26.10.1934
Neðri deild: 20. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í C-deild Alþingistíðinda. (4221)

95. mál, fátækralög

Jakob Möller [óyfirl.]:

Annað aðalatriði þessa frv. er að banna svokallaðan sveitarflutning, og mér skilst, að það muni leiða af sjálfu sér af hinu aðalatriðinu, að hann falli niður, sem sé því, að menn skuli eiga sveitfesti þar, sem þeir eiga lögheimili. Það virðist lítil ástæða til að óttast fátækraflutning eftir að búið er að lögfesta það ákvæði. Hinsvegar óttast ég mjög, að með slíkri lagasetningu sem þessari verði stofnað til miklu meiri sveitarflutninga heldur en nokkru sinni áður hafa verið framkvæmdir, því að það er opnuð leið til þess, og eins er sveitarfélögunum beinlínis bent á það, að flytja það fólk burtu frá sér til annara sveitarfélaga, sem ástæða er til að óttast, að verði hjálparþurfa, og afla því þar lögheimilis. Ég gæti því trúað, að úr þessu yrðu, ef ekki sveitarflutningar, þá jafnvel þjóðflutningar í smærri stíl. Ég tel þetta mjög misráðið. Það er með því verið að ýta undir þá skammsýni, sem löngum hefir bólað töluvert á í ýmsum sveitarfélögum, sem sé þá, að losa sig við fólk, og eru þau þannig gerð verr stæð en ella, með því að fækka fólkinu í þeim. Ég held, að það ætti frekar að stuðla að því að halda fólkinu kyrru í sveitunum. En ég er sannfærður um það, að ef þetta frv. verður samþ., þá mun það verka þannig, að fólkið flytur enn meira til kaupst. en áður.