09.11.1934
Neðri deild: 32. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í C-deild Alþingistíðinda. (4133)

128. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Finnur Jónsson:

Þess hefir verið krafizt af tveimur nm. í sjútvn., að þeir greiddu atkv. um þetta mál án þess að hafa séð það eða kynnt sér það. Það hefir og verið gert að árásarefni á sjútvn., að hún vildi ekki flytja þetta frv. að órannsökuðu máli. Ég hefi tekið það fram áður, að ég var ókunnugur frv. þegar hv. sjálfstm. í sjútvn. kröfðust, að ég tæki það til flutnings, og ég ítreka það hér. Þessi krafa til okkar Alþfln. og framsóknarm. í sjútvn. gæti ekki byggzt á öðru en því, að þeir, sem heimta þetta, væru svo kunnir ágætismenn með þekkingu á þessu sviði, að afskipti þeirra af málinu væru næg trygging fyrir ágæti þess.

Viðvíkjandi hv. þm. Vestm. er það að segja, að við höfum töluvert unnið saman, og get ég margt vel um hann sagt. Hann hefir oft rifið sig undan járnhörðum aga Sjálfstfl., ef skoðanir hans hafa fallið saman við skoðanir andstæðinganna. Um hv. 6. þm. Reykv. er allt öðru máli að gegna. Viðkynning mín af honum er þannig, að hann er frá mér einskis trausts verður. Það traust sem þessi hv. þm. krefst, að borið sé til sín, hefði átt að byggjast á því, að hann væri bæði kunnugur og velviljaður þessum atvinnurekstri, er hér um ræðir. Ég álít hinsvegar hvorttveggja fjarri sanni. Ég mundi ekki fara að draga þetta inn í umr., ef hv. þm. hefði eigi sjálfur byrjað á því. Hann hefir oft vikið að gömlum deilum milli okkar, sem ekki virðist ástæða til að vera að rekja hér á Alþingi. Ég hefi ekki hirt um að svara þessu hingað til, en sé nú hinsvegar ekki ástæðu til þess að þegja alltaf við því. Þessi hv. þm. gerir miklar kröfur um það, að borið sé traust til hans í atvinnumálum. Ég fyrir mitt leyti ber lítið traust til hans í þeim málum. Ég hefi unnið með þessum hv. þm. í bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar í mörg ár. Öll þau ár bar þessi hv. þm. aldrei fram neina nýtilega till., er til framfara horfði. Hann var auk þess latur og setti sig illa inn í þau mál, er hann átti um að fjalla. Hinsvegar var þessi hv. þm. alla tíð skömmóttur, og kem ég að því síðar, hve dýr þessi ágalli hans varð flokksmönnum hans á Ísafirði. Ég gat þess áður, að eitt af því, sem krafan um, að við flyttum frv. þetta óséð, hefði átt að eiga stoð sína í, væri það, að þessi hv. þm. hefði sýnt velvilja sinn til atvinnuveganna. En ég hefi ljóst dæmi um, að það verður eigi um hann sagt. Íhaldið á Ísafirði var í mörg ár búið að vera í minni hluta. Það var tekið að örvænta um framtíð sína og beitti öllum brögðum, þar á meðal atvinnukúgun, en ekkert stoðaði. Þá var það, að flokkurinn tók það ráð, að áeggjan hv. 6. þm. Reykv., að selja burtu skipin úr bænum, til þess að reyna að svelta alþýðuna á Ísafirði til hlýðni. Á einu ári voru seld 11 skip frá annari peningastofnuninni á Ísafirði. Og hv. 6. þm. Reykv. hlakkaði yfir þessu í blaði sínu. Hann hlakkaði yfir því, að nú yrði alþýðan á Ísafirði að krjúpa að krossinum og kyssa á steyttan hnefa Íhaldsins. En þessu var afstýrt, og ég átti minn þátt í því. Samvinnufélag Ísfirðinga var stofnað. Það var ekki af áhuga fyrir að verða framkvæmdarstjóri, að ég tók að mér að veita félaginu forstöðu, heldur var það fyrir áeggjan flokksbræðra minna, að ég gerði það. — Þeim voða, er fólkinu á Ísafirði var búinn, var þannig afstýrt, og ég hefi í 5 ár verið að reyna að bæta fyrir þetta illvirki, sem flokksmenn hv. 6. þm. Reykv. frömdu á Ísafjarðarkaupstað. Það verk, sem Alþfl. á Ísafirði lagði í, var bjargráðastarf við niðurrifsstarfi Íhaldsins. Og svo leyfir hv. 6. þm. Reykv. sér að ráðast á mig í tilefni af þessu, og notar tækifærið til þess að meiða mig persónulega, enda þótt hann viti, að ég er enn að vinna að þessu björgunarstarfi.

Þessi hv. þm. hefir barizt á móti sérhverri framfaraviðleitni í þeim kaupstað, er hann hefir lengst af alið aldur sinn í, og með það fyrir augum hefði sjútvn. samt átt að flytja frv., af því að það væri frá honum runnið. Nei, það má hver lá mér, sem vill, að ég fylgi ekki blint till. þessa hv. þm., honum hafa ekki farizt svo vel þau störf úr hendi, sem ég þekki til, að honum hefir verið trúað fyrir. Hvernig getur hv. þm. ætlazt til, að ég sýni honum slíkt traust? Til glöggvunar fyrir hv. þm. vil ég lýsa þessu stuttlega. Ég vil byrja á því, er þessi hv. þm. stundaði barnakennslu. Þá afhendir hann börnunum sem lesbók söguþætti Gísla Konráðssonar. Í þessari bók er fullt af frásögnum um morð, þjófnaði, nauðganir og annað þvílíkt. Fyrir þetta fekk hv. þm. áminningu frá fyrrv. fræðslumálastjóra, Jóni Þórarinssyni. Þá stundaði þessi hv. þm. búnaðarstörf, og það er gaman fyrir bændurna hér í þinginu, sem hann ætíð var að setja sig á háast hest við, að athug., hvernig honum hafi farnazt þau störf. Hann hafði á hendi framkvæmdarstjórn fyrir Búnaðarfélag Vestfjarða á gróðrarstöð félagsins á Ísafirði. Þessi spilda er um 4—5 dagsláttur. Hann eyddi í þessa spildu á tveimur árum 30 þús. kr., og er hann skildi við hana, óx þar ekkert annað en arfi. Þetta eru störf hans í þágu landbúnaðarins, og er ekki nema eðlilegt, að hann tali digurbarkalega um landbúnaðarmál, þegar þau eru rædd hér í þinginu. Ég býst við að hv. þm. bendi nú á sér til málsbóta, að hann hafi stofnað útgerðarfyrirtæki. Flestir hluthafarnir í þessu fyrirtæki bjuggu í umdæmi Ísafjarðarkaupstaðar, en togarinn, sem keyptur var, var ekki skrásettur á Ísafirði, heldur á Önundarfirði, til þess að Ísfirðingar nytu ekki atvinnunnar. Ég sé ekki ástæðu til að fara út í stjórn þessa fyrirtækis. en niðurstaðan varð sú, að félagið fór á höfuðið, og ég ætla, að hv. þm. hafi stjórnað því þá er fyrst keyrði um koll. Hvort sem litið er til lands eða sjávar, er sami sortinn yfir starfi þessa hv. þm. Það hefir aldrei komið fyrir, að hv. þm. með verkum sínum ynni sér traust þeirra, er veitt hafa þeim athygli. Samfara barnakennslu stundaði þessi hv. þm. ritstjórn. Því lengur, sem hann stjórnaði blaði Íhaldsins á Ísafirði, þess dýpra sökk Íhaldið, og það á rót sína í því, að hv. 6. þm. Reykv. drepur það undir sér, sem honum er trúað fyrir. Það átti rót sína að rekja til þess, hve illyrtur og skömmóttur hann var. Það átti rót sína að rekja til fáfræði hans í þeim málum, sem hann fékkst við, og skeytingarleysis hans í því, að setja sig inn í málin. Og auk þess sem framkoma hans gagnvart andstæðingunum var illkvittnisleg, var hún um leið svo heimskuleg, að hún varð þeim æfinlega fremur til gagns en glötunar.

Ég skal játa það, að ég tel ekki alveg brennt fyrir það, að hv. þm. hafi fjármálavit á sína vísu. (Forseti: Ég bið hv. þm. að fara að stytta mál sitt, því að umr. eru farnar að verða allmjög utan við málið sjálft). Ég mun verða við þeirri ósk hæstv. forseta, að stytta mál mitt. En ég þóttist hafa ástæðu til að bera hönd fyrir höfuð mér og vildi ennfremur gera grein fyrir því, hvers vegna ég gat ekki gengið inn á tillögur hv. 6. þm. Reykv. án þess að grannskoða þær niður í kjölinn. Ég þóttist til neyddur að segja skoðun mína á manninum, þar sem hann ætlaðist til, að sjútvn. gengist inn á tillögur frá sér áður en hún hafði kynnt sér þær. Ég vildi gefa upplýsingar um það, hvort rétt hefði verið að treysta till. frá slíkum manni að óséðu.

Hv. 6. þm. Reykv. gaf mér það ráð, að ég skyldi hypja mig af þingi. Hann hefir áður gefið mér það ráð, að víkja úr vegi fyrir sér. En þrátt fyrir það varð það hann, sem hypjaði sig frá Ísafirði á flótta fyrir þeim framfaramálum, sem hann hafði alla æfi barizt á móti, og skildi mig eftir sigrandi á vígvellinum. Hv. þm. hefir alla tíð verið mylnusteinn um háls flokks síns og velunnara. Og nú vil ég að síðustu mæla svo um, að hann megi verða hinn sami mylnusteinn um háls Íhaldinu hér syðra og hann var fyrir vestan og sökkva allri þess pólitík niður í hin yztu myrkur.