengstu lög getur aldrei verið skaði. Frestur er á illu beztur. Og oft er það svo í lífinu, að sá, sem vinnur tíma, vinnur allt. Ég held því að öllu athuguðu, að enginn geti bent á aðra heppilegri leið í þessu máli til að leysa það á þessu þingi heldur en að til þessa skuldaskilasjóð, verði stofnað á suma hátt og Kreppulánasjóðs.