06.12.1934
Neðri deild: 52. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í C-deild Alþingistíðinda. (4140)

128. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Finnur Jónsson:

Hv. þm. Vestm. er vel kunnugt um það, hvernig á því stendur, að dráttur hefir orðið á því, að sjútvn. afgreiddi þetta mál. Honum er vel kunnugt um það, af því að hann hefir sjálfur tekið þátt í fundahöldum um þetta mál með hæstv. ríkisstj. og bankastjórum Landsbankans og Útvegsbankans. Hv. þm. Vestm. var settur í undirnefnd til að ræða þetta mál við hæstv. stj. og bankastjórana, og hygg ég, að síðasti fundur þeirrar n. hafi verið á föstudaginn var. En laugard. 1. des. var þingfrí, og menn mættu því ekki á fundi sjútvn. En daginn áður en reglulegur fundur átti að vera kusu 2 nm. að gefa út álit án þess að bera það undir meðmn. sína. Þessum hv. þm. er kunnugt um það, að af hálfu stjórnarflokkanna hefir komið fram samvinnutilboð um þetta frv., sem hans flokkur hefir ekki viljað fallast á. Það hefir verið tekið fram, að fyrir næstu verið er ekki hægt að gera neinar ráðstafanir til skuldaskila. Ég vænti, að hv. þm. staðfesti þá sameiginlegu skoðun, að þó að þetta mál gangi nú fram á þinginu, þá verði ekki hægt að koma á skuldaskilasjóði fyrir næstu vertíð. Það kemur því sama stað niður fyrir sjávarútveginn, ef hægt er að leysa málið með samkomulagi á næsta þingi, sem mun eiga að koma saman um miðjan marz.