06.12.1934
Neðri deild: 52. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í C-deild Alþingistíðinda. (4139)

128. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Jóhann Jósefsson:

Ég hafði ætlað mér, áður en gengið væri til dagskrár, að biðja hæstv. forseta að taka sem fyrst á dagskrá frv. til l. um skuldaskilasjóð. Það mál var búið að vera 23 daga í höndum sjútvn., þegar við minnihl.mennirnir í n. neyddumst til að gefa út minnihlutanál., en því var svo útbýtt 4. þ. m. Aðspurður á fundi í sjútvn. taldi meiri hl. sig ekki hafa gefið út neitt nál., og eftir fyrri framkomu hans að dæma, mun hann ekki gera neitt til þess að flýta fyrir málinu. Hinsvegar berast Alþ. áskoranir hvaðanæva af landinu um að sinna þessu máli, og öðrum þeim málum, sem mþn. í sjávarútvegsmálum hefir undirbúið. En mestur áhugi er hjá útgerðarmönnum um það, að frv. um Skuldaskilasjóð gangi fram. Ég þykist þess fullviss, að hæstv. forseti virði svo þann þjóðarvilja, sem kemur fram í hinum mörgu áskorunum, sem Alþ. berast, og hæstv. forseti hefir sjálfur tilkynnt úr forsetastóli, að hann muni verða við þeirri beiðni, að taka málið á dagskrá næstu daga. Ég tel þetta mál svo þýðingarmikið, að það megi ekki bíða.