12.10.1934
Neðri deild: 8. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í C-deild Alþingistíðinda. (4193)

53. mál, opinber ákærandi

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Mér komu undarlega fyrir sjónir ummæli hæstv. forsrh. þar sem hann segist munu leggja til, að sér verði heimilað að skipa 3 manna n. til athugunar þessum málum. Þetta á að vera milliþn., sem taki réttarfarsmálin yfirleitt til meðferðar. Þetta þykir mér næsta undarlegt, því að ég veit ekki betur en að fyrrv. stjórnir hafi komið þessu máli þó nokkuð áleiðis. Í fjárl. hafa verið áætlaðar upphæðir til málanna, og úr ríkissjóði hefir verið greitt fé þeirra. Er nokkuð síðan skipaðir voru menn til að undirbúa breytingar á hegningarl. og jafnframt á meðferð sakamála. Veit ég, að tveir menn hafa, mikið starfað að þessu, og eina maður hefir haft föst laun a. m. k. í 2 ár, að ég held til þess að semja breytingar og koma með frv. um endurbætur á hegningarl. Veit ég ekki, hvað þessum málum er langt komið, og þætti mér því vænt um, ef hæstv. dómsmrh. vildi skýra frá því, hvað þeim líður.

Á undanförnum þingum hefir verið veitt fé til að semja ný l. um meðferð einkamála. Hefir einn dómaranna í hæstarétti, Einar Arnórsson, verið erlendis til að semja frv. þess efnis, og hefir hann nú sent það stj. Hefði að sjálfsögðu átt að leggja þetta frv. fram á Alþingi. En í stað þess, að leggja fram þetta frv. og ýta undir þá menn, sem þegið hafa fé til þess að starfa að endurbótum á refsilöggjöfinni, lýsir hæstv. dómsmrh. yfir því, að hann ætli að fara fram á heimild til að mega skipa 3 manna. n. til að vinna þetta. Ef slíkrar n. þyrfti við, þá held ég að Alþingi sé skipað svo mörgum mönnum, að það gæti sjálft kosið slíka nefnd.

Ég skil ekki, hverskonar skollaleik hér er verið að leika, hvers vegna. stj. vill ekki byggja á þeim grundvelli, sem fyrir er, heldur fá nýja menn til að vinna þetta. Þegar svo þessi stj. fer frá, skipar væntanlega næsta stj. aðra menn til að athuga það sama og þessir 3 menn hafa gert.

Þá er það ekkert aðalatriði að tvinna málin saman, eins og hæstv. dómsmrh. vill. Einkamál og opinber mál eru svo fjarskyld, að hvorn flokkinn má taka til meðferðar í sínu frv.

Og þó að allt væri rétt, sem hæstv. dómsmrh. og hv. 1. landsk. sögðu, þá má benda á það, að þetta frv. snertir sérstaklega löggjöf, sem til er, sem sé löggjöfina um hæstarétt. Held ég, að sú löggjöf sé ekki svo mjög á eftir tímanum, að ekki sé hægt að samþ. þetta frv. Starf hins opinbera ákæranda verður við hæstarétt, og hljóta því ákvæðin um hann að tvinnast inn í þá löggjöf, eða að vera sérstök lög.

Ég vil vænta þess, að hæstv. dómsmrh. leggi fyrir þingið áðurnefnt frv., og gefi auk þess skýrslu um það, hvers vænta megi af starfi þeirra manna, sem undanfarið hafa unnið að endurbótum refsilöggjafarinnar.