18.12.1934
Neðri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í C-deild Alþingistíðinda. (4224)

53. mál, opinber ákærandi

4224Frsm. minni hl. (Thor Thors):

Það eru örfá atriði í ræðu hv. frsm. meiri hl., sem ég þarf að svara nokkrum orðum. Ég skal ekki karpa um það, hvort Alþfl. hafi tekið ákveðið um opinberan ákæranda úr stefnuskrá Heimdallar. En ég skal þó benda á það, að þetta atriði var tekið í stefnuskrá Heimdallar árið 1931, en í stefnuskrá Alþfl. var það ekki tekið, opinberlega a. m. k., fyrr en núna rétt fyrir síðustu alþingiskosningar. Mér fannst hv. þm. viðurkenna, að hin frjálslega stefnuskrá Heimdallar hefði vakið athygli, og ég get fullvissað hann um, að þau frjálslegu ákvæði, sem þar eru nú, eru fullkomið stefnumál allra í fél. og eru meir og meir að verða sameiginlegt stefnumál alls Sjálfstfl. viðvíkjandi endurskoðun á löggjöfinni vil ég segja það, að ég sé ekki nokkrar líkur til, að árangur þess starfs, ef það á að verða að nokkru gagni, geti komið fyrir næsta þing, ef það á að koma saman 15. marz næstk. Reynsla annara þjóða talar þar skýrt, því að alstaðar í nágrannalöndunum, þar sem slík endurskoðun hefir farið fram, hefir hún staðið yfir í mörg ár. Reynslan hér hefir sýnt það sama, og skal ég í því sambandi benda á, að árið 1930 var Þórður Eyjólfsson skipaður til að endurskoða hegningarlöggjöfina, og hann hefir haft það starf með höndum síðan. Ég hygg, að frátafir hans hafi ekki verið meiri en svo, að hann hafi starfað að þessu óslitið í 2 ár, og hefir mér þó heyrzt á honum, að allmikið vantaði á, að þessu starfi væri lokið. Það er vitanlegt, að þó að nágrannaþjóðirnar hafi leyst af hendi ýmsar rannsóknir í þessu efni, þá verður það ekki að fullum notum fyrir okkur, því að hér er viðhorfið í mörgum greinum allt annað, og við verðum jafnan að fara eftir íslenzkum staðháttum við setning löggjafarinnar. Um dönsku 1öggjöfinu er það að segja að hún hefir fengið mjög rækilegan undirbúning. Sá undirbúningur hófst árið 1905 og var ekki lokið fyrr en árið 1930. En þó að þar komi margt til greina, sem við getum tekið upp, eru þar einnig ýms ákvæði, sem við getum ekki notfært okkur, t. d. munu vera mörg refsiákvæði í dönsku lögunum, sem óvíst er, að við höfum ráð á að hafa hér, því að ég ætla, að þar sé geri ráð fyrir ýmsum tegundum fangahúsa. Svo er annað, sem verður að fara fram við þessa rannsókn, en það er að leita álits og tillagna reyndustu manna hér í þessum efnum. Ég býst við, að hv. frsm. meiri hl., sem sæti á í þeirri nefnd, sem á að rannsaka alla réttarfarslöggjöfina, fyndist það órökstuddar ásakanir, ef ég færi að ásaka nefndina fyrir það 15. marz næstk., að hún væri ekki búin að ljúka störfum sínum. Ég veit, að slíkt væri ómögulegt, og það væri í fyrsta lagi, að hægt væri að leggja þessi mál fyrir þingið 1936. En ef fram koma tillögur til bóta á þessu sviði löggjafarinnar, þá finnst mér sjálfsagt að framkvæma þær endurbætur sem fyrst. Það hefir verið sýnt, að sú breyt., sem hér er um að ræða, getur vel samrýmzt núgiltlandi löggjöf og fellur inn í þann ramma, sem upp verður tekinn við þessa endurskoðun. Ég kem ekki auga á nein sérstök rök, sem mæla með því að fresta þessu máli, enda hygg ég að sá frestur gæti orðið um ófyrirsjáanlegan tíma.

Út af því, sem hv. 11. landsk. sagði um brtt. okkar viðvíkjandi skipun í embættið, verð ég að segja eins og ég hefi áður tekið fram, að ég tel óheppilegt fyrir hæstarétt að taka á sig þann vanda, sem þessu er samfara. Mér finnst, að nóg hafi verið um árásir á hæstarétt, þó að ekki sé verið að freista þess að koma honum í nýjan vanda.