09.11.1934
Neðri deild: 32. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í C-deild Alþingistíðinda. (4132)

128. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Þorbergur Þorleifsson:

Ég bað um orðið á meðan hv. 6. þm. Reykv. var að tala um ræðu mína. Ég hélt, að hann ætlaði að svara ræðunni, en það varð ekki af því. En fyrst ég bað um orðið, er rétt að ég kvitti fyrir skammirnar frá hv. þm. Hann lét falla í minn garð persónulegan skæting, sem kom málinu ekki minnstu ögn við. Hann ávarpaði mig á þann hátt, sem enginn hv. þm. hefir áður gert. Þessi hv. þm. virðist eiga sökótt við marga hér á þingi, enda hefir hann fengið áminningar hjá sumum, og er það ekki nema réttmætt, ef hann heldur áfram uppteknum hætti.

Það er svo, samkvæmt einhverju órjúfanlegu lífslögmáli í mannlegri tilveru, að á öllum tímum er snúizt eins við samskonar fyrirbærum. Þessi hv. þm. virðist helzt hafa tekið sér til fyrirmyndar Þorkel Hák, eða hann virðist vera hans andlegur afkomandi — enda upprunninn á sömu slóðum —, og mun líka uppskera eftir því. Hv. þm. virðist hafa orðið allbumbult af ræðu minni og þótt hún góð, og sagði að hún hefði verið skrifuð. Þótt það skipti nú að vísu engu máli, hvort ræða er skrifuð eða óskrifuð, þá vil ég lenda hv. þm. á það, að hann getur bara ekkert um það sagt, hvort ræðan var skrifuð eða ekki. Hann veit ekkert um það. Ég hélt á nokkrum blöðum fyrir framan mig meðan ég talaði, sumum skrifuðum, öðrum óskrifuðum, eins og þm. og aðrir, sem flytja ræður, eru vanir að hafa. Hann getur því ekkert um það sagt, hvað ég hafði skrifað af því, sem ég sagði, og hvað ekki. Hann veit ekkert um það, og kemur það heldur ekkert við. Ég mun ekki spyrja hv. þm. neitt um það, hvenær ég tala af blöðum hér í þinginu og hvenær ekki. — Hv. þm. spurði, hvort ég hefði samið ræðuna sjálfur. Það er eðlilegt hann spyrji svo. Það hefir verið upplýst, að sú ræða, sem hann flutti við framsögu þessa máls, sé samin af öðrum, jafnvel nefnd manna. Hann á því sjálfsagt erfitt með að gera sér grein fyrir, að hægt sé að semja góða ræðu án hjálpar. Sjálfur hefir hann flutt eina góða ræðu í þinginu, og hún er þá svona tilorðin.

En fyrst þessi hv. þm. er að tala um skrifaðar ræður og finnst þær eitthvað athugaverðar, er rétt að minna hann á það, sem hv. þm. Barð. hefir upplýst, að þessi sami hv. 6. þm. Reykv. hafi á framboðsfundum í Barðastrandarsýslu lesið allt, sem hann hafði að segja, upp úr skrifaðri vasabók, en þegar vasabókina þraut, þá gat hann ekkert meira sagt. Þá var hann alveg tómur. Ég held, að það færi vel á því, að hv. þm. tæki aftur upp hér í þinginu þennan vasabókarsið. Það er miklu betra að lesa frambærilegar ræður upp úr vasabók en að halda jafnauðvirðilegar ræður eins og þessi hv. þm. hefir gert hér í þinginu vasabókarlaus.

Hv. þm. talaði um, að ég hefði haft fyrir texta að ræðu minni „Frestur er á illu beztur“ — nefnilega þessu máli, sem hér er verið að ræða um. Annahvort skilur nú ekki þessi hv. þm., hvað texti er, eða þá að hann er svo vanur fölsunum í ræðu og riti, að hann hefir þarna ekki getað brugðið vananum. Ég endaði nefnilega ræðu mína á þeim orðum, sem hann sagði, að ég hefði haft fyrir texta. Ég endaði á því, að það væri bezt að geta sem lengst frestað því að taka lán, ef mögulegt væri að komast hjá því. En það sýndi ég fram á, að væri hægt í þessu falli, með því að stofna til Skuldaskilajóð, útgerðarmanna á sama hátt og Kreppulánasjóðs. Texti minn var allt annar. Ég veit ekki, hvort hann finnst í vasabók hv. þm., en hann var nokkur orð tekin úr ræðu þessa sama hv. 6. þm. Reykv., sem hann hélt hér í þinginu og hljóðuðu um, að við „framsóknarmenn reyndum að gera öll mál að kosningabeitu“. Ég lagði út af þessum orðum og sýndi fram á, að það er einmitt þessi hv. þm., sem er að reyna að gera þetta mál að kosningabeitu. Þessu gat hann engu svarað, en í reiðinni yfir því, að ég skyldi dirfast að fletta ofan af blekkingum hans í þessu máli, belgir hann sig svona upp og svarar með skömmum og persónulegum skætingi í stað raka. Það hefir jafnan verið háttur þess, hv. þm. hér í þinginu, þá stuttu stund, sem hann er búinn að vera hér, að rökræða ekki málin sjálf, en ausa menn auri og illyrðum og reyna að velja þeim hæðileg orð. Hann hélt víst, að hann væri fyndinn, þegar hann kallaði nokkra þm. smáfiska og aðra þingpeð. Það lítur út fyrir, að hann viti ekki, hve grátbroslegur hann er sjálfur og hlægilegur, samfara því að vera brjóstumkennanlegur, þegar hann er að halda ræður hér í þinginu utan við efnið og innihaldslausar, fullar af skömmum, dylgjum og allskonar óþverra. Það fylgir alltaf einhver óhugur orðum þessa hv. þm.; það fara um mann einhverjir óþægilegir straumar, þegar hann er að tala, eitthvað, sem minnir mann á dauðann, en ekki lífið. Þrátt fyrir liðugt tungutak talar hann aldrei eins og sá, sem vald hefir. Hann virðist halda, að hann sé einhver reginstórfiskur á hafi mannlífsins og drottning í stjórnmálatafli íhaldsins í landinu. Viljann mun hann ekki vanta til stuðnings við hinn verri málstað, hvað sem um annað er að segja. Má vel vera, að hann með réttu geti talizt illhveli á hinu mikla úthafi, en í tafli stjórnmálanna verður hann aldrei annað en peð, sem aldrei kemst upp í borðið og ekkert gagn gerir. En þetta er nú allt gott og blessað, hitt er verra, að þessi hv. þm. hefir gert sig sekan um það, sem ég bygg, að enginn láti sér sæma, sem teljast vill drengur góður. Hann hefir hvað eftir annað sveigt að því, sem mönnum er ósjálfrátt, eins og t. d. málfar manna. Hann má vita það, þessi hv. þm., að það eru þeir menn hér í d., sem ekki munu líða honum átölulaust slíka þursmennsku, svo að ég viðhafi hans eigin orð. Hann hefir, þessi hv. þm., látið sér sæma að kalla samþm. sína ferhyrnda og þursa. „Maður, líttu þér nær“. Ég held, að hann sjálfur ætti að líta sér nær. Það er einmitt hann sjálfur, sem er að reyna, af veikum mætti þó, að hnífla menn. Það er einmitt hann, sem um langan tíma — og heldur því áfram hér í þinginu — hefir verið að reyna að blekkja og slá ryki í augu þjóðarinnar, hann, sem hefir rekið bergþursapólitík. Það er hann, sem hefir, með sinni blaðamennsku, verið að reyna að villa íslenzku þjóðinni sýn, gera hana rangsýna, svo að hún geti ekki greint rétt frá röngu, og alþýðuna ánægða með sitt auma hlutskipti. Hann gæti einmitt, þessi sami hv. þm. Reykv., tekið sér í munn orð „Dofrans“ í „Pétri Gaut“: „Í vinstra augað ég sker örlitla rispu, svo skekkist sjáin, og svo ætla ég að stinga út hægri skjáinn, — svo afbragð sýnist þér allt, sem þú sér“. Það er þetta, sem hv. þm. hefir verið að reyna að gera við íslenzku þjóðina, og sama er hann að reyna hér á hv. Alþingi í þessu máli. En eins og vökumenn þjóðarinnar hafa, verndað hana fyrir því að verðu ofurselda bergþursunum og þeirra pólitík, eins munu þeir líka vernda hana fyrir blekkingum hv. þm. í þessu máli. Það eru blekkingar, hvernig hann snerist við ræðu minni. Ég tók þessu máli vel og sagði, að það yrði að leysa málið, ef unnt væri, á þessu þingi. En ég benti jafnframt á, að málið væri illa undirbúið, og því hæpið, að hægt væri að ganga frá því nú þegar, nema bent yrði á, eins og hv. þm. G.-K. gaf í skyn að hann ætlaði að gera, einhverjar leiðir, sem færar væru til tekjuöflunar, til þess að sjá fjárhagshlið málsins borgið. Hinsvegar benti ég á leið, sem auðvelt hefði verið að fara til þess að leysa málið nú þegar á þessu þingi, og sú leið var að stofna til Skuldaskilasjóðs útgerðarmanna á sama hátt og Kreppulánasjóðs. — Ég sé ekki ástæðu til að eða fleiri orðum að þessu, hv. þm. svaraði engu af því, sem ég sagði, og þótt ég neyddist til að taka þm. í gegn, vildi ég helzt komast hjá því og ræða eingöngu málin sjálf. En hv. þm. þarf ekki að halda, að hann geti komizt upp með þá framkomu, er hann hefir haft við mig hér í þinginu.